Fjármagn Eignir bankans námu í lok tímabilsins 1.314 milljörðum króna.
Fjármagn Eignir bankans námu í lok tímabilsins 1.314 milljörðum króna. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Arion banki hagnaðist um 6,5 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs samanborið við 5,8 milljarða króna hagnað á sama tíma árið á undan, sem er aukning upp á rúm 13%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Arion banki hagnaðist um 6,5 milljarða króna á fjórða ársfjórðungi síðasta árs samanborið við 5,8 milljarða króna hagnað á sama tíma árið á undan, sem er aukning upp á rúm 13%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Eignir bankans námu í lok tímabilsins 1.314 milljörðum króna og jukust um 12% milli ára, en þær voru 1.171 milljarður í lok árs 2020.

Eigið fé Arion banka nam í lok tímabilsins tæpum 195 milljörðum króna en það var 198 milljarðar í lok árs 2020. Eiginfjárhlutfall bankans er 23,8%.

Kostnaðarhlutfall 51,6%

Tekjur af kjarnastarfsemi bankans jukust um 14,8% samanborið við fjórða ársfjórðung 2020 samkvæmt tilkynningunni og var kostnaðarhlutfallið á fjórðungnum 51,6% samanborið við 44,9% á fjórða ársfjórðungi 2020.

Hagnaður Arion banka fyrir árið 2021 í heild sinni nam tæpum 29 milljörðum króna og meira en tvöfaldast á milli ára en árið 2020 hagnaðist bankinn um 12,5 milljarða króna. Arðsemi eigin fjár var 13,4% á fjórða ársfjórðungnum og 14,7% á árinu.

Gekk vel þrátt fyrir faraldur

Benedikt Gíslason bankastjóri segir í tilkynningunni að starfsemi bankans hafi gengið vel á árinu 2021 þrátt fyrir heimsfaraldur og samkomutakmarkanir. Einnig segir hann að fyrirtækið hafi náð öllum sínum rekstrarmarkmiðum.

„Efnahagur bankans er áfram sterkur og eiginfjárhlutfall 23,8%. Hlutfall eiginfjárþáttar 1 var í árslok 19,6%, þrátt fyrir endurkaup og arðgreiðslu á árinu, en markmið bankans er að hlutfallið sé 17% og eru tillögur stjórnar bankans um arðgreiðslur á árinu 2022 skref í áttina að því markmiði og í takt við arðgreiðslustefnu bankans,“ segir Benedikt í tilkynningunni.

Í ársreikningi segir að lagt er til að 22,5 ma. kr. arður verði greiddur á árinu 2022 vegna ársins 2021, að teknu tilliti til eigin bréfa bankans, eða sem samsvarar 15 kr. á hlut.