Á vetrarólympíuleikum má finna margar mjög áhugaverðar greinar. Íþróttagreinar sem maður á ekki kost á að sjá í sjónvarpi með auðveldum hætti nema á þessum leikum.
Á vetrarólympíuleikum má finna margar mjög áhugaverðar greinar. Íþróttagreinar sem maður á ekki kost á að sjá í sjónvarpi með auðveldum hætti nema á þessum leikum.

Hér á blaðinu fylgdumst við gapandi með þegar keppni á magasleða fór fram á leikunum í Peking í gær. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að það sé ekki íþróttagrein fyrir lífhrædda.

Þar liggja menn á sleðanum á maganum og bruna eftir brautinni á meira en 100 kílómetra hraða með höfuðið á undan. Sleðinn minnir einna helst á trillu sem menn hafi fengið lánaða á lager í einhverju fyrirtækinu.

Þegar menn eru í þeirri stöðu í lífinu, að vera á mikilli ferð á hálum ís með höfuðið á undan sér, þá er tilhneiging til að reyna að draga úr hraðanum. En keppendur í þessari grein vilja hins vegar fyrir alla muni fara hraðar og helst komast eins hratt og mögulegt er.

Adrenalínfíklar sem stökkva fram af háhýsum með fallhlíf, eða stunda alls kyns hættulega dægrastyttingu, gætu ef til vill sett adrenalínfíknina í farveg með því að æfa og keppa á magasleða. Þarna gæti mögulega einhvers konar adrenalíntoppi verið náð.

Bæði á sumarleikum og vetrarleikum er hægt að finna greinar sem maður hefur gaman af því að fylgjast með þótt maður verði ekkert var við þær í fjögur ár. En á vetrarleikunum finnst mér þær vera ívið fleiri. Alla vega fleiri greinar sem ekki eru stundaðar á Íslandi. Hvers vegna hafa rjúpnaskytturnar okkar ekki sett á sig gönguskíði og unnið sig inn á VetrarÓL í skíðaskotfimi?