[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Smásölufyrirtækið Skeljungur áætlar að afkoma móðurfélagsins verði jákvæð um 7,6-8,3 milljarða króna eftir skatta að teknu tilliti til vænts söluhagnaðar af fasteignum að fjárhæð 5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í kynningu vegna nýbirts ársuppgjörs fyrirtækisins.

Baksvið

Þóroddur Bjarnason

tobj@mbl.is

Smásölufyrirtækið Skeljungur áætlar að afkoma móðurfélagsins verði jákvæð um 7,6-8,3 milljarða króna eftir skatta að teknu tilliti til vænts söluhagnaðar af fasteignum að fjárhæð 5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í kynningu vegna nýbirts ársuppgjörs fyrirtækisins.

Eins og fram kom í tilkynningu til kauphallar í desember sl. og í minnisblaði borgarráðs um „áfangaskil samningaviðræðna við rekstraraðila og lóðarhafa eldsneytisstöðva í Reykjavík um uppbyggingu á ýmsum lóðum“, eru margvísleg fasteignaviðskipti í burðarliðnum hjá Skeljungi. Bæði er um að ræða sölu og endurleigu á eignum á höfuðborgarsvæðinu til fasteignafélagsins Kaldalóns og fleiri aðila en einnig uppbyggingu á lóðum í samstarfi við sveitarfélög og aðra samstarfsaðila.

Í takti við nýjan tíðaranda

Ólafur Þór Jóhannesson forstjóri Skeljungs segir í samtali við Morgunblaðið að breytt skipulag og þjónustuframboð á lóðum sé í samræmi við þá stefnumörkun sem unnið hefur verið að undanfarin misseri og í takt við nýjan tíðaranda.

„Við höfum verið í vinnu við að færa rekstur eininga í dótturfélög til að skerpa áherslur í rekstri. Við viljum fá skýrari sýn á hlutina og teljum að með uppskiptingunni náum við því fram,“ segir Ólafur en dótturfélögin verða Orkan IS, Skeljungur IS og Gallon. Þá eru og verða einnig í eignasafninu Spf/Orkufélagið (48% hlutur), Kaldalón (20% hlutur) og fasteignaverkefni með Reir (50% hlutur).

Spurður hvort þessi breyting félagsins og eignasala sé til þess gerð að færa fé til hluthafa í ríkari mæli segir hann að þó svo að fjármunir fáist fyrir söluna þá sé verið að takast á hendur talsverðar skuldbindingar til framtíðar en eignasalan færi móðurfélaginu talsverða fjárfestingagetu til að geta haldið áfram þróun á nýjum tækifærum með félögum í eignasafninu og byggt upp fjárfestingar í öðrum eignum.

Góðar horfur

Ólafur segir að sér lítist vel á árið fram undan og horfur séu góðar. Ferðamönnum taki vonandi að fjölga og atvinnuleysi sé á niðurleið.

Ólafur ítrekar að félagið hafi það að markmiði að vera skýrt í upplýsingagjöf til markaðarins. „Sumir halda því fram að við segjum of mikið, en ég held að við séum að gera þetta vel.“

Hann segir að ljúka eigi eignasölunni á fyrsta fjórðungi þessa árs, en óvíst sé hvenær framkvæmdir hefjist á lóðunum, enda sé mikil skipulagsvinna fram undan.

Kaldalón kaupir eignir

Samkvæmt skilmálaskjali við Kaldalón er stefnt að því að Kaldalón kaupi fasteignir í eigu Skeljungs. Um er að ræða rekstrarlegar eignir sem endurleigðar eru til langs tíma. Eignirnar sem um ræðir, og sjá má á meðfylgjandi korti, eru að Bústaðavegi 20, Fiskislóð 29, Grjóthálsi 8, Gylfaflöt 1, Miklubraut 100, Miklubraut 101 og Suðurfelli 4 í Reykjavík, ásamt Brúartorgi 6 í Borgarnesi, Dalvegi 20 og Hagasmára 9 í Kópavogi, Fitjum í Reykjanesbæ, Óseyrarbraut 2 í Hafnarfirði og Skagabraut 43 á Akranesi.

Áætlað söluverð fasteignanna miðað við óbreyttar forsendur eru tæpir sex milljarðar króna samkvæmt skilmálaskjalinu.

Enn fremur, eins og fram kemur einnig í skjalinu, hefur Skeljungur undirritað viljayfirlýsingu við F33 ehf., félag í eigu hjónanna Hilmars Þórs Kristinssonar og Rannveigar Eir Einarsdóttur um þróun fasteignanna að Birkimel 1 og Kleppsvegi í Reykjavík og Reykjavíkurvegi 58 í Hafnarfirði.

Viljayfirlýsingin felur í sér að Skeljungur og F33 ehf. stofni sérstakt félag í jafnri eigu sem kaupir framangreindar fasteignir og vinni að þróun þeirra í samstarfi við viðkomandi bæjarfélög.

Reginn kaupi í Litlatúni

Þá er í skilmálaskjalinu greint frá viljayfirlýsingu við Ötul ehf. um kaup og endurleigu á fasteigninni að Austurströnd 7 á Seltjarnarnesi. Þá á Skeljungur í viðræðum við Regin hf. um kaup og endurleigu á fasteigninni að Litlatúni í Garðabæ.

Áætlað söluvirði tilgreindra fasteigna er 8.788 m.kr. Bókfært verð er 2.573 m.kr. og er mismunurinn fyrrnefndir 5 ma. króna þegar 20% tekjuskattur hefur verið greiddur. Gangi öll viðskiptin eftir mun Skeljungur eiga eftir tæplega 20 fasteignir.

Samkomulag við borgina

Eins og fram kemur í minnisblaði borgarráðs frá síðasta sumri hafa samninganefnd borgarinnar og Skeljungur nú þegar gengið frá drögum að samkomulagi um uppbyggingu á Birkimel 1, Skógarhlíð 16 og Suðurfelli 4 auk breytinga á skilmálum nokkurra annarra lóða.

Í minnisblaðinu segir að Skeljungur muni hætta rekstri eldsneytisstöðvar á Birkimel eigi síðar en 1. janúar 2026. Á Bústaðavegi, Gylfaflöt, Spönginni, Klettagörðum og Grjóthálsi verður eldsneytisstöð óbreytt en eldsneytisdælum verður ekki fjölgað. Lóðinni Hraunbær 102 verður skilað til Reykjavíkurborgar án endurgjalds. Að Kleppsvegi mun Skeljungur hætta rekstri eldsneytisstöðvar og fjarlægja dælur af lóðinni eigi síðar en 1. janúar 2024.

Miklabraut í stokk

Á Laugavegi 180 mun lóðarhafi hætta rekstri eldsneytisstöðvar ekki síðar en 1. janúar 2024. Heimilt verður að byggja íbúðarhúsnæði með verslun og þjónustu á 1. hæð.

Framtíð Miklubrautarstöðvanna tveggja er tengd verkefninu „Miklabraut í stokk“.

Að Skógarhlíð 16 verður rekstri eldsneytisstöðvar hætt ekki síðar en 1. janúar 2026. Heimilt verður að byggja íbúðar og/eða atvinnuhúsnæði með verslun- og þjónustu á 1. hæð. Að Suðurfelli mun lóðarhafi breyta nýtingu lóðar og skipta henni upp í tvær lóðir. Á annarri lóðinni verði byggðar íbúðir auk atvinnu- og þjónustuhúsnæðis. Á hinni lóðinni verði heimilt að hafa tvær sjálfsafgreiðsludælur fyrir 4 bifreiðar.

Skeljungur
» Viðskiptalíkan Skeljungs snýst um að þjóna orkuþörf einstaklinga og fyrirtækja á hagkvæman og öruggan máta í sátt við samfélagið og umhverfi sitt.
» 297 starfsmenn og 28 starfssstöðvar.