[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Aaron Rodgers , leikstjórnandi Green Bay Packers, hefur verið valinn besti leikmaður bandarísku NFL-deildarinnar í fjórða sinn á ferlinum. Rodgers er 38 ára gamall og hlýtur þennan heiður annað árið í röð.

* Aaron Rodgers , leikstjórnandi Green Bay Packers, hefur verið valinn besti leikmaður bandarísku NFL-deildarinnar í fjórða sinn á ferlinum. Rodgers er 38 ára gamall og hlýtur þennan heiður annað árið í röð. Síðast gerðist það 2008 og 2009 þegar Peyton Manning var valinn tvö ár í röð. Rodgers var einnig valinn 2011 og 2014 en miðað er við keppnistímabilið áður en að úrslitakeppninni kemur. Green Bay komst ekki í úrslitaleik NFL eins og margir höfðu spáð og féll út gegn San Francisco 49ers.

* James Harden , ein af stærstu stjörnum NBA-deildarinnar í körfubolta, er ekki lengur leikmaður Brooklyn Nets og er kominn til Philadelphia 76ers. Félögin gerðu með sér athyglisverð leikmannaskipti. Brooklyn fær í staðinn Ben Simmons sem er frábær varnarmaður þegar hans nýtur við. Hann hefur hins vegar enn ekki spilað á tímabilinu þar sem hann er óbólusettur. Brooklyn fær einnig skyttuna Seth Curry sem leikið hefur vel í Philadelphia og miðherjann Andre Drummond sem verið hefur varaskeifa fyrir hinn snjalla Joel Embiid . Hinn 37 ára gamli Paul Millsap fer einnig frá Brooklyn yfir til Philadelphia.

*Slóveninn snjalli Luka Doncic var óstöðvandi í fyrrinótt þegar lið hans Dallas Mavericks lagði Los Angeles Clippers að velli í NBA-deildinni í körfubolta, 112:105. Doncic skoraði tæplega helming stiga Dallas, 51 talsins, og var aðeins tveimur stigum frá félagsmeti Dirk Nowitzki sem skoraði 53 stig í leik fyrir liðið árið 2004. Þar af skoraði Slóveninn hvorki fleiri né færri en 28 stig í fyrsta leikhluta en þetta er persónulegt met hjá honum í deildinni.

* Mikaela Shiffrin frá Bandaríkjunum, ein fremsta skíðakona heims, sagði að sér væri létt eftir að hún hafnaði í níunda sæti í risasviginu á Vetrarólympíuleikunum í Peking í gærmorgun. Shiffrin keyrði út úr brautinni eftir örfá hlið í fyrri ferðum, bæði í stórsvigi og svigi, og álagið var það mikið á henni að hún íhugaði að sleppa því að keppa í risasviginu. „Það var eiginlega ótrúlegt að komast klakklaust fram hjá fjórða og fimmta hliði í brekkunni,“ sagði Shiffrin hlæjandi við Eurosport-Discovery eftir keppnina.

*Svíinn Nils van der Poel sló eigið heimsmet í gær þegar hann varð ólympíumeistari í 10.000 metra skautahlaupi á Vetrarólympíuleikunum í Peking. Þetta er annað gullið sem van der Poel hreppir á þessum leikum en hann vann 5.000 metra skautahlaupið á nýju ólympíumeti um síðustu helgi. Van der Poel brunaði tíu kílómetrana á 12 mínútum, 30,74 sekúndum og sló ársgamalt heimsmet sitt.

* Aron Elís Þrándarson , landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur verið kjörinn leikmaður ársins hjá danska úrvalsdeildarfélaginu OB fyrir árið 2021. Aron kom til OB frá Aalesund í Noregi í ársbyrjun 2020 og hefur verið í stóru hlutverki á miðjunni hjá liðinu síðan.

*Hin fimmtán ára gamla Kamila Valieva frá Rússlandi verður væntanlega send heim frá Vetrarólympíuleikunum í Peking þar sem staðfest hefur verið að hún hafi fallið á lyfjaprófi. Á mánudaginn vann hún til gullverðlauna með liði Rússlands í liðakeppninni í listhlaupi á skautum. ITA, sem sér um lyfjaprófin, staðfesti að Valieva hefði greinst með hjartalyfið trimetazidine í blóðinu á rússneska meistaramótinu í desember, en lyfið eykur blóðflæði til hjartans og er á bannlista WADA.

*Knattspyrnuráð Reykjavíkur hefur beðið kvennalið Þróttar í Reykjavík afsökunar á því að liðinu skyldu ekki hafa verið afhent verðlaun sín í Egilshöllinni í fyrrakvöld eftir að það varð Reykjavíkurmeistari í fyrsta skipti. Eftir sigur Þróttar á Fjölni, 6:1, mætti enginn til að afhenda bikarinn og verðlaunapeningana. KRR fékk á sig mikla gagnrýni í kjölfarið og sagði í yfirlýsingu í gær að ráðinu hefði yfirsést breytt tímasetning leiksins. Þróttarkonur fá verðlaunin afhent í hálfleik á leik þeirra við Fylki í Lengjubikar kvenna í Egilshöllinni í dag.

*Handknattleiksþjálfarinn Erlingur Birgir Richardsson hefur ekki rætt við hollenska handknattleikssambandið um nýjan samning. Þetta staðfesti hann í samtali við handbolta.is. Erlingur, sem er 49 ára gamall, verður samningslaus í júní en óvíst er hvað tekur við hjá þjálfaranum að samningnum loknum að því er fram kemur í frétt handbolta.is. Þjálfarinn hefur stýrt hollenska iðinu frá árinu 2017 en liðið fór alla leið í milliriðlakeppni Evrópumótsins í Ungverjalandi og Slóvakíu í janúar og var þetta í fyrsta sinn sem karlalið Hollands kemst í milliriðla á stórmóti. Holland mætir annaðhvort Sviss eða Portúgal í umspili í apríl um laust sæti á HM 2023 í Svíþjóð og Póllandi og mun Erlingur stýra liðinu í umspilsleikjunum tveimur.