Hestamaður Friðgeir Smári Stefánsson bóndi á Laugardalshólum.
Hestamaður Friðgeir Smári Stefánsson bóndi á Laugardalshólum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Þegar nýjasta markaskráin var í vinnslu átti að taka markið „sýlt og gagnfjaðrað vinstra“ af Friðgeiri Smára Stefánssyni, bónda á Laugardalshólum í Bláskógabyggð. Hann varði sitt mark og hélt því hreinu. „Í úrskurði landbúnaðarráðuneytisins kom fram að enginn bóndi á Íslandi hefði getað rakið mark sitt eins langt aftur og ég gerði og þar með hélt ég markinu.“

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þegar nýjasta markaskráin var í vinnslu átti að taka markið „sýlt og gagnfjaðrað vinstra“ af Friðgeiri Smára Stefánssyni, bónda á Laugardalshólum í Bláskógabyggð. Hann varði sitt mark og hélt því hreinu. „Í úrskurði landbúnaðarráðuneytisins kom fram að enginn bóndi á Íslandi hefði getað rakið mark sitt eins langt aftur og ég gerði og þar með hélt ég markinu.“

Þegar málið kom upp hafði Friðgeir samband við bóndann sem var með sama mark í Skagafirði og bauðst til að kaupa það af honum. „Hann vildi ekki selja það og þá sagði ég honum að þá yrði ég bara að taka það af honum.“

Ekki mátti lengur vera sama mark í Árnessýslu og Skagafirði. Friðgeir segir að ráðamenn hafi talið að markið fyrir norðan væri eldra en sitt og hann yrði því að gefa það frá sér. „Ég vissi að það mark er rétthæst sem gengur að erfðum, er sterkara en það sem er selt eða gefið. Ég gat sýnt fram á að markið mitt hafði gengið að erfðum frá 1825 og sama ættin búið hérna frá 1710 svo líklegt væri að að markið hefði verið í eigu hennar frá þeim tíma.“

Selja nánast allt sjálf

Friðgeir byrjaði í búskap með föður sínum 16 ára 1960 og tók svo við búinu um þremur árum síðar eða fyrir um 60 árum. Feðgarnir Friðgeir og Jóhann Gunnar stofnuðu eignarhaldsfélag um reksturinn 2017 eftir að Jóhann hafði komið að sauðfjárbúskapnum frá 1996. Umsjón félagsins er í höndum hjónanna Jóhanns og Heiðu Bjargar Hreinsdóttur. Það á skepnurnar en Friðgeir leggur áherslu á að hann eigi sínar kindur. „Það er mikill metingur í ræktuninni á milli okkar feðganna.“

Bændurnir á Laugardalshólum kaupa um vikugamla íslenska kálfa sem þeir ala upp og eru að jafnaði með um 120 nautgripi, um 130 vetrarfóðraðar kindur og hross. Hjónin opnuðu Hólabúðina í desember 2020 og selja afurðir sínar beint frá býli – lambakjöt, hrossakjöt og nautakjöt – auk þess sem þau eru með grænmeti frá Böðmóðsstöðum til sölu og jarðarber og fleira frá Reykholti. Enn fremur peysur og fleira eftir Heiðu. „Kjötvinnslan er á Hellu og frúin sér aðallega um verslunina en við seljum nánast alla okkar gripi sjálf,“ segir Jóhann. Bætir við að landbúnaðurinn sé ekki sjálfbær og nautaræktin standi ekki undir sér vegna hækkandi áburðarverðs og annars kostnaðar. Því hafi þau opnað búðina til að freista þess að styrkja stoðirnar. „Ég vinn samt enn fulla vinnu með rekstrinum sem múrarameistari.“

Tíðin hefur verið rysjótt að undanförnu en Friðgeir minnir á að allra veðra sé von á þessum tíma. „Nú eru allir vegir mokaðir og enginn þarf lengur að vera með skóflu í skottinu til að moka sig áfram.“ Hann rifjar upp að árið 1979 hafi verið það kaldasta í um 100 ár. „Fara þurfti aftur til 1881 til að finna jafn kalt ár. Á þeim tíma var mikil kuldatíð og þangað vilja náttúruverndarsinnar komast núna – miða allt við að mikið hafi hlýnað síðan 1880. Vill einhver fara þangað?“