Gunnar Þorsteinsson fæddist 6. nóvember 1959. Hann lést 2. desember 2021. Útför Gunnars fór fram 13. desember 2021.

Gunnar Þorsteinsson var mikill ljúflingur. Honum kynntist ég fyrst árið 1979 hjá tímaritaútgáfunni Frjálsu framtaki. Gunni var með afbrigðum góður auglýsingasölumaður og var alltaf búinn með sín markmið langt á undan öðrum. Hann var tvítugur, alltaf brosandi og alltaf með margar hugmyndir fyrir okkur blaðamennina sem þurftum að skrifa í mörg tímarit. Hann var frjór og vel lesinn og þægilegt að vera í návist hans. Gunni var alltaf í jakkafötum, skyrtu og með slifsi. Hann var skemmtilega pjattaður, en lét sig ekki muna um að fara svona flott klæddur til að taka ónýtan rafgeymi úr gamla Skódanum mínum. Sýra skvettist á fötin hans og eyðilagði þau. Ég fæ enn þá móral þegar ég hugsa um þennan dag en Gunni hló alltaf að mér þegar ég minnti hann á að ég skuldaði honum jakkaföt.

Árin liðu og alltaf hittumst við Gunni af og til. Hann hafði óbilandi áhuga á flugi og öllu sem viðkom því og elskaði að starfa við allt sem að því laut. Fyrir mörgum árum æxlaðist þannig til að Gunni og vinkona mín, Erna Margrét Ottósdóttir Laugdal, hittust í sjoppunni „okkar“ á horni Garðastrætis og Vesturgötu. Þar sameinuðust tvær sálir í einni. „Þú fullkomnar mig“ verður sungið í Dómkirkjunni í dag, lag sem Erna og Gunni gætu hafa samið hvort til annars.

Við tóku skemmtileg ár. Erna, þessi myndarkokkur, og Gunni með þjónustulundina elskuðu að taka á móti gestum í mat og vinahópurinn átti mörg góð ár með þeim. Úr þeim hópi hafa þegar kvatt Ingólfur Margeirsson, Halldór Halldórsson og nú elsku Gunni.

Hinn skelfilegi sjúkdómur alzheimer lagðist af miklum þunga á Gunnar síðustu árin, en hann var aldrei einn. Erna stóð með honum í blíðu og stríðu og yfirgaf hann aldrei. Tryggðatröll sem nú sér á bak ástinni sinni.

Vertu kært kvaddur elsku Gunni og takk fyrir 42 ára kynni sem voru eins og þú, ljúf og góð.

Elsku Ernu minni samhryggist ég mjög og bið henni og fjölskyldunni allrar blessunar.

Anna Kristine Magnúsdóttir.