Þingvallavatn Ljósmyndin er frá aðgerðum viðbragðsaðila á föstudaginn í síðustu viku.
Þingvallavatn Ljósmyndin er frá aðgerðum viðbragðsaðila á föstudaginn í síðustu viku. — Morgunblaðið/Eggert
Hólmfríður María Ragnhildardóttir Sólrún Lilja Ragnarsdóttir Björgunaraðgerðir vegna flugslyssins í Þingvallavatni eiga að hefjast í dag en áætlað er að allir hlutaðeigendur verði tilbúnir með sinn búnað klukkan níu að morgni.

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

Björgunaraðgerðir vegna flugslyssins í Þingvallavatni eiga að hefjast í dag en áætlað er að allir hlutaðeigendur verði tilbúnir með sinn búnað klukkan níu að morgni. Hefjast þá prófanir sem ekki var hægt að gera í gær vegna lélegra veðurskilyrða. Í framhaldinu hefjast aðgerðir við að endurheimta líkamsleifar þeirra sem fórust. Ekki er gert ráð fyrir að flugvélarflakið verði híft upp í dag en stefnt er að því seinni partinn á morgun.

Ríflega 20 kafarar á vettvangi

Nauðsynlegur búnaður var fluttur í gær á vettvang við Ölfusvatnsvík. Verða þar meðal annars tjaldbúðir fyrir björgunarmenn, jafnþrýstiklefi fyrir kafara og fjarskiptabíll á vegum Landsbjargar.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir aðgerðirnar krefjandi og því þurfi að huga vel að hverju einasta smáatriði í skipulaginu.

Ríflega 20 kafarar munu koma að aðgerðinni; átta frá Landhelgisgæslunni, sex frá lögreglu og átta frá slökkviliði. Munu þeir taka sér allan þann tíma sem þarf í aðgerðina, að sögn Ásgeirs. Verður hver einasta mínúta þeirra skipulögð í vatninu.

„Öryggið verður númer eitt, tvö og þrjú þegar að þessu kemur. Kafararnir verða með aðflutt loft, það verður afþrýstitankur á svæðinu ásamt fjölmörgum öðrum græjum sem þarf fyrir krefjandi og mikilvægt verkefni eins og þetta,“ segir Ásgeir.

Á meðan aðgerðir standa yfir í dag og á morgun verður yfirflug loftfara um svæðið bönnuð og Þingvallavegi lokað að hluta.