Skot Blikinn Everage Richardson sækir að Grindvíkingum í Smáranum en Grindvíkingurinn Javier Valeiras reynir hvað hann getur að verjast honum.
Skot Blikinn Everage Richardson sækir að Grindvíkingum í Smáranum en Grindvíkingurinn Javier Valeiras reynir hvað hann getur að verjast honum. — Morgunblaðið/Unnur Karen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Körfuboltinn Bjarni Helgason bjarnih@mbl.is Íslandsmeistarar Þórs úr Þorlákshöfn völtuðu yfir Keflavík þegar liðin mættust í toppslag úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn í 16.

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar Þórs úr Þorlákshöfn völtuðu yfir Keflavík þegar liðin mættust í toppslag úrvalsdeildar karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Icelandic Glacial-höllinni í Þorlákshöfn í 16. umferð deildarinnar í gær.

Leiknum lauk með 114:89-sigri Þórsara en Luciano Massarelli átti stórleik fyrir Þórsara, skoraði 32 stig og gaf sex stoðsendingar.

Þetta var fjórði sigur Þórsara í röð en liðið endurheimti efsta sæti deildarinnar með stórsigrinum gegn deildarmeisturunum í Keflavík. Þór er með 24 stig eftir sextán leiki og í afar vænlegri stöðu þegar kemur að því að tryggja sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni.

Með sigri hefði Keflavík getað jafnað Þór og Njarðvík að stigum en liðið er áfram í þriðja sætinu með 18 stig. Valur og Stjarnan anda ofan í hálsmálið á Keflavík sem þarf að spýta í lófana eftir þrjá tapleiki í röð, ætli liðið sér að vera með heimavallarréttinn í úrslitakeppninni.

Þórsarar settu niður hvert þriggja stiga skotið á fætur öðru í fyrri hálfleik og leiddu 63:36 í hálfleik en Keflavík tókst aldrei að ógna forskoti Þórsara í leiknum.

Ronaldas Rutkauskas skoraði 19 stig fyrir Þórsara, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar en þeir Mustapha Heron og Darius Tarvydas voru stigahæstir Keflvíkinga með 20 stig hvor.

*Breiðablik vann sinn þriðja leik í röð þegar liðið tók á móti Grindavík í Smáranum en leiknum lauk með 104:92-sigri Breiðabliks. Everage Richardson var stigahæstur í liði Breiðabliks með 32 stig, sjö fráköst og sex stoðsendingar.

Breiðablik hefur verið á miklu skriði í undanförnum leikjum en liðið vann aðeins einn af fyrstu sjö leikjum tímabilsins. Liðið er nú allt í einu komið með 14 stig í sjöunda sæti deildarinnar en Blikar eru í harðri baráttu við Tindastól, ÍR og KR um sæti í úrslitakeppninni. Grindavík er hins vegar áfram í sjötta sætinu með 16 stig en liðið hefði með sigri getað jafnað bæði Val og Stjörnuna að stigum.

Hilmar Pétursson fór mikinn í liði Breiðabliks og skoraði 26 stig, ásamt því að taka þrjú fráköst og gefa fimm stoðsendingar. Ólafur Ólafsson var stigahæstur Grindvíkinga með 24 stig, ellefu fráköst og fimm stoðsendingar.