Birgir Thorsteinson fæddist 24. ágúst 1941. Hann lést 1. janúar 2022.
Útför Birgis fór fram frá Hrunakirkju 12. janúar 2022.
Elsku pabbi, það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn og það er sárt að koma heim og þú ekki til staðar fyrir okkur. Þú barst ávallt hag okkar allra fyrir brjósti, alltaf til staðar fyrir okkur stór sem smá og litlu afa- og langafabörnin þín sóttu til þín.
Þú varst fyrirmynd fyrir okkur með svo margt, hagyrðingur af Guðs náð, hugsuður, oft með rissblöðin við hendina og minnismiðana á lofti, þúsundþjalasmiður, skipulagður, varst alltaf að. Þú byggðir húsið okkar og gróðurhúsin frá grunni, hannaðir og smíðaðir m.a. flokkunarvél og færibönd fyrir tómatana, sturtuvagn, tjaldvagn, gerðir upp gamlan Massey Ferguson frá grunni. Einnig prjónaðir þú lopapeysur í samvinnu við mömmu og ekki má gleyma flatkökubakstrinum.
Þú hafðir alltaf löngun til að eignast trillu eða lítinn bát, varst búinn að rannsaka og ná þér í teikningar en hafðir svo ekki heilsu til svo stórra framkvæmda. Í staðinn smíðaðir þú lítinn bát úr kaffidós en entist ekki þrek til að mála hann. Þú elsku pabbi sem varst ávallt fyrstur út til vinnu á morgnana og síðastur inn að kveldi, alltaf að! Þannig var líf þitt allt til enda.
Aleinn ræ ég út á djúpi.
Ó, sú sjónin skær.
Sjórinn gullnum sólskinshjúpi
sveipast, fjær og nær.
(Steingr. Thorsteinsson)
Elsku pabbi okkar, það voru þungbær sporin er við fylgdum þér síðasta spölinn og þung er sorgin og söknuður okkar og mömmu.
En nú ert þú búinn að kasta kápunni og sálin þín er frjáls, því gleðjumst við með þér og hlökkum til að hitta þig í sumarlandinu er okkar tími kemur.
Trúðu á tvennt í heimi
tign sem hæsta ber:
Guð í alheimsgeimi,
Guð í sjálfum þér.
(Steingr. Thorsteinsson)
Sigríður, Axel, Böðvar Bjarki og Þorsteinn.
Það er svo ótrúlegt til þess að hugsa að fá ekki að hitta þig aftur. Að koma til þín og ömmu í morgunkaffi þar sem þú sast í sætinu þínu í horninu, alltaf tilbúinn að gefa þér tíma, hlusta á okkur og spjalla þrátt fyrir að þú hefðir alltaf meira en nóg fyrir stafni. Þú hefur alla tíð verið svo stór partur af okkar lífi, rólegur og yfirvegaður en alltaf stutt í brosið og alltaf til í að hjálpa okkur ef við þurftum á að halda og veita góð ráð þegar þess þurfti.
Mikið sem okkur finnst við vera lánsamar að hafa alist upp svona nálægt ykkur ömmu, verið með í öllu og unnið við hliðina á þér í gróðurhúsunum þínum. Þú sast aldrei auðum höndum, varst alltaf með einhver verkefni í gangi og allt virtist leika í höndunum á þér. Við minnumt þá sérstaklega bátanna sem þú smíðaðir handa okkur úr rauðu mexíkósku kaffidollunum sem við létum sigla í heita pottinum eða útvarpsins sem þú smíðaðir og við hlustuðum á í bílskúrnum meðan við pökkuðum tómötum. Þegar við vorum litlar og þú og amma fóruð til útlanda þá áttum við alltaf von á að fá helstu ferðapunktana frá ykkur á póstkorti sem þið skrifuðuð með hástöfum skýra og skiljanlega svo við gætum örugglega lesið þá. Þegar heim var komið komu yfirleitt upp úr ferðatöskunni sparikjólar sem við systur vorum hæstánægðar með. Amma sagði okkur nýlega að eftir eina ferðina hefðuð þið komið heim með tvö pör af sparikjólum af því þú varst ekki hrifinn af þeim sem hún valdi og hefðir þá farið sjálfur og keypt nýja kjóla á okkur.
Við minnumst þín þar sem þú sast inni á skrifstofunni þinni innan um allar bækurnar að skrá niður og rissa upp hvernig báturinn sem þú ætlaðir að smíða ætti að vera. Allar stundirnar sem þú varst búinn að vera að spá og spekúlera svo nákvæmur eins og með allt annað sem þú gerðir. Það er svo leitt að þér hafi ekki tekist að byrja á draumabátnum þínum því alveg erum við vissar um að þetta hefði orðið stórkostlegur bátur.
Okkur langar að minnast þín með bæninni þinni.
Nú legg ég augun aftur,
ó, Guð, þinn náðarkraftur
mín veri vörn í nótt.
Æ, virst mig að þér taka,
mér yfir láttu vaka
þinn engil, svo ég sofi rótt.
(Sveinbjörn Egilsson)
Þínar afastelpur,
Eva og Sonja.