Mexíkó
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Knattspyrnukonan Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir skrifaði á dögunum undir samning við Club América í efstu deild Mexíkó.
Andrea, sem er 26 ára gömul, er uppalin hjá Breiðabliki en hún er fyrsti Íslendingurinn til þess að semja við mexíkóskt félagslið.
Miðjumaðurinn lék með Houston Dash í bandarísku atvinnumannadeildinni fyrir áramót þar sem hún fékk fá tækifæri og kom aðeins við sögu í einum deildarleik með liðinu. Hún hefur einnig leikið með Le Havre í frönsku 1. deildinni og þá á hún að baki 127 leiki í efstu deild með Breiðabliki þar sem hún hefur skorað tíu mörk.
Andrea skrifaði undir samning sem gildir út þetta tímabil í Mexíkó en Club América er sem stendur í fjórða sæti vorkeppni efstu deildarinnar með 13 stig eftir sex leiki af sautján en henni lýkur í maí.
„Ég fékk að æfa með Utah Royals eftir að ég útskrifaðist úr South Florida-háskólanum og þar kynntist ég Craig Harrington, þáverandi þjálfara Utah, en hann þjálfar í dag Club América,“ sagði Andrea í samtali við Morgunblaðið þegar hún var spurð út í vistaskipti sín til Mexíkó.
„Ég fór að velta möguleikunum fyrir mér eftir að það varð ljóst að ég yrði ekki áfram í Houston. Ég og Craig höfum alltaf haldið ágætissambandi og hann hafði áhuga á því að fá mig til Mexíkó. Þegar þetta kom upp þá varð ég strax mjög spennt fyrir tækifærinu og þetta heillaði mig mikið.
Ég hafði úr nokkrum kostum að velja en fyrsti kostur var að vera áfram í Bandaríkjunum. Ég hafði nefnt Mexíkó sem hugsanlegan áfangastað við umboðsmann minn og hans fyrsta svar var að það yrði erfitt þar sem aðeins tveir erlendir leikmenn mega vera í hverju liði.
Þetta kveikti aðeins í mér ef svo má segja og eftir að ég heyrði þetta var ég nánast staðráðin í að fara til Mexíkó ef tækifærið byðist,“ sagði Andrea Rán sem á að baki 12 A-landsleiki fyrir Ísland.
Kom skemmtilega á óvart
Andrea er spennt fyrir því að spila sína fyrstu leiki fyrir félagið en hún bíður nú eftir leikheimild með liðinu.
„Maður er í smá „búbblu“ á Íslandi og þaðan er horft mikið til Evrópu. Bandaríska atvinnudeildin er ein sú sterkasta í heimi en það er lítið talað um deildina á meðan deildirnar í Þýskalandi og Frakklandi fá mikla athygli. Við sjáum oft og tíðum bara það sem er í fréttum og það er ekki mikið skrifað um þessar deildir í Norður- og Suður-Ameríku. Ég fór að fylgjast vel með leikjum Club Ameríca eftir að ég frétti af áhuga þeirra og leikstíll liðsins sem dæmi heillaði mig mikið. Það kom líka skemmtilega á óvart að sjá hversu sterk deildin er í raun og veru.
Ég vonast til þess að fá leikheimild með liðinu í næstu viku en Mexíkóborg er í rúmlega 2.000 metra hæð yfir sjávarmáli. Ég þarf að venjast loftinu hérna og það er þess vegna gott að fá smá tíma til þess að einbeita sér eingöngu að æfingum. Það er stutt í landsleikjahlé og þá fæ ég líka góðan tíma til þess að koma mér enn þá betur inn í hlutina en þessar fyrstu æfingar með liðsfélögunum lofa góðu. Stelpurnar hérna eru mjög teknískar og hraðinn er mikill á æfingum. Þetta er mikið fram og til baka og þær mexíkósku elska að skjóta á markið.“
Kvennaboltinn hátt skrifaður
Andrea hefur fundið fyrir miklum áhuga frá stuðningsmönnum félagsins frá því hún samdi við félagið sem leikur meðal annars heimaleiki sína á Azteca-leikvanginum sem er sögufrægasti völlur landsins og tekur 81.000 manns í sæti.
„Knattspyrnukonur njóta mikillar virðingar hérna sem er mjög jákvætt. Æfingasvæðið okkar er við hliðina á æfingasvæði karlanna og við erum með sér grasvöll fyrir okkur. Við notum sömu líkamsrækt og strákarnir og aðstaðan og umgjörðin í kringum kvennaliðið er algjörlega til fyrirmyndar. Stuðningsmenn félagsins hafa verið frábærir síðan ég kom og ég er komin með tæplega 80.000 fylgjendur á Instagram sem dæmi en ég held að þeir hafi verið í kringum 2.700 áður en ég samdi við félagið.
Stuðningsmennirnir bíða svo fyrir utan æfingasvæðið til þess að fá eiginhandaráritanir og myndir af sér með okkur eftir æfingar og manni líður hálfpartinn eins og Lionel Messi hérna. Ég er búinn að fá þvílíkan fjölda af skilaboðum frá stuðningsmönnum og vinabeiðnir á Facebook síðan ég skrifaði undir sem segir manni að það er fylgst mjög vel með kvennaboltanum hérna,“ bætti Andrea Rán við í samtali við Morgunblaðið.