Atkvæði skilað Agnieszka Ewa Ziółkowska, formaður Eflingar, kaus á skrifstofu Eflingar.
Atkvæði skilað Agnieszka Ewa Ziółkowska, formaður Eflingar, kaus á skrifstofu Eflingar. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kosning næsta formanns Eflingar og sjö manna í stjórn félagsins hófst klukkan níu í gærmorgun.

Kosning næsta formanns Eflingar og sjö manna í stjórn félagsins hófst klukkan níu í gærmorgun. Þrjú eru í framboði til formanns félagsins; Ólöf Helga Adolfsdóttir, starfandi varaformaður, sem leiðir A-listann, Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður, sem leiðir B-listann og Guðmundur Jónatan Baldursson stjórnarmaður, sem er í forsvari fyrir C-listann. Ómar Friðriksson ræddi við þau um helstu áherslur og baráttumál í kosningunum.

Kosning næsta formanns Eflingar og sjö manna í stjórn félagsins hófst klukkan níu í gærmorgun. Þrjú eru í framboði til formanns félagsins; Ólöf Helga Adolfsdóttir, starfandi varaformaður, sem leiðir A-listann, Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi formaður, sem leiðir B-listann og Guðmundur Jónatan Baldursson stjórnarmaður, sem er í forsvari fyrir C-listann. Ómar Friðriksson ræddi við þau um helstu áherslur og baráttumál í kosningunum.

Þrýsta á aðgerðir í húsnæðismálum

„Að okkar mati eru húsnæðismálin mikilvægust. Það er mikilvægt að byggja upp meira af húsnæði, sérstaklega hjá óhagnaðardrifnum leigufélögum og að auki viljum við reyna að koma á fót leigubremsu, þannig að það sé fastari rammi á því hversu hátt leigan getur farið miðað við húsnæðið og erum við þá að horfa til danskrar fyrirmyndar, sem tryggir bæði leigjendur og leigusala betur og hefur reynst vel,“ segir Ólöf Helga Adolfsdóttir, frambjóðandi til formennsku í Eflingu og oddviti A-lista uppstillinganefndar.

Hún segir mjög brýnt að ráðist verði sem fyrst í aðgerðir til að leysa húsnæðisvanda launafólks og verkalýðshreyfingin þurfi strax að setja á pressu um úrbætur og aðgerðir.

Hún telur sjálfsagt að samið verði um krónutöluhækkanir í næstu samningum eins og gert var í seinustu samningum. ,,Að sjálfsögðu byrjum við á því að leita til félagsmanna og fáum kröfurnar hjá þeim en eins og ég sé þetta, þá er mesta vitið í því fyrir okkur að semja um krónutöluhækkanir enda er mikilvægt að lægst launaða fólkið fái hærri prósentuhækkun vegna þess að ef launabilið er alltaf að stækka þá verður ójöfnuðurinn sífellt meiri,“ segir hún.

Að mati hennar á Efling að standa áfram að róttækri verkalýðsbaráttu og félagsmenn þurfi alltaf að vera tilbúnir í slaginn ef á þurfi að halda en fyrst þurfi að taka samtalið við samningaborðið og reyna að finna lausnir þar. „Við getum ekki tekið hverju sem er, við þurfum að geta lifað og það er grunnkrafa okkar að Eflingarfélagar geti lifað af laununum sínum.“

Ólöf segir sjálfsagt að skoða aftur svipað fyrirkomulag og samið var um við gerð lífskjarasamninganna en þá þurfi stjórnvöld að koma meira að borðinu og setja verði niður fastar dagsetningar á loforð stjórnvalda um aðgerðir svo hægt sé að fylgja því betur eftir og krefja stjórnvöld um að standa við samkomulagið ,,Við förum harðar í það að ýta á eftir að staðið sé við dagsetningar og tryggðar efndir loforða, sem er ekki síður mikilvægt en krónutöluhækkanir í samningum,“ segir hún.

Ólöf er hlynnt samvinnu innan launaþegahreyfingarinnar. „Ég tel hagsmunum okkar alltaf betur borgið í samvinnu með öðrum stéttarfélögum, hagsmunir okkar launþega eru þeir sömu að mörgu leyti en þó við séum í samvinnu eða samfloti þegar við erum í samningaviðræðum, þarf það ekkert endilega að þýða að að við höfum ákveðið að setja samningsumboðið til Starfsgreinasambandins.“ Spurð hvernig hún vilji leysa úr deilunum innan skrifstofu Eflingar svarar Ólöf: „Mér finnst að tekist hafi mjög vel til við að greiða úr þeim vandamálum sem voru hérna, t.d. með því að fá sálfræðistofu sem gerði mjög góða og faglega úttekt á líðan starfsfólks og við erum að fá leiðbeiningar frá þeim um hvernig best er að halda áfram.“

Vopnin notuð með miklum árangri

„Okkar stærsta og mikilvægasta baráttumál er að Efling sé virkustu og máttugustu hagsmunasamtök verka- og láglaunafólks, þar sem baráttan fyrir réttindum og kjörum félagsfólks er mál málanna,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir um baráttumál Baráttulistans, sem hún leiðir og leggur áherslu á kjörorðin fjöldi, samstaða og sýnileiki. Stefnumál í níu flokkum byggist á sameiginlegri lífsreynslu verka- og láglaunafólks á félagssvæðinu, af störfum innan hreyfingarinnar og fjölmörgum hörðum aðgerðum sem félagið stóð fyrir á seinustu árum. Hún segir að þær aðferðir sem beitt var í stjórnartíð hennar í kjarabaráttunni hafi skilað vinnandi fólki miklum árangri, komið hafi í ljós að félagsmenn hafi verið til í að berjast með félögum sínum, sameinaðir og sterkir með sjálfsvirðinguna að vopni. „Og með þá afdráttarlausu kröfu að okkar ómissandi framlag til íslensks samfélags sé metið að verðleikum. Þetta er sú aðferð sem hefur skilað okkur mestum árangri,“ segir hún. Svo illa hafi verið komið fyrir verka- og láglaunafólki á sínum tíma að forysta þess hafði pakkað gagnlegustu vopnum launafólks ofan í geymslu og þau mátti ekki snerta, „en við sóttum þau og brýndum þau og notuðum með miklum árangri,“ segir hún.

Áfram verður að sögn Sólveigar lögð mikil áhersla á kjarabætur láglaunafólks og að samið verði aftur um krónutöluhækkanir í komandi kjaraviðræðum. Spurð um áhrif hárrar verðbólgu og vaxtahækkana segir hún Baráttulistann gera sér vel grein fyrir þessari stöðu, taki hana alvarlega og greini af vandvirkni en ekki komi til greina að verka- og láglaunafólk verði látið bera byrðarnar. Listinn hafnar hugmyndum um miðstýringu launastefnunnar og innleiðingu Salek-hugmyndafræðinnar, sem hafi nú verið endurskírð grænbók um vinnumarkað. Ekki megi hrófla við verkfallsréttinum og vill Baráttulistinn að þegar næstu samningar verða undirritaðir verði skýr fyrirvari um að þeir verði uppsegjanlegir ef Alþingi hreyfir á minnsta hátt við lagarammanum sem snýr að vinnumarkaðinum eða taki skref í átt að Salek. Að mati hennar var það mikið hneyksli þegar ASÍ skrifaði undir pakka stjórnvalda með loforði um að farið yrði í vinnu við gerð grænbókar um vinnumarkaðinn. „Þetta gera þau án þess að upplýsa okkur á nokkru stigi málsins um þessa fyrirætlun sína og framkvæma svo undirritun án þess að leita samþykkis hjá mér eða samninganefnd Eflingar,“ segir Sólveig. Spurð um breytingar á skipulagi innan Eflingar og hvernig leysa eigi úr deilunum á skrifstofunni segir hún félagsmenn eiga að vera í forgrunni. Hún hafi sem formaður gert allt sem í hennar valdi stóð til að standa vörð um hagsmuni þeirra. Skv. stefnuskrá listans á að gera umbætur í rekstri félagsins.

Fá kröfurnar beint úr grasrótinni

Guðmundur Jónatan Baldursson, frambjóðandi til formanns í Eflingu, sem leiðir C-listann, vill breyta skipulaginu innan Eflingar svo tryggt verði betur að kröfur í kjarabaráttunni komi beint úr grasrótinni. „Við ætlum að búa til litlar fimm manna stjórnir innan Eflingar og ætlum að fá fólk úr grasrótinni, t.d. frá hópferðabílstjórum, tækjamönnum, leikskólafólki og fólki í öldrunarþjónustu, sem fundi einu sinni í mánuði. Þetta fólk þekkir vel til sinna vinnustaða og veit best hvað brennur á fólki og hvað brýnast er að gera til að bæta kjör þess. Síðan verði formenn þessara litlu stjórna fengnir inn í samninganefndir og þar fáum við kröfurnar beint frá fólkinu í grasrótinni,“ segir hann.

Fjölmörg brýn úrlausnarefni blasa við, ekki síst í húsnæðismálum að sögn Guðmundar sem segir að meðal aðgerða sem grípa þurfi til sé að setja þak á leiguverð. ,,Húsnæðiskostnaðurinn vegur gríðarlega þungt,“ segir hann. Staðan sé grafalvarleg. ,,Það selst allt sem kemur í sölu og langt yfir ásettu verði. Fólk er að taka á sig skuldir upp á óheyrilegar upphæðir. Ofan á þetta er svo verð að snarhækka þessa dagana eins og allir finna sem fara út í búð að kaupa í matinn.“

Hann segir þörf á ýmsum aðgerðum og nefnir m.a. hugmyndir sem komið hafa upp innan verkalýðshreyfingarinnar um að ríkisvaldið lækki virðisaukaskatt og einnig að arðgreiðslur bankanna til ríkisins verði notaðar til að létta byrði launafólks. Spurður um áherslur í komandi kjaraviðræðum segir hann að meginkrafan verði á krónutöluhækkanir launa. Menn geri sér hins vegar vel grein fyrir því að samfélagið sé að koma út úr mjög erfiðu tveggja ára tímabili heimsfaraldursins. ,,Við þurfum líka að sækja á ríkisvaldið,“ segir hann og bendir m.a. á að lækka þurfi skatta og létta byrðar vegna hækkunar á eldsneytisverði nú þegar bensínverðið sé að nálgast 300 kr.

Um endurnýjun samninga segir Guðmundur að ríkisvaldið verði að koma þar töluvert að málum og m.a. sjá til þess að vextir lækki. „Ég er ekki að sjá fyrir mér að við séum að fara að standa hér mikið á torgum með mótmælaspjöld og heimta launahækkun þegar við erum að koma út úr svona slæmu tveggja ára stoppi. En ferðaþjónustan er að fara af stað, þar eru menn bjartsýnir á sumarið og þegar hún fer í gang verður meiri bjartsýni í samfélaginu. Ég er bjartsýnn á að við náum fram einhverjum kjarabótum.“ Spurður hvernig hann vilji leysa úr deilunum á skrifstofu Eflingar segist hann ekki hafa neinar áhyggjur af því. „Ég hef aldrei verið í vandræðum með samskipti við fólk og ef ég kemst þarna að, þá mun ég hafa þetta eins og er hjá VR að framkvæmdastjórinn stjórni fólkinu á gólfinu. Ég mun ekki stjórna fólkinu á skrifstofunni frá degi til dags.“