Reykjavíkurflugvöllur Borgin segir frumvarpið fela í sér grófa aðför að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga.
Reykjavíkurflugvöllur Borgin segir frumvarpið fela í sér grófa aðför að sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga mótmæla harðlega tillögum sem feli í sér skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga yfir flugvöllum í umsögn við frumvarp innviðaráðherra um loftferðir.

Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga mótmæla harðlega tillögum sem feli í sér skerðingu á skipulagsvaldi sveitarfélaga yfir flugvöllum í umsögn við frumvarp innviðaráðherra um loftferðir. Frumvarpið er endurflutt og höfðu sveitarfélögin einnig uppi mótmæli við þessum áformum í fyrra frumvarpi á seinasta ári.

Í umsögn borgarinnar segir að í engu hafi verið tekið tillit til fyrri athugasemda borgarinnar. Í 146. gr. frumvarpsins sé mælt fyrir um heimild ráðherra til að setja skipulagsreglur fyrir flugvöll sem er opinn almenningi og landsvæði þar sem fyrirhugað er að byggja flugvöll. „Reykjavíkurborg telur að ef umrædd breyting nái fram að ganga muni hún kollvarpa því skipulagsvaldi sem sveitarfélög hafa yfir flugvöllum innan eigin staðarmarka,“ segir í umsögn borgarinnar.

„Að mati sambandsins er hér um að ræða afar íþyngjandi inngrip í skipulagsvald sveitarfélaga sem sveitarfélögin geta á engan hátt sætt sig við. Hér er tilefni til að minna á að skipulagsvaldið er hornsteinn sjálfstjórnarréttar sveitarfélaga,“ segir m.a. í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga til Alþingis, sem segist telja „einboðið að frumvarpsgreinin fari ekki óbreytt til annarrar umræðu á Alþingi“. omfr@mbl.is