Fjáraustur meirihluta borgarstjórnar vegna Borgarlínu er byrjaður þó að enn liggi ekkert fyrir um rekstrarkostnað eða útfærslu. Á fundi borgarráðs í fyrradag var samþykkt að kaupa fasteign í Knarrarvogi 2 fyrir 460 milljónir króna til að „Borgarlína komist leiðar sinnar óháð annarri umferð“, eins og segir í rökstuðningi.

Fjáraustur meirihluta borgarstjórnar vegna Borgarlínu er byrjaður þó að enn liggi ekkert fyrir um rekstrarkostnað eða útfærslu. Á fundi borgarráðs í fyrradag var samþykkt að kaupa fasteign í Knarrarvogi 2 fyrir 460 milljónir króna til að „Borgarlína komist leiðar sinnar óháð annarri umferð“, eins og segir í rökstuðningi.

Þetta fór í gegnum borgarráð með atkvæðum Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og VG gegn atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks. Sjálfstæðismennirnir bókuðu að málefni Borgarlínu væru í sérstöku félagi, Betri samgöngum, og því skyti skökku við að „Reykjavíkurborg sé að verja hálfum milljarði af skattfé borgarbúa í að kaupa húsnæði til niðurrifs“ fyrir Borgarlínu, enda liggi fyrir „verðmat tveggja aðila sem er langt fyrir neðan það kaupverð sem liggur fyrir fundinum“. Þá sé þessi „fjárfesting“ ekki á fjárhagsáætlun.

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins segir í bókun sinni að þetta mál sé hneyksli, sem lætur bersýnilega nærri, og er í anda annarra lóða- og fasteignamála sem borgin fæst við um þessar mundir.

Reykjavíkurborg er fjárhagslega á heljarþröm. Skuldir vaxa hratt og borgin er við það að lenda í algeru öngstræti í fjármálum sínum og verða að segja sig til ríkis – því ekki getur hún sagt sig til sveitar.

Hvernig má það vera að á sama tíma ausi borgarfulltrúar meirihlutans hálfum milljarði króna úr borgarsjóði til að geta rifið hús?