„Bæ, bæ, kæra þjóð!“ Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverkum Jóns og Hörpu í Verbúðinni.
„Bæ, bæ, kæra þjóð!“ Gísli Örn Garðarsson og Nína Dögg Filippusdóttir í hlutverkum Jóns og Hörpu í Verbúðinni.
Áttundi og síðasti þáttur Verbúðarinnar er á dagskrá Ríkissjónvarpsins í kvöld, sunnudagskvöld. Þjóðin bíður að vonum með öndina í hálsinum.

Vesturporti hefur heldur betur tekist að donkanóa og sódastríma þessa þjóð upp á sunnudagskvöldum seinustu vikurnar en í kvöld er veislan á enda þegar áttundi og seinasti þáttur Verðbúðarinnar verður sýndur. Harmur var að okkur öllum kveðinn um liðna helgi, þegar sá vaski kappi Grímur skipstjóri féll milli skips og bryggju og týndi lífi. Ekki vænlegt til langlífis að vera skipstjóri í þessum þáttum; eins og þið munið töpuðum við Torfa strax í byrjun. Í dagskrárkynningu RÚV fyrir lokaþáttinn segir orðrétt: „Bærinn er í uppnámi eftir nýjustu atburði og allra augu beinast að Hörpu. Á sama tíma mætir Smári á svæðið.“ Þá er bara að spenna beltin.

Ástæðulaust er þó að henda sér strax grátandi á koddann í kvöld því hugga má sig við það að um næstu helgi er á dagskrá RÚV þátturinn Verbúðin – á bak við tjöldin. Dagskrárgerð var í höndum Braga Þórðarsonar.

Eftir tvær vikur dugar svo ekkert minna en að fá fjórar af ástsælustu leikkonum þjóðarinnar, Eddu Björgvinsdóttur, Kristbjörgu Kjeld, Margréti Ákadóttur og Margréti Guðmundsdóttur, til að hlaupa í skarðið fyrir Verbúðina. Þær ræða lífið í samhengi við leikverkið Ein komst undan eftir Caryl Churchill sem þær setja upp í Borgarleikhúsinu undir leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur. Þátturinn kallast 5 konur – 400 ár.