Helgi Marinó Sigmarsson fæddist á Akureyri 21. júní 1932. Hann lést í faðmi fjölskyldunnar á hjúkrunarheimili Hraunbúða í Vestmannaeyjum 31. janúar 2022.

Foreldrar hans voru Sigmar Hóseasson, f. 13.5. 1900, d. 22.11. 1985, og Hólmfríður Kristjánsdóttir, f. 27.7. 1898, d. 31.7. 1933. Faðir Helga Marinós hélt heimili með börnum sínum í tvö ár eftir fráfall Hólmfríðar og voru systur hans ráðskonur hjá honum. Eftir það var börnunum komið fyrir hjá fósturforeldrum og var Helgi Marinó tekinn í fóstur árið 1936 af þeim Kristófer Eggertssyni skipstjóra , f. 28.11. 1892, d. í Gottorp, V-Hún., d. 16.11, 1961, og Helgu Eggertsdóttur f. 6.9. 1894 í Kothúsum, Garði, d. 29.5. 1967. Helga og Kristófer slitu samvistum í kringum 1940, þá búsett á Akureyri. Helga fluttist þá til Reykjavíkur með öll börnin.

Alsystkini Helga Marinós eru Kristín Helga, f. 7.4. 1923, d. 27.2. 2010, Sigríður, f. 25.6. 1925, d. 25.4. 1996, Ingvar Hóeseas, f. 18.2. 1927, d. 23.8. 1993, Ingibjörg Júdit, f. 7.4. 1928, d. 25.3. 1958, Sigurður, f. 23.10. 1929, d. 2.9. 2018, Salla Ragna, f. 22.1. 1931, d. 17.6. 2008. Samfeðra eru Sigurður Ingi, f. 20.3. 1942, d. 17.5. 2014, Magnea Stígrún, 12.6. 1943, d. 14.11. 2019, og Guðlaug, 14.12. 1948. Uppeldyssystur: Elísabet Fjóla Kristófersdóttir, f. 24.11. 1925, d. 28.8. 2004, Hjördís Kristófersdóttir, f. 20.10. 1929, d. 30.6. 1998.

Eftirlifandi eiginkona Helga Marinós er Guðrún Guðjónsdóttir, f. 10.3. 1938. Þau giftust 16. júní 1960. Börn þeirra eru: 1) Guðjón Viðar, f. 18.9. 1960. 2) Sólrún, f. 17.8. 1962. Eiginmaður hennar er Sigurður Friðrik Karlsson, f. 18.10. 1962. Börn þeirra eru: Svandís Unnur (látin), Sylvía Dögg og Sandra Dís. 3) Jóna Þorgerður, f. 15.1. 1964. Eiginmaður hennar er Benóný Gíslason, f. 27.7. 1962. Börn þeirra eru Sjöfn Kolbrún, Guðrún og Sigurður Grétar. 4) Hólmfríður Helga, f. 15.12. 1964. Eiginmaður hennar er Rafn Rafnsson, f. 18.6. 1962. Börn þeirra eru: Helgi, Rafn og Svandís. 5) Kristófer Helgi, f. 10.11. 1966. Börn hans eru Bergþóra Ósk, Sólveig Sara, Helgi Marinó og Grétar Gylfi. Stjúpdóttir hans er Þorgerður Anna. 6) Sigmar, f. 18.12. 1970. Börn hans eru: Berglind, Rakel og Arnór. 7) Guðbjörg, f. 22.6. 1975. Eiginmaður hennar er Örlygur Þór Jónasson, f. 13.3. 1974. Þeirra börn eru Örvar Þór, Þórhildur, Sara Margrét og Sigmar Gauti.

Helgi Marinó ólst upp hjá kjörforeldrum sínum á Sauðárkróki. Hann stundaði sjómennsku frá unga aldri og varð sjómennska hans ævistarf.

Útför Helga Marinós fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 12. febrúar 2022, klukkan 13.

Streymt verður frá útförinni:

https://www.landakirkja.is/

https://www.mbl.is/andlat

Við systkinin minnumst pabba með stolti, ást og virðingu. Um leið er ekki hjá því komist að nefna mömmu því þau voru kærleiksrík og ástfangin hjón fram á síðasta dag. Saman héldust þau í hendur í gegnum lífið í blíðu og stríðu og báru virðingu hvort fyrir öðru. Pabbi elskaði hana mömmu heitt, sá alltaf um að henni liði sem best og var óspar á falleg orð fram á hinstu stund. „Elsku fallega, góða konan mín. Fyrirgefðu þetta vesen á mér.“ Að vera veikur var vesen undir það síðasta.

Saman sáu þau um að okkur skorti ekkert. Pabbi byrjaði kornungur á sjó sem varð hans ævistarf. Það var ekki laust við að feimni gætti þegar hann kom heim eftir langa túra og þá yfirleitt með mikið skegg. En eftir stingandi pabbakossa var mesta feimnin horfin. Eftir gott bað og rakstur fórum við gjarnan með pabba um bæinn. Í stuttum inniverum þurfti að huga að ýmsu. Pabbi gekk svo rösklega um bæinn að þegar hann leiddi okkur systkinin vorum við oftast eins og þvottur á snúru. Hann var góður verkmaður. Lausnamiðaður og handlaginn enda gekk hann í öll störf innan heimilis eða til sjós. Jólamaturinn var stórt hlutverk pabba. Sama á hverju gekk þá var hann með mömmu í öllu.

Við vitum að skipsfélagarnir bera pabba vel söguna. Hann var ungum mönnum hvatning og aðstoð. Hann bar virðingu fyrir mönnum og dýrum. Hann kom færandi hendi með fisk fyrir sitt fólk og heimiliskettir fengu sinn skammt. Var það svo algengt að ákveðinn köttur þekkti bílhljóðið þegar Helgi í Hvammi nálgaðist. Fljótur var hann að flaka og lestarmenn fengu að finna fyrir því þegar kokkurinn var mættur í aðgerð. Net, togvír, pottar, pönnur, hamar eða sög, allt fór honum jafn vel. Með góða nærveru og góðleg augu en átti það samt til að blóta en það var meira vani en meining.

Pabbi gekk í öll störf á sjónum en kokkastarfið var hans frá árinu 1976. Hann á mömmu mikið að þakka þar. Hann skrifaði niður öll hennar ráð og uppskriftir sem reyndust honum dýrmætar. Í landi gerði hann vel í að breyta æskuheimilinu úr þröngum kosti í herbergi fyrir alla. Timbursalan var vinsæll viðkomustaður vegna þess að hann var í raun alltaf að. Gerði allt með hundrað prósent vandvirkni, nema kannski þegar hann sagaði í sundur stöku húsgögn í flýti. Pabbi var einnig fljótur til að hjálpa okkur þegar eitthvað var.

Hann elskaði að ferðast með okkur um landið og síðar erlendis með mömmu. Þá fór Viðar oft með. Pabbi var duglegur að tæma lista frá mömmu sem var með í fjölmörgum siglingum. Koma hann alltaf færandi hendi með föt, leikföng, nammi og góðan mat. Hann aðstoðaði líka yngri menn og sá til þess að þeir færu ekki tómhentir heim.

Hann átti alltaf í góðu sambandi við sína yfirmenn. Talaði um þá af virðingu og var alla jafna lengi á hverjum vinnustað. Vinsælt var að kalla í Helga í Hvammi um borð til að leysa af löngu eftir að hann var í raun hættur. Síðustu túrana fór hann 76 ára gamall. Kannski var það táknrænt er hann leysti son sinn af á Álsey sem þurfti að komast í land því nafni Helga í Hvammi var að koma í heiminn.

Margar góðar sögur af pabba eigum við frá skipsfélögum. Þær bíða betri tíma en glens og grín er í þeim langflestum. Urðu margar til löngu eftir að hann hætti til sjós og oft færðu gamlir samstarfsmenn honum fisk og áttu gott spjall um leið.

Við jólaborðið ár eftir ár leit pabbi alltaf stoltur yfir sinn hóp og sagði: „Ég held að jólatréð hafi bara aldrei verið jafn fallegt og núna.“

Sjálfur átti pabbi ekki alltaf létta æsku eða ævi. Missti mömmu sína aðeins árs gamall. Sá á eftir skipsfélögum. Reynsla sem hann átti alltaf erfitt með að ræða. En hann sá svo sannarlega vel um okkur. Við lítum núna stolt til baka yfir farinn veg.

Elsku pabbi, farðu í friði. Við pössum upp á hana mömmu, þína fallegu, góðu konu sem þú elskaðir allt þitt líf. Við elskum þig út fyrir allt. Takk fyrir allt. Bestur.

Viðar, Sólrún, Jóna,

Hólmfríður, Kristófer,

Sigmar, og Guðbjörg.

Elsku besti afi Helgi okkar. Það er svo sárt að sitja og skrifa minningarorð um þig. Þú hélst áfram að berjast eins og sannur harðjaxl og hetjan sem þú varst þó svo að þú auðvitað viðurkenndir það aldrei. Það eru nú ekki mörg ár síðan þú varst að mæta í ræktina í inniskóm og skyrtu – alltaf jafn flottur. Vonandi verðum við jafn öflug og þú varst meðan þú hafðir heilsu til. Við eigum sem betur fer öll svo margar góðar og fallegar minningar sem streyma um okkur þegar við hugsum til þín. Það var svo dásamlegt að koma í heimsókn í Hvamminn og síðar Foldahraunið. Amma bauð upp á kræsingar sem þú smurðir auðvitað með miklu smjöri. Svo sást þú til þess að allir fengju uppáhaldsnammið þitt, sem var auðvitað suðusúkkulaði.

Þú gerðir allt til þess að öllum liði vel, við munum muna eftir hlátrinum þínum og stríðnisglottinu. Það fengu ófá nef að „fjúka“ af sem þú á endanum settir aftur á eftir að hafa espað upp barnabörnin og barnabarnabörnin með stríðnispúkaglottinu þínu sem allir elskuðu. Það voru góðar stundir þegar öll barnabörnin löbbuðu frá Hvamminum yfir á Stakkó á sjómannadaginn, allir í sínu fínasta pússi. Það sem við vorum og erum stolt af afa Helga sjóara sem var svo virðulegur og virtur maður.

Þú hugsaðir svo vel um konuna þína sem var þér allt og börnin ykkar sjö, auk allra afkomenda ykkar sem eru orðnir talsvert margir í dag og mynda stóra samheldna fjölskyldu. Þvílík forréttindi að fá að vera hluti af Hvammarafjölskyldunni þar sem allir eru ávallt velkomnir. Það er alltaf jafn minnisstætt að eftir heimsóknir til ykkar ömmu stóðuð þið í dyrunum og veifuðuð og fóruð svo í stofugluggann og veifuðuð áfram þar til bíllinn hvarf úr augsýn.

Þú varst svo duglegur, góður og stoltur af þínum afkomendum. Þú náðir einstaklega vel til langafastrákanna þinna og var yndislegt að sjá hlýlega brosið þitt þegar þeir birtust. Þið sýnduð öllum svo mikla ást, knús og hlýju allt til síðasta dags. Þegar við kvöddum þig varstu með opinn faðm, spurðir frétta og dásamaðir fólkið þitt. Það er erfitt að trúa því að þú sért búinn að kveðja í hinsta sinn. Við trúum því að núna sértu verkjalaus og við yljum okkur við góðu minningarnar. Við vitum að þú átt eftir að vaka yfir okkur og öllum í fjölskyldunni þinni. Minning þín mun lifa í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Hvíldu í friði elsku afi okkar. Við munum öll passa rosalega vel upp á ömmu Gunnu fyrir þig.

Þín barnabörn,

Sjöfn Kolbrún Benónýsdóttir, Guðrún Benónýsdóttir og

Sigurður Grétar Benónýsson.

Þá er komið að leiðarlokum í þessu jarðlífi og annað tekur við elsku Helgi minn. Þegar krakkar voru sendir í sveit hér áðu fyrr þá var ég sendur til ykkar Gunnu og átti ég eftir að taka þátt í ferðalagi ykkar næstu árin. Reykjavík, Akranes og Vestmannaeyjar. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en löngu síðar að ég var ekki þarna með ykkur af því bara, heldur meira svona sem barnapía því á þessum sex árum með ykkur voru allt í einu komin fjögur börn. Takk fyrir það en fyrir mig var þetta bara svona að eignast fullt af yngri systkinum. Þessi tími með ykkur var ógleymanlegur og yndislegur og vil ég þakka þér elsku mágur minn fyrir allt það góða sem þú hefur gefið mér í gegnum tíðina. Og viljum við Sif, Rikki og Reynir bróðir þakka þér fyrir samfylgdina í gegnum tíðina, Helgi minn, og eigum við eftir að sakna þín mikið.

Elsku Gunna systir, Viðar, Sólrún, Jóna, Hólmfríður, Kristó, Simmi, Guðbjörg og aðrir ættingjar, megi algóður Guð vera með ykkur og styrkja á þessum erfiða tíma.

Sævar, Sif og Ríkarður.