Peter Ellenberger fæddist í Frauenfeld í Sviss 21. júní 1938. Hann lést á líknardeild Landspítalans 22. janúar 2022.

Foreldrar Peters voru Peter Ellenberger, f. 1904, d. 1980, og Lucie Ellenberger-Gass, f. 1913, d. 2003. Systkini Peters eru Christa, f. 1940, Irmgard, f. 1942, og Gerhard, f. 1946.

Með fyrri konu sinni, Annelies Spaar, á hann Daniel, f. 1966, og Markus, f. 1969. Með seinni konu sinni, Svölu Victorsdóttur, á hann Írisi, f. 1977. Tengdadæturnar eru þrjár og barnabörnin átta.

Peter gekk í grunnskóla í Frauenfeld og Hallau í Sviss og iðnskóla í Schaffhausen þar sem hann lærði tækniteiknun. Hann var 20 og 21 árs í svissneska hernum. Árin 1960-1961 var hann við námi í tækniskóla í Zürich og starfaði sem hönnuður í verkmiðju. Árið 1964 hóf hann störf á rannsóknadeild Alusuisse í Sviss þar sem hann kynntist málmfræði. Árið 1967 fór Peter á vegum fyrirtækisins til starfa í Noregi og síðar til Íslands árið 1969 þar sem hann starfaði hjá Íslenska álfélaginu, ÍSAL, í Straumsvík. Hann vann þar við ýmiss konar tækni- og stjórnunarstörf til ársins 2003 þegar hann fór á eftirlaun. Í frítíma sínum stundaði hann silungsveiði og hestamennsku og hafði yndi af því að dvelja í sumarhúsi sínu í landi Hests í Grímsnesi.

Útför hans fer fram frá Háteigskirkju í dag, 10. febrúar 2022, klukkan 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Ég hitti Peter Ellenberger, eða Ellenberger eins og hann var alltaf kallaður í Straumsvík, fyrst þegar hann kynnti fyrir mér starf sem mér stóð til boða hjá ISAL í Straumsvík – fyrir rúmum 30 árum. Viðmót hans á þeim fundi átti þátt í að ég ákvað að slá til og þiggja starfið, hann var svo skemmtilegur, hress og jákvæður. Hann var að taka við sem framkvæmdastjóri, þ.e. steypuskálastjóri, en ég tók við gamla starfinu hans sem yfirmaður rannsóknarstofu, umhverfismála, öryggismála og samskipta. Það kom í hlut Ellenbergers að setja mig inn í starfið. Það gerði hann bæði vel og samviskusamlega. Raunar studdi hann mig og aðstoðaði eins og hann gat alla tíð og fyrir það er ég þakklát.

Ellenberger lagði frá fyrstu tíð áherslu á að fá hugmyndir að verkefnum og umbótum frá starfsfólki og verðlauna góðar hugmyndir. Þann háttinn höfum við enn á í Straumsvík og þannig lifa áherslur Ellenbergers enn með okkur. Ellenberger var einn af frumherjum starfseminnar í Straumsvík og lagði mikið af mörkum til rekstrarins frá fyrstu tíð. Hann flutti til Íslands frá Sviss með mikilvæga þekkingu sem ekki var fyrir hendi í landinu, þekkingu sem nýttist vel í Straumsvík. Við minnumst Ellenbergers með vinsemd og virðingu, sendum fjölskyldu hans hlýjar samúðarkveðjur.

Með kveðju frá Straumsvík,

Rannveig Rist.