Kjartan Magnússon
Kjartan Magnússon
Eftir Kjartan Magnússon: "Frekari lántökur leysa ekki gífurlegan rekstrarvanda Reykjavíkurborgar."

Fyrir tæpum tveimur árum, í apríl 2020, sendi Reykjavíkurborg neyðarkall til Alþingis vegna slæmrar fjárhagsstöðu sinnar. Í umsögn borgarinnar til Alþingis um lagafrumvarp var að finna eftirfarandi lýsingu á stöðunni:

„Vandinn snýst hins vegar ekki aðeins um skammtíma fjármögnunarvanda heldur stefnir í algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára. Þessa ósjálfbærni er ekki hægt að leysa með hækkun leyfilegrar skattlagningar eða þjónustugjalda eða með stórfelldum niðurskurði í útgjöldum borgarinnar, sem varða að langmestu leyti leik- og grunnskóla og velferðarþjónustu. Hefðbundnar aðferðir eru ekki í boði. Þá er ekki hægt að leysa þetta með stórfelldum lánveitingum þar sem veltufé frá rekstri mun ekki til margra ára fram undan standa undir afborgunum.“

Skuldum safnað í aldarfjórðung

Síðan þessi lýsing var skrifuð af fjármálastjóra Reykjavíkurborgar og lögð fram í borgarráði hafa fjármál borgarinnar versnað mjög. Borgin hefur nú safnað skuldum linnulítið í aldarfjórðung og eru þær nú komnar yfir 400 þúsund milljónir króna. Það þýðir að borgin hefur skuldsett hvern íbúa sinn um þrjár milljónir króna og hverja fjögurra manna fjölskyldu um rúmar tólf milljónir króna.

Slík skuldastaða væri grafalvarleg fyrir hvaða sveitarfélag sem er. En hún er þeim mun alvarlegri vegna þess að um er að ræða sjálfa höfuðborg landsins þar sem um 36% landsmanna búa.

Mikilvægt er að Alþingi fái um það upplýsingar hvort eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og ráðuneyti sveitarstjórnarmála hafi brugðist við þessu neyðarkalli á sínum tíma og þá hvernig.

Ef ekki hefur verið brugðist við með formlegum hætti ætti að vera enn meiri ástæða til þess nú, þar sem fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar fer sífellt versnandi. Í árslok 2019 námu skuldir og skuldbindingar borgarinnar 345 milljörðum króna. Nú nema þær hins vegar um 400 milljörðum króna. Borgin hefur því haldið áfram að safna skuldum og aukið við þær um 55 milljarða króna á síðastliðnum tveimur árum þrátt fyrir skýra viðvörun fjármálastjórans í apríl 2020 um að áframhaldandi stórfelldar lánveitingar myndu ekki leysa vandann.

Vinstri meirihluti í afneitun

Samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar stefnir meirihluti borgarstjórnar, undir forystu Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri-grænna, að áframhaldandi ósjálfbærum rekstri borgarinnar og frekari skuldsetningu. Ekki er því skrýtið þótt sú spurning vakni hvort Reykjavíkurborg sé komin í gjörgæslu hjá ráðuneyti sveitarstjórnarmála eða á leiðinni þangað.

Uggvænlegt er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri virðist vera í algerri afneitun gagnvart hinum mikla skuldavanda. Hefur hann haldið því fram að fjárhagur borgarinnar sé í himnalagi þrátt fyrir áðurnefnt neyðarkall fjármálastjórans og yfirlýsingu um „algerlega ósjálfbæran rekstur til margra ára“.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Kjartan Magnússon