[ Smellið til að sjá stærri mynd ]

Anna Kristine Magnúsdóttir Mikulcáková fæddist 7. mars 1953. Hún lést 6. janúar 2022.

Útförin fór fram 4. febrúar 2022.

Eftir því sem árunum fjölgar kynnist maður fleira fólki og áttar sig á því að sumir persónuleikar eru hreinlega stærri en aðrir. Anna var þar risastór meðal jafningja og ég trúi varla að ég sé að skrifa um hana í þátíð.

Anna Kristine var stórfrænka mín, af stoltu Stórahraunsættinni komin eins og ég. Hún var mikil vinkona mömmu og ég man að þegar ég var krakki fannst mér rosalega svalt að eiga fræga frænku í útvarpinu. Svo mörgum árum síðar þegar mamma veiktist af krabbameini var hún henni mikill klettur og oft gisti mamma hjá henni nóttina eftir lyfjameðferðir þar sem ýmsar óhefðbundnar leiðir voru reyndar til að hjálpa til við batann. Þær áttu dásamleg kvöld saman þar sem þær rifjuðu upp gamla tíma og hlógu og grétu á víxl. Mömmu þótti afskaplega vænt um þessi kvöld.

Eftir að mamma féll frá héldum við Anna sambandi og ég kynntist henni að mörgu leyti upp á nýtt, nú sem fullorðin kona. Áttaði mig á hversu gríðarstórt hjarta sló í brjósti hennar og hversu skemmtileg hún var. Hún hafði miklar og sterkar skoðanir enda mikil áhugakona um samfélagið og íslenskt mannlíf. Eftir að hafa verið virt fjölmiðlakona til fjölda ára veiktist hún og þurfti á endanum að fara á örorku og upplifði þá á eigin skinni aðstæður öryrkja í dag. Þrátt fyrir það vann hún eins og heilsan leyfði við skriftir og blaðamennsku. Hún var mikil baráttumanneskja fyrir réttindum öryrkja og fannst skammarlegt að komið væri svona illa fram við veikt fólk; að því væri bókstaflega refsað fyrir að veikjast.

Anna var alltaf boðin og búin að aðstoða eins og hún gat og þar sem hún þekkti um það bil helming þjóðarinnar bara mjög vel hikaði hún ekki við að nýta þau tengsl fyrir fólkið í kringum sig. Ég var þakklát að geta endurgoldið henni, þó ekki væri nema örlítið af því sem hún hafði gert fyrir okkur mömmu með því að snúast einstaka sinnum fyrir hana þegar ég bjó í nágrenninu. Svo var líka bara alltaf svo gaman að stoppa í kaffi og kjafta þar til ég átti fyrir löngu að vera búin að sækja dótturina í skólann.

Elsku hjartans Anna. Ég trúi því ekki að ég eigi ekki eftir að sjá þig aftur en ég veit að miklir fagnaðarfundir eru hjá ykkur mömmu og mikið talað og hlegið. Knúsaðu hana frá mér.

Elsku, elsku Lízella, mig skortir orð til að lýsa hversu mikið ég samhryggist þér. Megi allar góðar vættir veita þér alla hlýjuna og allan styrkinn í heiminum og ég sendi þér allan þann styrk sem ég mögulega get yfir hafið.

Arnrún Jódísar- og

Eysteinsdóttir.