Rósa Karlsdóttir var fædd 3. nóvember 1934 í Bolungarvík. Hún lést á Hrafnistu Sléttuvegi 10. janúar 2022.

Rósa var dóttir hjónanna Jóns Karls Eyjólfssonar bakara, f. á Eskifirði 30. nóvember 1890, d. 24. mars 1943, og Gunnjónu Valdísar Jónsdóttur, f. á Mýrum í Dýrafirði 19. júní 1903, d. 16. júní 1985. Rósa var næstyngst sex systkina, Óttar Ísfeld, d. 2017, Sissa (Guðrún), Eymar Ísfeld, d. 2010, Katrín og Halldóra Jóna.

Rósa giftist Helga Hallssyni, f. 6. september 1926, d. 11. nóvember 2003, syni hjónanna Halls Helgasonar og Sigurlínar Bjarnadóttur frá Akureyri. Börn Rósu og Helga eru:

1) Jón Karl Helgason, f. 1955, sambýliskona Friðgerður Guðmundsdóttir. Börn Jóns Karls og fyrrv. eiginkonu Mörtu Matthíasdóttur eru Kristín Helga og Matthías Karl. 2) R. Signý Helgadóttir, f. 1958, börn hennar og fyrrv. eiginmanns Friðriks Guðmundssonar eru Örvar, Rósa, Helgi og Signý. 3) Helgi Helgason, f. 1962, maki Þórhalla Sigmarsdóttir. Helgi á dótturina Guðnýju með fyrrv. sambýliskonu Stefaníu Ægisdóttur og Örnu Björk með Guðrúnu Elínu Jónsdóttur, d. 2020. Þórhalla á dæturnar Ingu Björgu og Karen frá fyrra hjónabandi.

Langömmubörn Rósu eru þau Friðrik Helgi, Mikael Týr, Signý Rún, Rósar, Theodór Helgi, Jóhann Páll, Anna Signý, Stefán Helgi, Daníel Freyr, Breki Þór og Þórunn Agnes.

Rósa ólst upp í Bolungarvík til níu ára aldurs. Eftir lát föður hennar, Jón Karls, flutti Gunnjóna móðir hennar með börnin suður til Reykjavíkur. Rósa lauk gagnfræðaprófi frá Austurbæjarskóla og starfaði hjá Flugþjónustunni í Gufunesi við veðurlýsingar og á Loftskeytastöð, þar sem hún kynntist Helga Hallssyni. Árið 1973 hóf hún störf hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og starfaði þar til starfsloka.

Útför fór fram 27. janúar 2022 í kyrrþey að hennar ósk.

Það erfitt að lýsa með orðum þeirri þungu sorg sem við fjölskyldan upplifum við að kveðja ömmu Rósu. Eftir standa óteljandi dýrmætar minningar sem einkennast af miklum kærleik og umhyggju. Amma var síung fram á níræðisaldur og börnin mín fengu að njóta þess að eiga langömmu sem tók á móti þeim heima eftir skóla, lék við þau í bolta- og ofurhetjuleikjum, setti saman Lego og kenndi þeim að lesa. Langömmubörnin fengu alltaf óskipta athygli frá ömmu. Mamma og amma hafa ávallt verið uppáhald barnanna minna og þeirra dyggasti stuðningsaðili.

Elsku amma mín, þú ert fyrirmynd mín á svo mörgum sviðum í lífinu. Meistarakokkur í eldhúsinu, allt svo einstaklega bragðgott og fallega borið fram, kökurnar þínar eins og listaverk. Á meðan ég þeytist um í eldhúsinu gerðir þú allt af svo mikilli nákvæmni og jú vissulega með smá sérvisku. Kærleikur þinn og stuðningur sem þú hefur veitt mér alla mína ævi er ómetanlegur. Ég mun hugsa til þín á hverjum degi. Hugsa um allar minningarnar okkar frá óteljandi ferðalögum, sundferðum, skíðaferðum, jólum að drekka heitt súkkulaði úr fínu bollunum og gönguferðunum þar sem þú gekkst alltaf fremst í flokki og hraðast af okkur öllum.

Dýrmætustu minningarnar eru samt einfaldlega allar hversdagslegu samverustundirnar með þér og langömmubörnunum. Við Maggi, Rósar og Theodór Helgi munum halda minningu þinni á lofti, Anna Signý mun fá að heyra allar stórkostlegu sögurnar af heimsins bestu langömmu.

Signý.

Elsku Rósa langamma.

Alveg frá því ég man eftir mér hefur þú verið íþróttaálfur fjölskyldunnar. Ég man alltaf eftir því þegar við fórum á skíði saman og ég sagði „langamma komdu í kapp“. Síðan ég var lítill gafstu mér aldrei eftir í spilum og ég var alltaf svo glaður þegar ég vann, þar sem það gerðist næstum aldrei.

Langamma mín, þú hefur alltaf verið mikill húmoristi og ég á margar minningar þegar ég fór til þín í pössun því þá var alltaf gaman. Við fengum okkur alltaf ab-mjólk og cheerios að borða, síðan var horft á Spaugstofuna í sjónvarpinu. Þú varst með ákveðinn smekk á sjónvarpsefni og það var ekkert vinsælla á Hjarðarhaganum en Eurosport. Þrátt fyrir það man ég alltaf þegar ég var veikur og fór til þín í heimsókn og við horfðum á Dr. Phil því það var ekkert í gangi á Eurosport sem var þess virði að horfa á að þínu mati.

Langamma, þú varst ekki bara íþróttaálfur og Eurosport-aðdáandi nr. 1 heldur líka frábær í eldamennsku og bakstri. Allir sem hafa smakkað langömmufisk vita að enginn fiskur mun bragðast nálægt því eins vel. Jólasalatið og kökurnar voru líka feikna vinsælar í fjölskyldunni.

Langamma var alltaf einn af mínum bestu leikfélögum í æsku og eru til margar sögur af mér og langömmu að bralla eitthvað saman. Langamma var einstök kona, hún lét aldurinn aldrei hægja á sér og fannst öllum það skrýtið að segja að áttræð langamma sín væri á leiðinni til Ítalíu á skíði.

Takk fyrir allar frábæru stundirnar, elsku langamma, og ég sakna þín. Ég mun halda minningu þinni á lofti og halda áfram að gera þig stolta. Passa vel upp á ömmu Signýju, mömmu, Nennu, Helga og langömmubörnin þín.

Þinn langömmustrákur,

Friðrik Helgi.

Elsku besta langamma, þú hefur alltaf verið hluti af lífi mínu og ég mun sakna þín óendanlega mikið.

Það var alltaf jafn gaman að koma til langömmu og það var oftast eitthvert góðgæti í boði. Skúffukakan og „langömmufiskur“ var best. Langamma var alltaf hress og til í að leika með mér í öllu sem mig langaði að gera. Hún var leikfélagi númer eitt. Langamma kom alltaf með okkur í allt. Ferðalög, kom á fótboltamót, fimleikamót, myndlistarsýningar og margt fleira.

Við fórum oft á skíði og bara að heyra að langamma ætlaði að koma með gerði skíðaferðina betri. Við fórum oft í kapp niður brekkuna og bara með því að kalla „langamma, komdu í kapp!“ var hún lögð af stað niður brekkuna á fleygiferð, enda var svo mikið keppnisskap í henni að hún ætlaði ekki að gefa mér séns.

Langamma var alltaf svo umhyggjusöm og með alveg æðislegan húmor. Það var alltaf gaman að vera í kringum langömmu því það kom alltaf eitt gott djók frá henni. Á afmælum hennar langömmu bakaði hún skúffuköku og til að hafa kökuna meira spennandi fyrir krakka setti hún alltaf húladansara á kökuna sem dillaði sér.

Langamma var glöð með allt og hreinskilin. Stundum var eitthvað pínulítið sem þurfti að breyta. Eins og þegar við keyptum jólagjöfina síðustu jól, æðislegar náttbuxur en langamma vildi þær í öðrum lit. Hún var óhrædd að segja skoðanir sínar en hún sagði þær svo vel þannig að maður varð aldrei móðgaður.

Langamma á stað í hjarta mínu og minning hennar mun aldrei gleymast. Takk langamma fyrir allt og takk fyrir að vera til staðar fyrir mig og það hefur alltaf verið svo gaman að vera með þér og tala við þig. Ég er stolt af því að hafa þekkt þig og hafa þig sem langömmu mína.

Stóra langömmustelpan þín,

Signý Rún.

Langamma mín var heimsins besta langamma. Ég sakna hennar mjög mikið. Hún var alltaf svo góð við mig og yndisleg. Ég er mjög stoltur yfir því að heita Rósar í höfuðið á henni. Það var svo gaman þegar hún tók á móti mér þegar ég kom heim úr skólanum og las með mér. Litli bróðir minn kallaði langömmu alltaf labögu sem mér finnst mjög krúttlegt og fyndið. Langamma bjó til besta matinn, uppáhaldið mitt er langömmufiskur sem er það besta í heimi. Það var svo gaman að ferðast með langömmu og hún var alltaf til í að leika við mig.

Langamma sagði oft brandara sem ég skildi ekki alltaf en hún hló alltaf svo mikið að ég gat ekki annað en hlegið með henni. Mig langar að skrifa svo margt en það er erfitt því ég er mjög sorgmæddur yfir því að missa langömmu. Núna er hún á góðum stað með langafa. Mér finnst svo leiðinlegt að litla systir mín sem er sjö mánaða hafi fengið svona stuttan tíma með langömmu. Ég ætla að varðveita allar góðu minningarnar og segja litlu systur minni frá heimsins bestu langömmu.

Hér er ljóð úr Hávamálum sem ég lærði í skólanum sama dag og langamma lést. Mér finnst ljóðið eiga mjög vel við hana.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Ég elska þig, langamma, þú ert best.

Rósar.

Elsku amma Rósa.

Sannkölluð forréttindi að alast upp í sama húsi eða næsta húsi við ykkur afa. Á ógrynni af góðum minningum. Elskaði að gista hjá ykkur, fara á skíði og ferðast. Drekka alvöru heitt súkkulaði og spila rommý.

Alltaf svo gott að leita ráða hjá þér, fá álit og hugmyndir. Bæði hreinskiptin og skemmtilega kaldhæðin. Kappsöm og metnaðarfull í leik og starfi. Gaman að fylgjast með þér sinna áhugamálum þínum og fannst alltaf jafn áhugavert að sjá þig teipa fingurna fyrir blakæfingu með Víkingi. Hvattir mig til að prófa að æfa blak, sem ég gerði.

Þið afi voruð dugleg að ferðast bæði innanlands og erlendis á skíði. Skíðaferðin til Austurríkis með ykkur er mér minnisstæð sem og þegar við vorum veðurteppt fyrir norðan. Við ferðuðumst oftar saman á skíði bara tvær og þegar börnin byrjuðu á skíðum var gott að treysta á aðstoð þína í fjallinu.

Börnin mín hafa alltaf sagt að þú sért heimsins besta amma og langamma, ég er sammála. Gafst þeim athygli, ást og umhyggju. Tókst þátt í þeirra ævintýraheimi á þeirra forsendum. Börnin voru montin að segja frá þér, hvað þú værir mikil íþróttakona. Þú mættir á alla viðburði barnanna með bros á vör og hvattir þau áfram til dáða.

Rúmlega áttræð fórstu síðast á skíði til Ítalíu og varst svo óheppin að lenda í árekstri við skíðamann sem gat ekki stoppað sig. Það hafði mikil áhrif á þig og þína líðan, okkur sömuleiðis. Ef klaufinn hefði lært betur á skíði hefðu skíðaferðirnar eflaust orðið mun fleiri.

Sannkallaður listakokkur og einstaklega góður bakari, enda dóttir bakara. Langömmufiskur, ostakakan, frómasinn og jólasalatið var engu líkt. Þegar ég fór að búa bað ég um uppskrift að jólasalatinu þínu, fékk uppskriftina með þeim skilaboðum að ef ég myndi týna henni fengi ég hana ekki aftur. Húmorinn þinn var einstakur líkt og maturinn.

Þið Birkir minn deilduð áhuga á íþróttum, góðum brauðtertum og góðum mat. Vorum dugleg að elda fyrir þig og síðustu misseri þegar þú fékkst matarlyst notuðum við tækifærið og elduðum uppáhaldsmatinn þinn. Stjúpbörnum mínum og Birki tókstu einstaklega vel og átt þú stað í hjarta okkar allra.

Við systur sátum og ræddum við börnin okkar um að þú væri komin upp til himna. Þau kepptust við að rifja upp skemmtilegar minningar og eru sorgmædd fyrir hönd yngstu langömmubarnanna af því þau fengu svo stuttan tíma með þér. Þau ætla að vera dugleg að halda minningu þinni á lofti með skemmtilegum myndum, sögum og hefðum. Þú og amma Signý voruð einstakt teymi, alltaf svo nánar mæðgur og góðar við hvor aðra. Ólíkar, samt svo líkar. Síðustu ár voruð þið daglega saman og fenguð stuðning frá hvor annarri. Amma mín, við munum passa upp á mömmu fyrir þig.

Þakka þér allar dýrmætu stundirnar. Einstök og ein af mínum fyrirmyndum, stolt af því að heita Rósa eins og þú.

Kenndir mér að aldur er afstæður og mikilvægi þess að njóta augnabliksins. Hlusta á hjartað og hafa gaman í leik og starfi. Gat alltaf leitað til þín, treyst á þig og þú á mig.

Hvíldu í friði elsku amma Rósa mín, ég mun ávallt sakna þín.

Rósa.

Leiðir skilja vini alla.

Tárin strítt þá streyma og falla.

En þitt ljós mun ávallt skína.

Minning þín mun aldrei dvína.

(Elísabet M.)

Elsku Rósa mín. Þú ert einn af þeim mannlegu gullmolum sem ég hef hitt á lífsleiðinni.

Fyrst var það Bobba og blakið og svo vissi ég að þú varst konan hans Helga í þáverandi vinnunni minni. Bobba bar þér svo vel söguna og gat þess að þú færir í sund líka. Þar sem ég er vön að bjarga mér þá fór ég að leita að þér í lauginni og leitaði þangað til ég fann þig. Ég vissi ekki þá að ég væri að leggja drög að mikilli farsæld fyrir mig, en það byrjaði fljótlega að koma í ljós.

Þú reddaðir mér afleysingum á vinnustaðnum þínum, sem svo fljótlega varð að fastri vinnu sem mér leið alla tíð mjög vel í. Síðar bættist svo Tækn. við. Það var alla tíð mjög gott að vinna á Raun. og Tækn.

Við hittumst svo áfram í sundinu og smám saman komst ég að því hversu mikil mannkostamanneskja þú varst. Hægt að treysta þér fyrir hverju sem var, alltaf gott að leita ráða hjá þér, alltaf svo gaman að spjalla við þig.

Þú varst, sem sagt einstaklingur sem alveg passaði inn í mitt líf.

Þó rósirnar fölni og falli

og fjúki um hæðir og mel

og ævinnar hádegi halli

í huganum líður mér vel.

Þó héli um hauður að nýju

og hætturnar umkringi mig

það veitir mér himneska hlýju

að hugsa um vorið og þig.

(Gísli Ólafsson)

Smám saman kynntist ég fólkinu þínu í gegnum okkar spjall sem mér þótti mjög ánægjulegt.

Signý vann líka þarna svo við gátum rætt saman. Í gegnum þig kynntist ég henni Mörtu sem ávallt hefur reynst mér heilladrjúgt. Mér finnst ég eiginlega eignast svona hálfvegis fjölskyldutengsl, þó svo það væri mestallt í gegnum þig. Dálítið eins og ég væri að spyrja um ættingja.

Þú vissir og ég vil endurtaka það hér að frá mér mun aldrei koma neitt sem við ræddum um, mín sæmd er einfaldlega í veði.

Það var alltaf svo gaman að fá fréttir af skíðaferðunum þínum, ég öfundaði þig dálítið af þeim, en ég hef aldrei náð lengra en að langa til að kunna á skíði. Er ekki sagt að fjarlægðin geri fjöllin blá?

Þú varst afar dugleg að mæta í leikfimina sem í boði var og yfirleitt mikil fyrirmynd í að rækta líkamann og þá sálina með.

Ég er að hugsa núna hvað þú mundir segja við mig um að ég hrósi þér svona, ég finn bara ekkert neikvætt til að segja um þig. Í minni minningu ert þú svo fullkomlega eins og ég vildi hafa þig.

Haustfölva slær á hlíðarvangann rjóða,

hjartsláttur dvín, og liðin sumarganga.

Voðin er unnin, vafin upp í stranga.

Vefarinn hefur lokið sinni skyldu.

Næst mun sér annar nema þarna spildu.

(J.J.)

Ég bið ykkur fólkinu hennar allrar blessunar og bið þess að minningarnar um þessa góðu konu muni létta ykkur lífið um ókominn tíma.

Blessuð sé minning þín, elsku Rósa mín.

Rúna Knútsdóttir.