Eva Ollikainen
Eva Ollikainen
Á hádegistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg í dag, fimmtudag, kl. 12.10 verða flutt rómuð tónverk eftir Wolfgang Amadeus Mozart og Ludwig van Beethoven undir stjórn Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar.

Á hádegistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg í dag, fimmtudag, kl. 12.10 verða flutt rómuð tónverk eftir Wolfgang Amadeus Mozart og Ludwig van Beethoven undir stjórn Evu Ollikainen, aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar. Eftir Mozart hljómar Forleikurinn að Brúðkaupi Fígarós sem er lýst sem einhverri glaðværustu tónlist sem samin hefur verið. Mozart var á hátindi ferils síns árið 1786 þegar hann samdi þessa sívinsælu óperu um ástir og örlög.

Eftir Beethoven hljómar síðan Sveitasinfónían, þar sem hann lýsir ljúfri tilveru innan um læki og ár, tré og fugla, þótt óvænt óveður komi öllu í uppnám um hríð.

Tónleikarnir eru um 50 mínútur án hlés. Aðgangur er ókeypis en nauðsynlegt er að skrá miða fyrir fram. Ekki er krafist hraðprófs en grímuskylda er á tónleikunum.