Öryggisverðir hraða sér með Edith Cresson inn í þyrluna fyrir 40 árum.
Öryggisverðir hraða sér með Edith Cresson inn í þyrluna fyrir 40 árum.
Franski landbúnaðarráðherrann, Edith Cresson, komst í hann krappan þegar hún heimsótti bóndabæ nokkurn í Normandí fyrir réttum 40 árum. Þar voru bændur samankomnir, sem voru óhressir með landbúnaðarstefnu Efnahagsbandalagsins.

Franski landbúnaðarráðherrann, Edith Cresson, komst í hann krappan þegar hún heimsótti bóndabæ nokkurn í Normandí fyrir réttum 40 árum. Þar voru bændur samankomnir, sem voru óhressir með landbúnaðarstefnu Efnahagsbandalagsins. Hitnaði mönnum mjög í hamsi með þeim afleiðingum að bændur neituðu Cresson um að yfirgefa bóndabýlið.

Eftir nokkrar klukkustundir birtust hermenn, gráir fyrir járnum, og fjölmennt lögreglulið, sem tókst um síðir að bjarga ráðherranum úr höndum bændanna. Um leið og Cresson var laus úr prísundinni var farið snarlega með hana í þyrlu, sem flutti hana til síns heima.

Um þetta mál var fjallað í þættinum Fólk í fréttum í Morgunblaðinu 13. febrúar 1982. Þar var einnig frétt þess efnis að Alan Alda hefði „loksins“ ákveðið að hætta framleiðslu á bandarísku sjónvarpsþáttunum Spítalalífi. „Alan þessi Alda hefur leikið aðalhlutverkið í þáttunum, skrifað handrit og leikstýrt þeim. Og það hefur hann nú gert í níu ár og veit ekki lengur aura sinna tal. En níu ár? Jú, það er þrefalt lengri tími en Kóreustríðið stóð – sem þættirnir eru einmitt byggðir á!“