Hitaveita Olíukatlarnir hafa verið ræstir í fimm þorpum Vestfjarða vegna þess að Landsvirkjun skerðir orkuafhendingu til fjarvarmaveitna.
Hitaveita Olíukatlarnir hafa verið ræstir í fimm þorpum Vestfjarða vegna þess að Landsvirkjun skerðir orkuafhendingu til fjarvarmaveitna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Orkubú Vestfjarða er að undirbúa frekari jarðhitaleit í nágrenni Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Ef það tækist að fá nægilegt heitt vatn fyrir hitaveitur þessara staða, sem nú eru rafkyntar, yrði hægt að færa yfir á jarðhita 80% þeirra notenda á Vestfjörðum sem nú treysta á rafkyntar hitaveitur með skerðanlegri orku. Orkubússtjóri telur eigi að síður þörf á að auka raforkuframleiðslu í landshlutanum og styrkja svæðisbundna flutningskerfið til að auka afhendingaröryggi raforku og telur virkjun í Vatnsfirði besta kostinn.

Baksvið

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Orkubú Vestfjarða er að undirbúa frekari jarðhitaleit í nágrenni Ísafjarðar og Patreksfjarðar. Ef það tækist að fá nægilegt heitt vatn fyrir hitaveitur þessara staða, sem nú eru rafkyntar, yrði hægt að færa yfir á jarðhita 80% þeirra notenda á Vestfjörðum sem nú treysta á rafkyntar hitaveitur með skerðanlegri orku. Orkubússtjóri telur eigi að síður þörf á að auka raforkuframleiðslu í landshlutanum og styrkja svæðisbundna flutningskerfið til að auka afhendingaröryggi raforku og telur virkjun í Vatnsfirði besta kostinn.

Landsvirkjun hóf að skerða afhendingu raforku til fjarvarmaveitna á köldum svæðum á miðnætti. Ástæðan er léleg vatnsstaða á hálendinu og ákvæði í samningum um að skerða megi afhendingu.

Áhrif í sjö byggðarlögum

Hefur skerðingin áhrif á sex fjarvarmaveitur Orkubús Vestfjarða, það er að segja í Bolungarvík, á Ísafirði þar sem tvær ótengdar veitur eru, Suðureyri, Flateyri og Patreksfirði og fjarvarmaveitu Rarik á Seyðisfirði.

Fjarvarmaveiturnar fá ótryggða orku frá Landsvirkjun með um það bil 50% afslætti yfir vetrarmánuðina, og meiri afslætti á sumrin. Mun skerðingin hafa mikil áhrif á fjárhag veitnanna sem þurfa að brenna dýru jarðefnaeldsneyti til að hita vatnið. Aukakostnaðurinn er um 4 milljónir á dag hjá OV, samkvæmt fyrstu áætlunum, sem gera 360 milljónir ef skert verður í þrjá mánuði. Kostnaður Rarik á Seyðisfirði eykst um 60 milljónir. Þá eykur notkun jarðefnaeldisneytis í stað grænnar raforku vistspor starfseminnar mikið.

Elías Jónatansson orkubússtjóri segir að náðst hafi samningar um olíukaup sem geri kostnaðinn eitthvað minni en reiknað var með. Aukakostnaðurinn sé eigi að síður tilfinnanlegur og skerði eigið fé fyrirtækisins og getu til framkvæmda í framtíðinni. Segir hann að þarna fjúki hagnaður síðustu tveggja ára út um gluggann. Engar ákvarðanir hafi þó verið teknar um að draga úr framkvæmdum við uppbyggingu raforkukerfis Vestfjarða.

Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri Rarik, segir að til standi að loka fjarvarmaveitunni á Seyðisfirði. Komið sé að endurnýjun kerfisins og viðræður séu við sveitarfélagið og stjórnvöld um hvað taki við. Rarik er tilbúið að leggja notendum til rafmagnshitatúpur og styrkur úr orkusjóði ætti að duga til að greiða stóran hlut af kostnaði við kaup og uppsetningu varmadælna. Gangi þetta eftir ætti kostnaður allra notenda við húshitun að lækka.

Getur Tryggvi þess til viðbótar að ef ekki hefði verið búið að tengja hitaveituna á Höfn í Hornafirði við jarðhita hefði kostnaður Rarik þar aukist um 150 milljónir vegna skerðinganna nú.

Það hefði komið sér vel fjárhagslega fyrir allar fjarvarmaveiturnar að skipta yfir á forgangsorku. Samningar þeirra við Landsvirkjun heimila það ekki.

Látið reyna á jarðhitaleit

Spurður um lausnir á vanda fjarvarmaveitnanna á Vestfjörðum segir Elías að það sé ekki á valdi fyrirtækisins að leysa bráðavandann öðruvísi en með brennslu olíu. Vísar hann þeirri spurningu til stjórnvalda hvort veitunum verði veittur fjárhagslegur stuðningur eða gripið á annan hátt inn í til að afstýra olíubrennslu. Stjórnendur fyrirtækisins hafi hins vegar verið að líta til lausna á raforkuvanda landshlutans til lengri tíma.

Fyrsta aðgerðin er að halda áfram með leit að jarðhita í nágrenni rafkyntu veitnanna, samkvæmt rannsóknaráætlun sem liggur fyrir. Unnið hefur verið að verkefnum í Súgandafirði, á Patreksfirði, í Bolungarvík og á Flateyri. Nægur jarðhiti hefur þegar fundist í Súgandafirði en annars staðar eru hugsanlegir möguleikar sem byggjast á notkun varmadælna. Fyrir dyrum stendur að leita áfram eftir jarðhita á Ísafirði en þar er talið að jarðhiti leynist þótt vatnsæðin hafi ekki fundist. Elías segir að töluverð áhætta sé við jarðhitaleit. Nefnir að rannsóknir gætu kostað 100 milljónir og þegar hiti finnst þurfi 300 milljónir til viðbótar til að virkja hann. „Við höfum viljað fá orkusjóð með okkur í þetta – og erum tilbúnir með umsókn sem við sendum formlega inn þegar opnað verður fyrir umsóknir,“ segir Elías og bætir við að þar séu auðvitað einnig tækifæri fyrir stjórnvöld til að grípa inn í með sérstökum fjárveitingum til sjóðsins til þess að fjármagna leitarátak á svæðum þar sem nú eru rafkyntar hitaveitur.

Hann segir að þótt ekki finnist nógu heitt vatn til að nota beint í hitaveituna geti volgt vatn nýst vel með varmadælu, líkt og í Vestmannaeyjum.

Vonast Elías til að nægjanlega heitt vatn finnist á Patreksfirði og Ísafirði. Með því væri hægt að færa 80% af notendum rafkyntra fjarvarmaveitna á Vestfjörðum yfir á jarðhita. Síðar verði að koma í ljós hvernig vandi þeirra 20% rafkyntu veitna sem eftir eru verði leystur. Heimilin sem þeim tengjast verði þó aldrei skilin eftir í óvissu.

Virkjun í Vatnsfirði myndi leysa vandann

• Bæta þarf dreifikerfi raforku á Vestfjörðum og tryggja næga orku Afhendingaröryggi til notenda á Vestfjörðum er ótryggt vegna þess að flutningskerfið er ekki nægjanlega gott. Skerða þarf afhendingu þegar rafmagnið slær út vegna óveðurs og einnig vegna viðhalds. „Við leggjum áherslu á að svæðisbundna kerfið verði hringtengt, bæði á suðurfjörðum og norðurhluta Vestfjarða. Það er komið inn í áætlanir Landsnets en framkvæmdum þyrfti að flýta,“ segir Elías.

Sömuleiðis er rætt um mikilvægi þess að tryggja betur aðflutning orku til Vestfjarða.

Virkjun betri en ný Vesturlína

Þetta tengist áhuga Orkubús Vestfjarða á virkjun í Vatnsfirði. Elías segir að 20-30 megavatta virkjun þar yrði fjárhagslega hagkvæm. Þá sé staðsetning hennar hentug gagnvart tengingu við svæðisbundna raforkukerfið á suður- og norðurhluta Vestfjarða. Þá sýni skýrsla Landsnets að virkjun á þessu svæði með því öryggi sem hún skapaði gæti frestað þörf fyrir tvöföldun Vesturlínu úr Hrútafirði að Mjólkárvirkjun. Elías nefnir í þessu sambandi að ný Vesturlína myndi kosta 15 milljarða og tæki örugglega langan tíma að undirbúa framkvæmdina. Sama skýrsla sýndi að afhendingaröryggi raforku á norðurhluta Vestfjarða myndi aukast mun meira með virkjun en nýrri Vesturlínu.

Ríkið á það land í Vatnsfirði sem þarf undir virkjun og ríkið og Orkubú Vestfjarða eiga landið sem færi undir línu fyrir tengingu virkjunarinnar. Eigi að síður eru mörg ljón á veginum.

Vatnsfjörður er friðland og eftir er að fjalla um virkjunarkostinn í rammaáætlun. Elías bendir í því sambandi á að friðlýsingarskilmálar útiloki ekki virkjun og að mun meira rask sé í friðlandinu vegna vegagerðar um Dynjandisheiði en nokkurn tímann yrðu á láglendinu í Vatnsfirði vegna virkjunar. Sveitarfélögin eru almennt jákvæð fyrir þessum möguleika, að sögn Elíasar, þótt engin formleg afgreiðsla hafi farið fram í Vesturbyggð um breytingar á skipulagi, enda málið ekki komið á það stig.