Flughræðsla Aðalleikarar Northern Comfort í tökum, Spall fyrir miðju.
Flughræðsla Aðalleikarar Northern Comfort í tökum, Spall fyrir miðju. — Ljósmynd/Brynjar Snær Þrastarson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Kvikmyndavefurinn Deadline greindi frá því í fyrradag að tökur væru hafnar við Mývatn á nýrri kvikmynd í leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar sem nefnist Northern Comfort og að enski stórleikarinn Timothy Spall væri í einu aðalhlutverkanna ásamt Sverri Guðnasyni, ensku leikkonunni Lydiu Leonard og hinni þýsku Ellu Rumpf en báðar leikkonurnar eru á mikilli uppleið í kvikmyndaheiminum. Þá fer Björn Hlynur Haraldsson einnig með hlutverk í myndinni og nokkrir Íslendingar til viðbótar. Handritið skrifaði Hafsteinn með þeim Dóra DNA, þ.e. Halldóri Laxness Halldórssyni og Tobias Munthe og er sögusvið myndarinnar bæði Ísland og London.

Spall ættu flestir ef ekki allir kvikmyndaunnendur að þekkja enda fer þar einn fremsti kvikmyndaleikari Breta. Hefur hann m.a. farið með hlutverk listmálarans JMW Turners í Mr. Turner , leikið í nokkrum kvikmynda hins virta Mikes Leigh og má af þeim nefna Secrets & Lies. Fyrir yngri kynslóðina má nefna Harry Potter-myndirnar þar sem Spall fór á kostum sem endranær.

Sverrir Guðnason er að sama skapi með glæsilegan feril og einn þekktasti leikari Svíþjóðar þar sem hann býr og starfar. Er skemmst að minnast góðrar frammistöðu hans í hlutverki Björns Borg í Borg McEnroe .

Kviknaði í námi

Hafsteinn er spurður að því hvenær hugmyndin að myndinni hafi kviknað. „Hún kviknaði þegar ég var í námi í kvikmyndaskóla í New York fyrir einum fimmtán árum. Maður mér nákominn er mjög flughræddur og fór á námskeið til að reyna að vinna bug á því og ég fór að hugsa um þetta fyrirbæri, fannst það skemmtilegt sögusvið fyrir kvikmynd um mannlegan breyskleika, viðkvæmni, ótta og kvíða,“ svarar Hafsteinn.

–Þetta er gamanmynd?

„Já og gerist á svona námskeiði. Hópur fólks í London er á flughræðslunámskeiði sem er hópþerapía undir handleiðslu sérfræðings sem endar með því að það er flogið eitthvert, á einhvern áfangastað og svo beðið í tvo tíma meðan verið er að umlesta vélina og síðan er flogið til baka. Þetta er lokapróf námskeiðsins og í þessu tilfelli er flogið til Íslands. Það fer ekki alveg eftir áætlun,“ svarar Hafsteinn. Hluti myndarinnar gerist því á Íslandi en hún hefst í London og segir Hafsteinn tökurnar enda þar. Stór hluti myndarinnar gerist líka um borð í flugvél.

–Spall er langfrægasti leikarinn í hópnum, var erfitt að landa honum?

„Ég veit ekki hvað skal segja. Ég sendi honum handrit og hef verið mikill aðdáandi hans í mörg ár, er mjög hrifinn af hans verkum og vinnu og hann var ofarlega á blaði fyrir þetta hlutverk. Hann fílaði handritið, skoðaði mínar myndir og var bara mjög til í þetta, satt að segja, og það er bara mikill unaður að vinna með honum,“ svarar Hafsteinn.

Hæfileikaríkir leikarar

Spall leikur flughræddan mann líkt og flestir aðalleikarar myndarinnar og segir Hafsteinn leikarahópinn stórkostlegan og að það hafi verið ótrúlega gaman að vinna með þessu fólki. Nokkrir leikaranna séu á hraðri uppleið í geiranum enda mjög hæfileikaríkir, eins og hann hafi fengið að kynnast núna í tvær vikur. „Þetta er frábær hópur,“ ítrekar Hafsteinn og ber lof á alla leikarana.

Hvað hlutverk Björns Hlyns varðar segir Hafsteinn að hann vilji sem minnst segja annað en að hann sé ákveðinn örlagavaldur í myndinni og þá í íslenska hlutanum. Fleiri íslenskir leikarar verða í minni hlutverkum.

Lengri útgáfu af viðtalinu má finna á mbl.is undir dálkinum Fólk.