Nú þarf réttar aðgerðir á húsnæðis- og vinnumarkaði

Aðstæður í efnahagslífinu hafa breyst hratt og Seðlabanki Íslands brást við því í gær. Hækkun stýrivaxta upp á 0,75% þurfti ekki að koma á óvart í ljósi þróunar verðbólgu og annarra hagstærða.

Viðbrögð seðlabankastjóra við spurningum um hvort Seðlabankinn hafi gert mistök þegar kórónuveirufaraldurinn skall á þurfa ekki heldur að koma á óvart. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri benti á að slík umræða bæri vott um minnisleysi, margir þeir sem þannig töluðu nú hafi áður talað með allt öðrum hætti. Seðlabankinn hafi lagt áherslu á heimilin, að tryggja kaupmátt og stöðugleika.

Það var ekki sjálfgefið að Ísland færi jafn vel í gegnum faraldurinn og raun ber vitni. Lægri vextir áttu stóran þátt í að það tókst. Hefði áherslan eingöngu verið á ríkisfjármálin eða jafnvel ef ekkert hefði verið gert, eru allar líkur á að áfallið hefði verið mun meira og almennara. Lífskjör hefðu þá rýrnað hratt og mikið og horfur í dag væru allt aðrar en nú er, þó að óvissan sé vissulega enn mikil eins og Seðlabankinn bendir á í riti sínu, Peningamálum.

Hluti óvissunnar og hluti hækkunar verðlagsins er utan við það sem Ísland getur haft áhrif á. Miklar verðhækkanir á orku og hrávöru erlendis hafa áhrif hér á landi, enda er almennt vöruverð mjög á uppleið þar vegna þessarar þróunar. Þetta hefur óhjákvæmilega áhrif á verðbólguna hér á landi á næstunni, jafnvel þó að gengi krónunnar haldi áfram að styrkjast nokkuð, en um það er ekkert hægt að fullyrða og Seðlabankinn gerir ráð fyrir að það verði nokkuð stöðugt.

Innanlands er þó hægt að hafa mikil áhrif á þróun verðbólgunnar, einkum með aðgerðum á fasteignamarkaði og með aðgerðum á vinnumarkaði. Seðlabankinn nefnir hvort tveggja í umfjöllun sinni um stöðu og horfur og bendir á að verðhækkanir á húsnæðismarkaði vegi þungt í verðbólgunni og geri útlit um verðbólgu verra. Í Peningamálum er bent á að verðbólguhorfur hafi versnað töluvert frá því í nóvember sem megi rekja til kröftugri efnahagsbata og þrálátari hækkunar húsnæðisverð en áður hafi verið gert ráð fyrir. Verðþróun húsnæðis skýrir tæplega helming verðbólgu á ársgrunni, sem sýnir þann mikla vanda sem þessi þáttur veldur.

Af þessu má draga þá ályktun að hefði hækkun húsnæðisverðs verið hófleg væri mun minni þörf fyrir hækkun vaxta og raunar leikur ekki vafi á að vextir væru lægri hefði húsnæðisverð ekki þróast með þeim hætti sem það hefur gert. Þegar svo er komið er augljóst að þeir sem geta haft áhrif á þessa þróun verða að meðtaka skilaboðin og grípa til þeirra ráðstafana sem duga svo ná megi vöxtum niður sem fyrst, eða í það minnsta koma í veg fyrir áframhaldandi vaxtahækkanir. Fram undan eru sveitarstjórnarkosningar og þetta hlýtur að verða eitt meginviðfangsefni þeirra, einfaldlega vegna þess að það eru sveitarfélögin sem ráða lóðaframboði og það er lóðaframboðið sem ræður miklu um þróun húsnæðisverðs. Þetta á vitaskuld einkum við á höfuðborgarsvæðinu og þar ræður höfuðborgin sjálf langmestu um þróunina. Vandinn er hins vegar sá að í höfuðborginni er við stjórn meirihluti sem fylgir þeirri einstrengingslegu stefnu að ekki megi stækka borgina með því að byggja á nýju landi, íbúðum megi aðeins fjölga með því að þétta byggð. Þetta hefur meðal annars komið skýrt fram hjá frambjóðendum Samfylkingarinnar vegna prófkjörs flokksins um næstu helgi. Þessi þéttingarstefna er því orðinn einn helsti efnahagsvandi þjóðarinnar og veldur landsmönnum öllum, ekki aðeins Reykvíkingum, miklum kostnaði.

Staðan á vinnumarkaði er einnig með þeim hætti að miklu skiptir að þar verði skynsamlegar á málum haldið og mun það valda miklu um þróun verðbólgu og efnahagsmála almennt. Atvinnuleysi hefur þróast með jákvæðum hætti og kaupmáttur launa hefur vaxið hratt þrátt fyrir faraldurinn, sem vissulega er ánægjuefni í sjálfu sér en um leið ábending um að varlega þarf að fara í framhaldinu. Í Peningamálum segir að útlit sé fyrir að launahækkanir vegna hagvaxtarauka kjarasamninga verði meiri í ár en gert var ráð fyrir í nóvember en minni á næsta ári. Horfur séu á litlum framleiðnivexti og að launakostnaður á framleidda einingu hækki því töluvert.

Í þeim kjaraviðræðum sem fram undan eru er afar þýðingarmikið að væntingar taki mið af þróun síðustu ára og þeim raunveruleika sem atvinnulífið stendur frammi fyrir. Miklar launahækkanir í heimsfaraldri voru umfram innistæðu og útilokað er að slík þróun geti haldið áfram.

Þrátt fyrir að verðbólga fari vaxandi og vextir þurfi að hækka eru horfur í efnahagsmálum hér á landi í stórum dráttum jákvæðar, en þó og því aðeins að ráðstafanir á húsnæðismarkaði og vinnumarkaði verði skynsamlegar.