Rómverjar hófu að reisa Hadríanusarvegginn 122 e. Kr. og tók það sex ár. Rómverjar fóru frá Bretlandi 300 árum síðar.
Rómverjar hófu að reisa Hadríanusarvegginn 122 e. Kr. og tók það sex ár. Rómverjar fóru frá Bretlandi 300 árum síðar. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Once Brewed, Englandi. AFP. | Nítján hundruð árum eftir að Hadríanusarveggurinn var reistur á Norður-Englandi til að halda barbörunum í skefjum steðjar að ný hætta.

Once Brewed, Englandi. AFP. | Nítján hundruð árum eftir að Hadríanusarveggurinn var reistur á Norður-Englandi til að halda barbörunum í skefjum steðjar að ný hætta. Fornleifafræðingar segja að loftslagsbreytingar gætu eyðilagt gríðarlega verðmætar minjar frá tímum Rómverja.

Mörg þúsund hermenn, margir með fjölskyldur, bjuggu við múrinn, sem er 118 km á lengd og nær frá vesturströnd Englands til austurstrandarinnar. Múrinn var á mörkum Rómarveldis og umfangsmestu fornminjar á Englandi frá tímum Rómverja.

Hafist var handa við að reisa múrinn 122 eftir Krists burð í stjórnartíð Hadríanusar keisara. Markaði hann skilin á milli þess hluta Bretlands, sem Rómverjar lögðu undir sig, og Kaledóníu, sem þeir náðu ekki á sitt vald. Átti múrinn að hjálpa til við að halda aftur af barbörunum eins og Rómverjar kölluðu þá og stöðva árásir að utan.

Rómversku hermennirnir, sem þarna bjuggu, skildu eftir sig heillandi minjar um hversdagslífið, sem gerir fornleifafræðingum kleift að átta sig á hvernig þeir lifðu lífi sínu verðurbarðir á norðurjaðri heimsveldisins.

Þar á meðal er virkið Vindolanda, sem er um 50 km norður af Newcastle við ána Tyne.

„Mikið af landinu við Hadríanusarvegginn er fen og mýrar, mjög blautur, mjög rakur jarðvegur, sem hefur varðveitt fornminjarnar í næstum tvö þúsund ár,“ sagði Andrew Birley, sem hefur stjórnað uppgreftri á þessum slóðum og er framkvæmdastjóri Vindolanda-sjóðsins, í samtali við AFP. „En hlýnun fylgja loftslagsbreytingar.“

Jarðvegurinn hitnar hraðar en loftið. Jarðvegur, sem áður var rakur, þornar og við það kemst súrefnið að.

„Þegar súrefnið kemst að molna hlutir, sem eru mjög viðkvæmir, hlutir úr leðri og tré og vefnaður, rotna og glatast að eilífu,“ sagði Birley.

Í áranna rás hafa fundist mannvirki úr steini og viði, leðurskór og fatnaður, verkfæri, vopn og jafnvel handskrifaðar viðartöflur, sem hafa veitt upplýsingar um hvernig lífi Rómverja á Bretlandi var háttað.

Aðeins hefur verið grafið á um fjórðungi landsins í Vindolanda og virkið er aðeins eitt af 14 meðfram Hadríanusarveggnum, sem var settur á heimsminjaskrá UNESCO árið 1987.

„Allt þetta, allir þessir smíðisgripir, allt það sem er mér að baki var ofan í jörðinni. Fyrir 50 árum var það undir akri bónda,“ sagði Birley. „Fornleifafræðingar hafa kannað minna en einn hundraðshluta af Hadríanusarveggnum og votlendið verndar mikið af svæðinu og nú er það svæði í mikilli hættu.“

Fyrir aftan hann eru skór í tugatali fyrir bæði kyn og alla aldurshópa, af fyrirfólki og lægra settum. Þetta er aðeins brot af þeim 5.500 leðurmunum sem fundist hafa bara á þessum stað. Þökk sé svörtum, rökum jarðveginum eru minjarnar ótrúlega heillegar og sjá má minnstu smáatriði.

„Þessar minjar eru stórkostlegar því að þær hafa gerbreytt hugmyndum okkar um Rómarveldi og rómverska herinn. Við héldum að þarna hefðu aðeins verið karlar, en það var mikið af konum og börn hlupu um,“ sagði hann. „Ef þessar minjar hefðu ekki varðveist hefðum við ekki þessar upplýsingar og nú gætu loftslagsbreytingar komið í veg fyrir að við bætum við þennan fróðleik.“