Listamaðurinn Helgi Þorgils í Portfolio galleríi þar sem sýnd eru fjölbreytileg verk frá mótunarárum hans.
Listamaðurinn Helgi Þorgils í Portfolio galleríi þar sem sýnd eru fjölbreytileg verk frá mótunarárum hans. — Morgunblaðið/Einar Falur
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Auga í naglafari er yfirskrift sýningar sem verður opnuð í Portfolio galleríi á Hverfisgötu 71 í dag, laugardag, klukkan 16 á verkum sem Helgi Þorgils Friðjónsson vann á árunum 1977 til 1987.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Auga í naglafari er yfirskrift sýningar sem verður opnuð í Portfolio galleríi á Hverfisgötu 71 í dag, laugardag, klukkan 16 á verkum sem Helgi Þorgils Friðjónsson vann á árunum 1977 til 1987. Myndlistarmaðurinn Steingrímur Eyfjörð og Jón Proppé listfræðingur völdu verkin á sýninguna ásamt Helga sem hélt sína fyrstu einkasýningu árið 1975. Ári seinna, 1976, hafði hann lokið námi við Myndlista- og handíðaskólann og haldið til Hollands í framhaldsnám.

Jón Proppé fylgir sýningunni úr hlaði með texta sem hann skrifar og segir þar meðal annars að Helgi hafi við upphaf ferils síns staðið föstum fótum í konseptinu en hann var líka einn þeirra ungu listamanna sem voru að endurvekja málverkið og finna því hlutverk í nýju framúrstefnunni á tímum þegar miklar sviptingar voru í alþjóðlegri myndlist. „Þessir listamenn settu málverkið ekki á stall eins og tíðkast hafði heldur sóttu bæði efni og aðferðir úr alls konar lágmenningu,

teiknimyndasögum, auglýsingaefni og jafnvel kennslubókum,“ skrifar Jón. Góð dæmi um þetta allt má sjá á þessari forvitnilegri sýningu og athyglisvert er að fá þessa innsýn í upphaf ferils eins af okkar mikilvægustu myndlistarmönnum.

Merkilegt breytingatímabil

Jón Proppé segir Steingrím Eyfjörð hafa átt frumkvæðið að sýningunni og hafa fengið þá Jón og Sigurjón Sigurgeirsson hjá Portfolio galleríi til liðs við sig. Jón segir þá Helga og Steingrím Eyfjörð hafa stigið sín fyrstu skef í myndlistinni á sama tíma og voru að vissu leyti þá að fást við svipaða hluti.

„Við heimsóttum Helga og fórum að draga fram úr hans mikla safni gamlar myndir frá þessum tíma,“ segir Jón. „Þessi verk sýna merkilegt breytingatímabil í íslenskri myndlist og tengja líka saman á marga vegu ýmislegt í myndlist okkar síðustu áratugi. Við getum til dæmis séð fæðast hugmyndir sem listamenn hafa síðan unnið úr en líka hvernig íslensk samtímalist síðustu áratuga tengist aftur í konseptlistina og það sem SÚM-ararnir voru að gera. Sú tenging er ennþá mjög lifandi í íslenskri myndlist.“

Jón segir að við val verkanna á sýninguna hafi þeir félagar beint sjónum að mótunartíma Helga Þorgils og þeim tengingum sem birtast í verkunum við list forvera hans og samtímamanna. Ein af fyrstu sýningum Helga hafi verið í SÚM-galleríinu sem var skömmu síðar aflagt. Sýningarhald ungra listamanna var þá einkum í listamannareknum rýmum hér og Jón segir marga hafa þá verið að vinna úr arfleifð SÚM-aranna sem voru þá haldnir til útlanda, og fóru margir hinna yngri til framhaldsnáms í Hollandi.

„Það er merkileg samfella í sýningahaldi sem listamenn stóðu sjálfir fyrir,“ segir Jón, „en söfnin voru þá hvorki að kaupa né sýna verk SÚMara eða yngri listamanna. Þeir urðu að búa sjálfir til sín tækifæri og tengslanet.

Ég held að fólk átti sig ekki á því hvað starfsemi margra þessara listamanna, eins og Helga, var í rauninni mikið erlendis. Hann var tiltölulega óþekktur meðal almennings hér þar til hann hélt stóra sýningu á Kjarvalsstöðum árið 1986 en hafði þá verið að sýna í mörgum löndum og víða, í góðum galleríum og á alls kyns samsýningum í söfnum og tvíæringum. Það er kominn tími til að rifja þessa sögu upp. Það gerðist eitthvað mjög miilvægt í íslenskum listum um og upp úr 1980. Þetta er á sama tíma og hin nýja íslenska popptónlist náði flugi, Björk og svo framvegis, og það var lagður grunnur að öllu því fáránlega öfluga menningarlífi sem við eigum í dag, þar sem ungt fólk ræður á ferðinni. Það var á þessum tíma sem ungt fólk tók sér þau völd, enginn rétti þeim tækifærin. Helgi Þorgils og samtímamenn hans áttu ekkert von á því að Listasafn Íslands myndi kaupa verk þeirra svo þeir gerðu það sem þeim sýndist.“

Bókverk sem samskiptatæki

Helgi hefur alltaf verið afar vinnusamur og afkastamikill. Var ekki erfitt að velja verk úr djúpum hirslum hans?

„Jú, það var af nógu að taka,“ svarar Jón. „Eitt af því sem við drögum fram eru bókverk, heimagerðar bækur sem voru þá stór hluti af sköpun hanas og líka samskiptum, því slíkar bækur og lítil fjölfölduð verk gátu listamenn sent hver öðrum sem upplýsingar um hvað þeir væru að gera. Þá afhjúpast líka hvert Helgi sótti hugmyndaheiminn, til dæmis í teiknimyndir og ýmislegt furðulegt myndefni sem áður hafði vart verið talið verðugt viðfangsefni myndlistarmanna. Þessi kynslóð kemur fram með allt aðra afstöðu til listsköpunar og til málverksins. Sú nálgun hafði orðið til í konseptinu og flúxus-hreyfingunni að allur efniviður væri jafnrétthár, og allir miðlar og viðfangsefni jafngild.

Loks má sjá á sýningunni hvernig þær hugmyndir fæddust sem Helgi hefur síðan verið að vinna úr, öll þessi fínu málverk sem við þekkjum frá síðustu þremur áratugum þegar hann hefur skipað sér í fremsta flokk íslenskra listamanna.“