[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjörtur Þórarinsson fæddist á Miðhúsum í Reykhólahreppi 10.2. 1927 og ólst þar upp til 12 ára aldurs en síðan á Reykhólum, við almenn sveitastörf og hlunnindabúskap þess tíma, svo sem selveiðar, eggja- og dúntekju og heyskap í ýmsum eyjum Breiðafjarðar.

Hjörtur Þórarinsson fæddist á Miðhúsum í Reykhólahreppi 10.2. 1927 og ólst þar upp til 12 ára aldurs en síðan á Reykhólum, við almenn sveitastörf og hlunnindabúskap þess tíma, svo sem selveiðar, eggja- og dúntekju og heyskap í ýmsum eyjum Breiðafjarðar.

Hjörtur naut farkennslu í sinni sveit og stundaði síðan nám við Unglingaskóla Flateyrar og við Unglingaskóla Árelíusar Níelssonar á Stað á Reykjanesi. Hann lauk almennu kennara- og söngkennaranámi vorið 1948, íþróttakennaranámi 1949 og var síðan við nám í Danmarks Lærerhöjskole 1965-66.

Hjörtur kenndi við Barnaskólann og Miðskólann í Stykkishólmi 1949-51, við Barna- og unglingaskólann á Selfossi 1951-59, við Flensborgarskóla 1959-60 og á Selfossi 1960-61. Hann var skólastjóri á Kleppjárnsreykjum í Borgarfirði 1961-78 og sinnti þá jafnframt ökukennslu í héraðinu.

Hjörtur var síðan kennari við Gagnfræðaskólann á Selfossi 1978-80 og framkvæmdastjóri Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga 1980-94.

Hjörtur var formaður skólanefndar Fjölbrautaskólans á Selfossi 1981-94 og formaður Hollvarðasamtaka skólans 2002-2019. Hann var rekstrarstjóri Tónlistarskóla Árnesinga 1978-2005. Hann kom að stofnun tónlistarfélaga í Árnessýslu og í Borgarfirði og var meðal stofnenda tónlistarskóla á þessum stöðum.

Hjörtur hefur starfað með Kiwanishreyfingunni í Borgarfirði og á Selfossi frá 1972 og hefur sinnt ýmsum öðrum félagsstörfum: „Ég lít á það sem ómetanlegt tækifæri á lífsferlinum að hafa fengið að starfa í Frímúrarareglunni í 65 ár. Auk þess hefur þátttaka mín í kórum verið með litlum frávikum frá 1940. Það hefur verið óþrjótandi lind ánægju og sálarbóta. Í Reykholti var ég formaður sóknarnefndar í sex ár og á Selfossi fékk ég tækifæri til að leggja kirkjunni lið um árabil.“

Hjörtur var ritstjóri Þjóðólfs, blaðs framsóknarmanna á Suðurlandi, í tvö ár og skrifaði leiðara í Dagskrána á Selfossi í nokkur ár. Þá hefur hann ritstýrt og sá um útgáfu á Umhverfinu, blaði Kiwanismanna á Selfossi, frá 1979-2013.

Árið 1997 tóku áhugamenn að minnast Fjalla-Eyvindar og Höllu. Hjörtur fór fyrir því verkefni. Dvalarstaðir þeirra víða um land voru merktir og árið 2012 gaf Ferðafélag Íslands út fræðsluritið „Afreksfólk öræfanna“ eftir Hjört.

„Ég var formaður Félags eldri borgara á Selfossi í 14 ár og fram til 2013 starfaði ég með Félagi áhugafólks um íþróttir aldraðra vítt um land um tuttugu ára skeið.“

Sveitarfélagið Árborg, Töðugjöldin og Sunnlenska fréttablaðið veittu Hirti viðurkenningu fyrir störf hans að menningarmálum.

„Ég hef flokkað safn mitt af stökum og tækifærisljóðum og komin eru út tvö hefti af sönglögum; „Tónlistin gleður“, söngvar fyrir kóra með ljóðum eftir mig.

Ég er heilsuhraustur og á síðkvöldi ævi minnar nýt ég þess að búa hjá dóttur minni og tengdasyni á Bókfelli í Mosfellsdal og nýt samvista við barnabörn, þeirra fjölskyldur og tvær litlar langafadætur.“

Fjölskylda

Eiginkona Hjartar var Ólöf Sigurðardóttir, f. 25.11. 1927, d. 4.8. 1995, hússtjórnarkennari. Seinni kona Hjartar var Bryndís Steinþórsdóttir, f. 1.9. 1928, d. 30.7. 2019, hússtjórnarkennari.

Kjördóttir Hjartar og Ólafar er Sigrún, f. 12.8. 1960, læknir, gift Birni Geir Leifssyni lækni og eru börn þeirra Hjörtur Geir, f. 1989, sambýliskona Árdís Árnadóttir, f. 1992, dóttir þeirra er Viktoría Dís f. 2021, Ólafur Hrafn, f. 1992, sambýliskona Unnur Bergmann f. 1992, dóttir þeirra er Andrea Sigrún, f. 2020, og Friðrika Hanna, f. 1999.

Alsystkini Hjartar voru Kristín Lilja, f. 12.7. 1922, d. 3.4. 2013, húsfreyja á Grund í Reykhólasveit; Þorsteinn, f. 28.7. 1923, d. 15.1. 1998, járnsmiður í Reykjavík; Sigurlaug Hrefna, f. 27.7. 1924, d. 7.5. 2012, húsfreyja í Kópavogi; Anna, f. 23.8. 1925, d. 17.1. 2017, húsfreyja í Kópavogi.

Hálfsystkini Hjartar, sammæðra, eru Kristín Ingibjörg Tómasdóttir, f. 4.5. 1932, d. 24.12. 2021, yfirljósmóðir, og Sigurgeir Tómasson, f. 6.11. 1933, d. 8.11. 1993, bóndi á Mávavatni á Reykhólum.

Foreldrar Hjartar voru Þórarinn G. Árnason, f. 8.5. 1892, d. 4.7. 1929, bóndi á Miðhúsum, og Steinunn Hjálmarsdóttir, f. 1.12. 1898, d. 28.7. 1990, húsfreyja. Stjúpfaðir Hjartar var Tómas Sigurgeirsson, f. 18.4. 1902 á Stafni í Reykjadal, d. 17.2. 1987, bóndi, síðast á Reykhólum.