Útlagasaga Björgvin Franz og Jón Gnarr á æfingu á Skugga-Sveini í Samkomuhúsinu.
Útlagasaga Björgvin Franz og Jón Gnarr á æfingu á Skugga-Sveini í Samkomuhúsinu. — Ljósmynd/Auðunn Níelsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
VIÐTAL Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Leikfélag Akureyrar frumsýnir í dag hið góðkunna leikrit Matthíasar Jochumssonar, Skugga-Svein, í Samkomuhúsinu. Verkið er í nýrri útgáfu og fjallar um hinn þekkta útilegumann Skugga-Svein og lið hans sem Lárensíus sýslumann dreymir um að klófesta. Babb kemur í bátinn þegar dóttir Lárensíusar verður ástfangin af einum útlaganna og gerir allt hvað hún getur til að frelsa hann frá fangelsun og dauða, eins og því er lýst á vef leikhússins. Hefst þá spennandi atburðarás og barátta á milli ástar og haturs, réttlætis og ranglætis.

VIÐTAL

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Leikfélag Akureyrar frumsýnir í dag hið góðkunna leikrit Matthíasar Jochumssonar, Skugga-Svein, í Samkomuhúsinu. Verkið er í nýrri útgáfu og fjallar um hinn þekkta útilegumann Skugga-Svein og lið hans sem Lárensíus sýslumann dreymir um að klófesta. Babb kemur í bátinn þegar dóttir Lárensíusar verður ástfangin af einum útlaganna og gerir allt hvað hún getur til að frelsa hann frá fangelsun og dauða, eins og því er lýst á vef leikhússins. Hefst þá spennandi atburðarás og barátta á milli ástar og haturs, réttlætis og ranglætis.

Margar litríkar persónur má finna í verkinu auk Skugga-Sveins, m.a. þau Grasa-Guddu, Gvend smala og Ketil skræk. Jón Gnarr leikur Skugga-Svein og í öðrum hlutverkum eru Björgvin Franz Gíslason, Sunna Borg, María Pálsdóttir, Árni Beinteinn Árnason, Þórdís Björk Þorfinnsdóttir, Vala Fannell og Vilhjálmur B. Bragason en leikstjóri er Marta Nordal. Um búninga sér Björg Marta Gunnarsdóttir, tónsmíðar og tónlistarútsetningar Sævar Helgi Jóhannsson en söngtextar eru eftir Vilhjálm B. Bragason. Ljósahönnuður er Ólafur Ágúst Stefánsson og hljóðhönnuður Gunnar Sigurbjörnsson.

Lék allar persónur

„Þetta er töluvert aðgengilegra í þessari uppfærslu en ella,“ segir Jón þegar hann er spurður hversu aðgengilegt þetta gamla leikrit sé árið 2022. „Ég held að verkið eigi alveg að geta verið áhugavert fyrir ungt fólk,“ segir hann og að það unga fólk sem séð hafi sýninguna virðist hafa tekið henni vel og af áhuga. „Þetta er margslungið verk, ástarsaga í aðra röndina líka og ég held að margt sé í Skugga-Sveini sem á eftir að koma yngra fólki skemmtilega á óvart,“ bætir Jón við. Hann segir Matthías hafa verið undir áhrifum frá Shakespeare og unnið með ákveðin minni frá honum í verkinu. „Það er smá Hamlet, smá Rómeó og Júlía og Lér konungur. Hann hefur greinilega verið undir áhrifum frá Shakespeare,“ nefnir Jón.

Hann segist hafa þekkt til verksins áður en honum bauðst hlutverkið en hafi þó aldrei séð verkið á sviði, aðeins lesið það. „Ég las það upp í útvarpinu sem framhaldsleikrit þar sem ég lék allar persónur,“ segir Jón sposkur. Þetta hafi hann gert fyrir nokkrum árum þegar hann var með eigin þátt á Rás 2.

–Hvernig voru viðbrögðin við þeirri útfærslu?

„Þau voru bara góð hjá þeim sem heyrðu þennan lestur. Ég lék þá Skugga-Svein og Grasa-Guddu, Ketil skræk og Lárensíus sýslumann og í því verki voru stúdentarnir líka og ég lék þá alla. Ég var með þetta sem framhaldsleikrit,“ svarar Jón kíminn.

Betrumbæta spaugið

Ólafía Hrönn Jónsdóttir átti upphaflega að fara með hlutverk Skugga-Sveins en vegna anna varð hún að segja sig frá verkefninu og tók Jón þá við keflinu. Jón tengja flestir við gamanleik og grín og er hann því spurður hvort valið á honum í hlutverkið þýði að það verði spaugilegra en vant er. Jón bendir þá á að verkið sé gamanleikur og hafi átt að vera íslensk útgáfa af dönskum revíum. Matthías hafi sjálfur talað um að verkið væri bull, eða eitthvað í þá veru. „En við kannski betrumbætum húmorinn í þessu, þetta er skemmtilegri húmor,“ segir Jón. Þar sem Matthías hafi ekki verið leikskáld sé verkið að sumu leyti viðvaningslega skrifað og alltaf áskorun að takast á við texta skáldsins.

Jón segir Mörtu Nordal leikstjóra nota bæði leikritin, kjarna það besta úr báðum og setja upp sem eitt. „Það þarf að skera mikið niður í þessu, þetta er gríðarlega mikill texti, mikið um tvítekningar og svo er oft texti sem er óþarfur. Fólk er til dæmis að segja hvað það ætlar að gera eða hvað það er að gera,“ segir Jón og bregður sér í hlutverk konu, af sinni alkunnu snilld, sem segist ætla að setjast niður og kemba ull. „Þetta er dæmt í leikhúsi sem óþarfi en ofboðslega skemmtilegt að fá að vera með í því að vinna svona texta.“

Á erfitt með að snúa aftur

Jón segir verkið á ákveðinn hátt fjalla um utangarðsfólk, fólk sem endi, einhverra hluta vegna, utangarðs og eigi erfitt með að fá uppreist æru og koma aftur til manna eftir útskúfun eða félagslega einangrun. „Mér finnst það alltaf vera leiðarstef í verkinu og ástarsaga útilegudrengsins Haraldar og Ástu sem er dóttir sýslumannsins sem er að reyna að ná honum. Hún er að reyna að bjarga honum en pabbi hennar að reyna að ná honum.“

–En hvar er sýningin í tíma og rúmi, er hún nær samtímanum en eldri uppfærslur?

„Ég myndi telja að þessi leikgerð væri nær samtímanum. Við hverfum svolítið frá of upphöfnu máli eins og „vér“ og „oss“ og svona og færum það meira til nútímamáls,“ svarar Jón og bendir á að búningarnir séu í kúrekastíl en á veggspjaldi sýningarinnar má einmitt sjá Jón með kúrekahatt. Jón nefnir líka að nýjar útsetningar séu á þekktum lögum í sýningunni.

Dásamlegur tími

Jón er vanari að leika í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum en á leiksviði og segist hafa virkilega gaman af leikhúsvinnunni. „Ég hef leikið í nokkrum leikritum, nokkrum uppfærslum og hef alveg sérstakar mætur á því. Mér finnst rosalega gaman að koma inn í leikhúsið og vera hluti af því í svona góðum hópi. Mér finnst það bara ótrúlega gaman og mig langar að gera meira af því. Ég kann gríðarlega vel við vinnuna, mér finnst þetta nokkuð rútíneruð vinna og fagleg vinnubrögð, ofsalega gaman að fá að vinna með fagfólki í einhverju sem ég hef minna gert af. Að leika á sviði er ólíkt hinu, bæði er lifandi samband við áhorfendur og svo þarf leikarinn líka að vera meðvitaður um hvar hann er staddur á sviðinu, hvar ljósin eru, og mér finnst það bara ofsalega gaman. Þetta hefur verið dásamlegur tími, að fá að dvelja hérna fyrir norðan,“ segir Jón.

Hann segist stefna að því að vinna meira í leikhúsi í framtíðinni en hann lauk MFA-námi við sviðshöfundabraut Listaháskóla Íslands í fyrra og var lokaverkefni hans flutningur á Völuspá . Söng Jón kvæðið við undirleik Þeys 2 og vina og vakti mikla athygli fyrir.

Jón er spurður hvort hann hyggist gera meira af því að skrifa leikrit og segist hann vera að skoða það. Eitt verk eftir hann bíður enn frumsýningar í Hádegisleikhúsi Þjóðleikhússins og segist hann vera með nokkrar pælingar sem þurfi að skoða. Ekki má svo gleyma Tvíhöfða, tvíeyki þeirra Sigurjóns Kjartanssonar, og segir Jón þá stefna að „upprisuhátíð og páskahreti“ á páskum. „Mér finnst svo dásamlegt ef allt er að vakna til lífsins, ef það er í alvörunni rétt, og mig langar bara að vera hluti af því.“

Stefnt er að því að sýna Skugga-Svein út apríl og mögulega halda sýningar áfram í haust. Frekari upplýsingar og miðasölu má finna á mak.is.