Deiliskipulag Svona á Nýi-Skerjafjörður að líta út.
Deiliskipulag Svona á Nýi-Skerjafjörður að líta út. — Tölvuteikning/Reykjavíkurborg
Tæplega 40 íbúar Einarsness hafa krafist endurupptöku á máli þar sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi augljóslega byggt úrskurð sinn á röngum forsendum um málsatvik.

Tæplega 40 íbúar Einarsness hafa krafist endurupptöku á máli þar sem úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi augljóslega byggt úrskurð sinn á röngum forsendum um málsatvik. Nefndin hafnaði því í síðustu viku að ákvörðun borgarstjórnar um nýtt deiliskipulag fyrir Nýja-Skerjafjörð yrði felld úr gildi.

Í kröfunni segir að forsenda nefndarinnar fyrir úrskurðinum hafi alfarið byggst á upplýsingagjöf Reykjavíkurborgar og að stuttu áður en nefndin kvað upp úrskurð í málinu greip Reykjavíkurborg til ráðstafana sem séu ekki í samræmi við upplýsingagjöfina.

Að sögn Ingva Hrafns Óskarssonar, sem er í forsvari fyrir kærendur og er auk þess einn íbúanna, var upplýsingagjöf Reykjavíkurborgar til nefndarinnar með þeim hætti að hún mátti ætla að deiliskipulagið fyrir allt svæðið yrði unnið áður en framkvæmdir myndu hefjast.

Hins vegar hafi Reykjavíkurborg fyrir skömmu auglýst útboð og þar komi fram að þetta verði ekki unnið saman. Nefndin hafi því byggt úrskurð sinn á röngum forsendum.

Segir í kröfunni að nefndin virðist byggja á því í úrskurði sínum að einu gildi hvort tekist sé á við neikvæð umhverfisáhrif af nýrri byggð í Skerjafirði í tveimur frekar en einni deiliskipulagsáætlun. Sú afstaða standist hins vegar ekki nema deiliskipulagstillögur fyrir allt svæðið séu unnar í samfellu áður en framkvæmdir hefjast í nýju hverfi.

„Það er mjög sérkennilegt að greina frá því að það verði unnið nýtt deiliskipulag en sleppa því að geta þess að það verði engu að síður farið í framkvæmdirnar við Nýja-Skerjafjörð án þess að það sé búið að leysa úr hinu,“ segir Ingvi.