Áskell Másson
Áskell Másson — Morgunblaðið/Hanna
Eftir Áskel Másson: "Eiga þeir sem harðast eru starfandi bæði nú, svo og í gegnum tíðina, ekkert skilið?"

Vegna umræðna um faraldurinn Covid-19 í fjölmiðlum undanfarið vil ég leyfa mér að benda á þær aðstæður tónlistarfólks sem nú eru staðreynd.

Fyrir um rúmu hálfu ári las ég í breska tónlistartímaritinu BBC Music Magazine að um 30% atvinnutónlistarfólks þarlendis væru orðin gjaldþrota, hefðu svipt sig lífi eða hreinlega snúið sér að öðru.

Það er augljóst að þeir sem hafa snúið sér að öðrum störfum eru unga fólkið í þessum hópi.

Nú fyrir skemmstu mátti lesa í sama riti að 82% starfandi tónlistarfólks í Bretlandi hefðu ekki enn getað snúið sér að fullri vinnu í faginu.

Hér á landi hafa, mér vitandi, ekki verið gerðar neinar athuganir á raunverulegum áhrifum reglna vegna faraldursins, en hér má hafa hugfast, að fáir munu starfa hér á landi að öllu leyti sjálfstætt í faginu, án fastrar vinnu hjá stofnun s.s. hljómsveit eða skóla. Ljóst er, engu að síður, að staðan er afleit, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Þegar að kreppir er vert að líta aðeins á staðreyndir í þessum aðstæðum. Nýlega var hér tilkynnt hverjir hefðu hlotið starfslaun listamanna úr Tónskáldasjóði. Kom í ljós að enginn af minni kynslóð tónskálda hefði hlotið úthlutun úr sjóðnum. Ímyndum okkur að svo hefði verið með listamannalaun rithöfunda. Það hefði þýtt að flestir okkar þekktustu og viðurkenndustu höfundar hefðu fengið neitun frá sjóðnum.

Reglur eru, hvað Tónskáldasjóð listamannalauna varðar, þverbrotnar. Ekkert þeirra tónskálda sem mest hafa starfað í faginu fær neina úthlutun!

Hinn 26. janúar sl. var síðan tilkynnt að viðbótarframlag til sjóðsins, sem var umtalsvert, væri hugsað eingöngu fyrir tónskáld 35 ára eða yngri. Hvað liggur hér að baki? Eiga þeir sem harðast eru starfandi bæði nú, svo og í gegnum tíðina, ekkert skilið?

Í stuttu samtali sem ég átti við Sigurð heitinn Pálsson rithöfund um þessa sjóði sagði hann: „Við erum alltaf á byrjunarreit. Látin sækja um á hverju ári þótt allir viti í raun hver við erum og hvað við stöndum fyrir. Komumst ekkert. Engin viðurkenning á störfum okkar.“

RÚV sýndi á dögunum ágætan þátt sem samanstóð af viðtölum og öðru efni sem klippt hafði verið saman til minningar um Gylfa Þ. Gíslason, fyrrverandi ráðherra. Sagði hann þar margt sem, leyfi ég mér að segja, mætti vera til fyrirmyndar fyrir núverandi ríkisstjórn og ráðafólk hér í mati þess um það í hverju sönn verðmæti þjóðarinnar fælust. Sami maður hafði við mig samband símleiðis skömmu fyrir andlát sitt og tjáði mér það að það hefði verið sér kappsmál að ég fengi ævilaun vegna virðis og sérstöðu tónlistar minnar, en sér hefði því miður ekki tekist það (þess má geta að öll laun til listamanna voru á þessum tíma á öðrum stað en í dag). Grunaði mig að sá mæti maður hugsaði svipað til fleiri listamanna en mín. Rétt er að taka fram, að við Gylfi þekktumst ekkert, persónulega.

Ég sat í stjórn STEFs um langt árabil, fyrsta áratuginn í hlutverki formanns/varaformanns. Tók stjórnin á öðru hverju ári þátt í alþjóðlegri höfundarréttarráðstefnu. Á einni þeirra kvaddi sér hljóðs kona, virtur enskur rithöfundur. Sagði hún frá samskiptum sínum við pólitíkusa í árafjöld. „Þeir segja flestir eitthvað þessu líkt: Listamenn elska svo mikið það sem þeir gera að þeir myndu örugglega gera það fyrir ekki neitt. En þeir vita að öll verk okkar verða að lokum þjóðareign.“

Höfundur er tónskáld.