— Ljósmynd/Þorkell Pétursson
Árið 2022 byrjar af miklum krafti í sjávarútveginum og námu útflutningsverðmæti sjávarafurða 24,6 milljörðum króna í janúar. Um er að ræða 44% meiri verðmæti en í sama mánuði í fyrra og þarf að leita lengi að jafn stórum janúarmánuði.

Árið 2022 byrjar af miklum krafti í sjávarútveginum og námu útflutningsverðmæti sjávarafurða 24,6 milljörðum króna í janúar. Um er að ræða 44% meiri verðmæti en í sama mánuði í fyrra og þarf að leita lengi að jafn stórum janúarmánuði. Fram kemur á Radarnum að ekki hafi sést álíka janúarmánuður á síðastliðnum tveimur áratugum. Talið er að verðhækkanir á mörkuðum hafi haft sitt að segja, en einnig verður líklega að taka tillit til loðnuvertíðarinnar sem er ein sú stærsta í áraraðir.

Loðnuvertíðin var ekki sjálfgefin og þurfti margt að koma til svo að mælingar yrðu nægilega góðar til að hægt væri að ráðleggja hámarksveiðar upp á 904 þúsund tonn. Fjöldi skipa fleiri útgerða tók þátt í leitinni að loðnunni á sínum tíma, en nú er staðan sú að loðnukvótinn kann að minnka um 100 þúsund tonn vegna þess að nýlegar mælingar Hafrannsóknastofnunar gengu ekki sem skyldi.

Eðlilegt er að velta fyrir sér hvort Hafrannsóknastofnun búi yfir nægilega öflugum skipakosti til að sinna hlutverki sínu. Nýtt skip er í smíðum sem mun leysa af hólmi Bjarna Sæmundsson sem er 52 ára. Árni Friðriksson er orðinn 22 ára og mun hann líklega vera nærri aldarfjórðungsgamall er nýtt skip loksins kemur til landsins.

Það er spurning hvort þörf er á því að stjórnvöld áætli hver geta Hafrannsóknastofnunar þarf að vera og á þeim grundvelli móta langtímaáætlun um tilhögun hafrannsókna hér við land.

gso@mbl.is