Gangan Snorri Einarsson hefur keppt í tveimur greinum á Vetrarólympíuleikunum og á eftir liðakeppni í sprettgöngu og 50 km göngu.
Gangan Snorri Einarsson hefur keppt í tveimur greinum á Vetrarólympíuleikunum og á eftir liðakeppni í sprettgöngu og 50 km göngu. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÓL 2022 Víðir Sigurðsson vs@mbl.

ÓL 2022

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Snorri Einarsson er langbestur þeirra íslensku karla sem keppt hafa í 15 km skíðagöngu á Vetrarólympíuleikum og Hólmfríður Dóra Friðgeirsdóttir hefur náð næstlengst þeirra íslensku kvenna sem hafa keppt í risasvigi á leikunum.

Þau kepptu bæði í Peking í gærmorgun. Snorri hafnaði í 36. sæti af 99 keppendum í 15 km skíðagöngu og Hólmfríður Dóra hafnaði í 32. sæti af 44 keppendum í risasvigi. Snorri á enn eftir að keppa í tveimur greinum, liðakeppni í sprettgöngu og í 50 km göngu, en þetta var þriðja og síðasta grein Hólmfríðar.

Snorri upp um 17 sæti

Snorri keppti í 15 km göngunni í annað sinn en hann varð í 53. sæti í Pyeongchang árið 2018. Hann hækkaði sig því um sautján sæti, færði sig enn nær þeim bestu, en er samt nánast jafnlangt á eftir sigurvegaranum og fyrir fjórum árum. Þá var hann um 3,22 mínútum á eftir Dario Cologna frá Sviss og í gær var hann um 3,22 mínútum á eftir hinum magnaða Iivo Niskanen frá Finnlandi sem vann gönguna með nokkrum yfirburðum.

Alls hafa sextán Íslendingar keppt í 15 km skíðagöngu karla á Ólympíuleikum frá árinu 1956 en aðeins tveir á þessari öld; Snorri og Sævar Birgisson sem var með í Sotsjí árið 2014.

Aðeins tveir aðrir en Snorri hafa verið minna en fimm mínútum á eftir sigurvegara í þessari grein. Halldór Matthíasson var 4,44 mínútum á eftir fyrsta manni og í 47. sæti árið 1976 og Einar Ólafsson var 4,96 mínútum á eftir fyrsta manni og í 49. sæti árið 1984. Auk þeirra hefur aðeins Haukur Sigurðsson, árið 1980, komist niður fyrir sæti 50 í greininni en hann varð þá í 47. sæti, 5,46 mínútum á eftir sigurvegara. Þá var Daníel Jakobsson í 50. sætinu árið 1994.

Næst á eftir Dagnýju Lindu

Hólmfríður Dóra er fjórða íslenska konan sem keppir í risasvigi á Vetrarólympíuleikum og sú þriðja sem lýkur keppni. Hún endaði í 32. sæti og var 3,90 sekúndum á eftir ólympíumeistaranum, Laru Gut-Behrami frá Sviss. Gut-Behrami fór brautina á 1:13,51 mínútu en Hólmfríður Dóra á 1:17,41 mínútu.

*Dagný Linda Kristjánsdóttir lauk ekki keppni í Salt Lake City 2002 en varð í 23. sæti í Tórínó árið 2006 og var þá aðeins 2,09 sekúndum á eftir sigurvegaranum, Michaelu Dorfmeister frá Austurríki.

*Íris Guðmundsdóttir lauk ekki keppni í Vancouver 2010 en Helga María Vilhjálmsdóttir hafnaði í 29. sæti í Sotsjí 2014. Hún var 7,90 sekúndum á eftir sigurvegaranum, Önnu Fenninger frá Austurríki.

Sturla úr einangrun í keppni

Sturla Snær Snorrason losnaði úr einangrun í gær eftir að hafa fengið kórónuveiruna rétt eftir komuna til Peking. Hann hefur ekkert getað æft og mætir því ekki vel undirbúinn í fyrri grein sína á leikunum, stórsvigið, sem fer fram í nótt og hefst klukkan 02.15 að íslenskum tíma. Sturla er eini Íslendingurinn sem keppir á leikunum um helgina.

*Þegar keppni lauk í gær höfðu Þjóðverjar fengið flest gullverðlaun á leikunum í ár, sjö talsins, og Norðmenn sex, en Holland og Svíþjóð komu næst með fimm gullverðlaun. Samanlagt eru Noregur og Austurríki með flesta verðlaunapeninga, 14 hvor þjóð, en Rússland og Kanada með 12 hvor þjóð, Þýskaland 11 og Holland, Bandaríkin og Ítalía 10 verðlaun hver þjóð.