Kjarnasamruni Sólin er knúin áfram af kjarnasamruna.
Kjarnasamruni Sólin er knúin áfram af kjarnasamruna. — Morgunblaðið/Hari
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Vísindamenn í Bretlandi tilkynntu í gær að þeir hefðu náð að slá fyrri met í orkuframleiðslu með kjarnasamruna, og sögðu þeir að það væru merk tímamót í leitinni að ódýrum og grænum orkugjafa í framtíðinni.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Vísindamenn í Bretlandi tilkynntu í gær að þeir hefðu náð að slá fyrri met í orkuframleiðslu með kjarnasamruna, og sögðu þeir að það væru merk tímamót í leitinni að ódýrum og grænum orkugjafa í framtíðinni.

Kjarnasamruni er sama ferli og sólin notar til þess að framleiða orku, en það felur í sér að kjarnar tveggja frumefna renna saman og mynda nýtt frumefni. Því fylgir mikill hiti, geislun og ljós.

Til þessa hefur ferlið aðallega verið notað í vetnissprengjum, en vísindamenn hafa lengi bundið vonir við að hægt yrði að beisla orkuna sem fylgir samrunanum á friðsamari hátt, sér í lagi í ljósi þess að mun „öruggara“ er að láta atómkjarna renna saman frekar en að kljúfa þá líkt og gert er í öllum kjarnorkuverum í dag, þar sem samruninn getur ekki leitt af sér keðjuverkun og farið úr böndunum.

Metið var sett á rannsóknarstofunni Joint Europen Torus, JET, sem er í nágrenni Oxford, og náðu vísindamennirnir að mynda 59 megajúl af orku í fimm sekúndur. Er það tvöfalt meira en náðist að framleiða árið 1997. Slík orkuframleiðsla þykir ekki mikil í stóra samhenginu, en hún dugar til þess að sjóða vatn í um 60 tekötlum, eða til þess að knýja 35.000 heimili í fimm sekúndur. Engu að síður þykir tilraunin vera merki um þá möguleika sem felist til framtíðar fyrir orkuframleiðslu með kjarnasamruna.

Orkuver tilbúið árið 2050?

Vélin sem framleiddi orkuna er í laginu eins og kleinuhringur, og er sú sem JET á í fórum sínum sú stærsta sem byggð hefur verið til þessa. Hins vegar er nú í smíðum annað slíkt „samrunaver“ í suðurhluta Frakklands, sem kallast ITER.

ITER-verið mun byggja að miklu leyti á þeim niðurstöðum sem JET-tilraunirnar hafa skilað, en það á að vera fullklárað árið 2025. Standa vonir til þess að það ver muni geta haldið kjarnasamrunanum gangandi í rúmlega 300 sekúndur, ef ekki lengur.

Joe Milnes, yfirmaður JET-versins, sagði að ITER-verið sé um 80% tilbúið, og að þá muni starfsemi JET færast þangað. Segir Milnes að þá sé líklegt að samhliða þeim tilraunum sem ITER muni framkvæma verði hægt að hanna raforkuver sem byggi á tækninni. „Ég held að við séum komin hálfa leiðina þangað,“ sagði Milnes, og áætlaði hann að frumgerð að slíku orkuveri gæti verið tilbúin árið 2050.