Tryggvi V. Líndal
Tryggvi V. Líndal
Eftir Tryggva V. Líndal: "Auðveldasta leiðin til að fá manneskjulega tilfinningu fyrir Úkraínumönnum er að fá tilfinningu fyrir tilvist þeirra."

Enn bíðum við í ofvæni eftir því hvort Rússar ráðist inn í Úkraínu.

Það minnir okkur á að við á Íslandi vitum svo fátt um þetta Evrópuland að við getum ekki nú tengst því tilfinningalega sem skyldi. (Jafnvel þótt víkingar hafi farið um höfuðstað þess, Kiev, og kallað hann þá Kænugarð. Og þótt Úkraínumenn hafi tvisvar unnið Eurovision-keppnina á þessari öld!)

Auðveldasta leiðin til að fá manneskjulega tilfinningu fyrir Úkraínumönnum er að fá tilfinningu fyrir tilvist þeirra.

Skáldin sem þar yrkja á úkraínsku munu, líkt og fólksfjöldinn þar gefur til kynna, vera um hundraðfalt fleiri en okkar skáld að höfðatölu. Á það bæði við um síðustu öld og öldina á undan, og sú ritlist virðist hafa staðið með meiri stöðugleikablóma en á Íslandi á öldunum þar á undan.

Ég hvet nú lesendur til að kynna sér þetta á netinu, ásamt með enskum þýðingum þar á sýnishornum eftir helstu ljóðskáldin þeirra, með virðulegum höfundamyndum!

Ég þrái að segja svo miklu meira um þetta nú, en ég læt þetta duga að sinni.

Í ljóði mínu, sem heitir Enn um Úkraínu, fjalla ég um innrás þýskra nasista þar inn í Sovétríkin í síðari heimsstyrjöldinni. Þar yrki ég m.a. svo, sem taka má sem tilvísan til ástandsins í dag:

Samt heyrast ennþá kaffihúsaraddir

meyrhjartaðra kappræðukálfa,

sem bera blak af barnamorðingjanum Hitler:

(„Hvorum megin skipti hann aftur hárinu?“)

og kalla „stórbrotna stríðslistamenn“

þessa líka arfavitlausu stjórnmálamenn,

óhagsýnasta og glámskyggnasta okkar allra,

sem segja okkur ekki lengur neitt um mannkynið ...

Mál er nú að gasprinu linni!

Höfundur er skáld og menningarmannfræðingur.

Höf.: Tryggva V. Líndal