Ástríður Gréta Pálsdóttir, oftast kölluð Ásta, fæddist 27. nóvember 1931 í Laugarási í Biskupstungum. Hún lést á Hjúkrunarheimilinu Seltjörn 27. janúar 2022.

Foreldrar hennar voru Sigfríður Jónsdóttir húsmóðir, frá Glaumbæjarseli í Köldukinn í Suður-Þingeyjarsýslu, og Páll Benediktsson, bryti og síðar verkstæðisformaður hjá Ræsi, frá Hlíð í Lóni í Austur-Skaftafellssýslu. Ásta átti tvo bræður samfeðra sem létust á barnsaldri. Hjónin Guðlaug Erlendsdóttir og Þórður Þórðarson á Brekku í Biskupstungum tóku Ástu í fóstur er hún var átta mánaða gömul og átti hún heimili hjá þeim uns hún var ellefu ára, en þá flutti hún til móður sinnar í Reykjavík.

Ástríður giftist eftirlifandi eiginmanni sínum, Jóni Jónssyni heildsala, hinn 4. ágúst árið 1956. Hann er Reykvíkingur, fæddur í Hafnarstræti 4 hinn 30. júní árið 1930, sonur hjónanna Jóns Hjartarsonar kaupmanns, frá Reynimel við Bræðraborgarstíg, og Gróu Sigrúnar Jónsdóttur, húsmóður og kaupmanns, frá Tröð í Súðavíkurhreppi. Þau Ásta og Jón höfðu átt samleið í tæp sjötíu ár er hún lést. Þau hófu búskap í Sörlaskjóli en bjuggu lengst af á Seltjarnarnesi eða í 57 ár.

Þau eignuðust þrjú börn: 1) Benedikt, sendiherra, kvæntur Aðalheiði Ósk Óskarsdóttur. Börn þeirra: Páll, Stefanía, Gréta og Bjarki. Þau eiga tvö barnabörn, Fróða, son Bjarka og Kristínar Dóru Ólafsdóttur, og Óskar, son Stefaníu og Martins Hurrells. 2) Margrét, hárgreiðslumeistari. Hún er gift Björgvini Skafta Vilhjálmssyni. Synir þeirra: Gunnar Baldvin og Björgvin Birkir. Barnabörn þeirra: Freyja Elísabet og Sarah Margrét, dætur Gunnars Baldvins og Elizabeth Walgenbach. 3) Yngst er Sigrún, söngkona. Hún var gift Gústaf Franssyni. Börn þeirra: Jón Reynir og Dana Margrét. Barnabörn: Rúnar Frans, sonur Jóns Reynis og Unnar H. Jónsdóttur, og Fanney Ída, dóttir Dönu Margrétar og Ólafs Sigurðssonar.

Ásta var í barnaskóla í Reykholti í Biskupstungum en eftir að hún flutti til Reykjavíkur lauk hún námi við Æfingadeild Kennaraskólans. Hún fór ung út á vinnumarkaðinn, sinnti verslunarstörfum, vann við litun mynda hjá atvinnuljósmyndurum og var um skeið aðstoðarkona hjá Jóni Sigtryggssyni tannlækni. Eftir að börn hennar stálpuðust fór Ásta að starfa utan heimilis og sá um veitingarekstur í Félagsheimili Seltjarnarness og seinna starfaði hún í íþróttahúsinu á Nesinu. Að auki starfaði hún hjá fyrirtæki þeirra hjóna, Jóni Hjartarsyni & co. Ásta dvaldi á sjúkrastofnunum allt síðastliðið ár vegna versnandi heilsu. Hún flutti inn á Hjúkrunarheimilið Seltjörn 10. júní síðastliðinn.

Útför hennar hefur farið fram í kyrrþey að eigin ósk.

Það var sárt að skilja ekki spurninguna þína elsku mamma því í svipbrigðum þínum þráðir þú svar. Eins var mér orðavant þegar ég kvaddi þig þá, en tárvott blik augna þinna sagði þó svo ótalmargt fallegt.

Orðin eru jafnfá nú þegar þú kveður hinsta sinni og blik augnanna fjarað út. Þau orð mega sín vonandi einhvers að ég hafði alltaf þitt hlýja skjól, ekki bara í andstreymi, sem þú gafst mér allt frá blautu barnsbeini til fullorðinsáranna. Þú lifðir fyrir mig, gagnvart bráðlæti mínu og ofvæni varst þú mér óendanlega þolinmóð, þótt ég væri tillitslaus varst þú svo nærgætin, skilningsrík, umhyggjusöm og hjartahlý. Þú varst full fyrirgefningar fyrir misgjörðir mínar og það hugarangur sem ég olli þér. Allt var þetta svo gegnumheilt og án skilyrða.

Þú lagðir ríflega af mörkum en gerðir ekki kröfur um hluti sem oft eru taldir sjálfsagðir, og þú kvartaðir ekki. Þú gerðir frekar kröfur til sjálfrar þín. Þannig var varnarleysi þitt ef til vill meira en ella þegar þú þjáðist og varst lítilsvirt vegna brotalama í íslensku heilbrigðiskerfi.

Nógsamlegt þakklæti fyrir allt sem þú varst mér, fyrir allt sem þú gafst mér, á ég vart til. Söknuðurinn grætir huga minn en margir undurfagrir ljósgeislar lýsa minningar hlýjar og þær eru nú það eina sem ég hef af óþrjótandi gjafmildi þínu og ást. Þótt ég skildi ekki spurninguna elsku mamma á ég bara eitt svar, ég elska þig.

Hversu þreytt sem þú varst,

hvað sem þrautin var sár.

þá var hugur þinn samt

eins og himinninn blár:

eins og birta og dögg

vour bros þín og tár.

Og nú ljómar þín sól

bak við lokaðar brár.

(Jóhannes úr Kötlum)

Benedikt.

Mamma hefur kvatt lífið eftir 90 ára lífsgöngu, fengið lausn frá líkamlegum kvölum og þeim sjúkdómi sem hrjáði hana síðastliðin ár. Sjúkdómi sem læddist að henni, svipti hana minninu, getunni til skýrra samskipta og sjálfshjálpar. Það er þyngra en tárum taki að horfa upp á foreldri sitt hverfa manni smátt og smátt þar til það þekkir mann ekki lengur.

Hún ólst upp í sveit, á bænum Brekku í Biskupstungum, hjá fósturforeldrum sínum þeim Þórði og Guðlaugu. Þau voru henni afar góð og bjuggu henni traust og gott heimili. Mamma elskaði dýrin á bænum og sagði mér margar sögur af þeim. Hún gaf hröfnunum matarafganga en þeir launuðu góðvildina með því að hrekkja köttinn á bænum svo hann drapst nærri úr hræðslu. Sérstakrar hlýju gætti í rödd hennar er hún sagði mér frá þegar hundurinn Kátur dró hana upp úr bæjarlæknum, rennblauta. Þangað hafði hún ráfað, lítil ljóshærð skottan, og dottið í lækinn, en hundurinn vökuli brást við og bjargaði henni.

Ég var mikið mömmubarn, yngst okkar systkina og hékk í pilsfaldi mömmu nánast fram að fermingu svo hún gat ekki hreyft sig nema hafa mig á hælunum. Hún lét það ekki á sig fá, þótt það hljóti að hafa verið þreytandi, heldur umvafði mig móðurkærleika sínum.

Flest af því sem ég kann til heimilis og handa lærði ég af mömmu. Hún var myndarleg húsmóðir, snyrtileg, vandvirk með eindæmum, afbragðskennari og þolinmóð. Ég held að enginn að öðrum ólöstuðum hafi straujað eins vel og mamma, gengið jafn vel frá þvotti og saumaskap. Mamma var listræn þótt hún flíkaði því ekki. Greip í gítar, spilaði og í leiðinni kenndi hún mér vinnukonugripin, sem voru mín fyrstu skref til tónlistar. Hún var flink að teikna og sem ung kona tók hún að sér að lita svarthvítar ljósmyndir fyrir atvinnuljósmyndara.

Mamma var umhyggjusöm og góð manneskja. Hún var einstaklega sterk, traust og ósérhlífin. Kvartaði aldrei en sýndi samhug öðrum þeim sem áttu erfitt. Ég á mömmu mikið að þakka. Hún stóð með mér þegar á móti blés. Sat yfir mér fárveikri og sýndi mér umhyggju sem henni var svo eðlislæg. Góður hlustandi og henni gat ég trúað fyrir öllu sem ég vildi, því hún geymdi það með sér og þaðan fór það ekki. Hún var yndisleg amma og nutu börnin mín návistar við hana og afa sinn. Þau pabbi hjálpuðu mér mikið með krakkana þegar ég var í námi, við vinnu eða ferðaðist til útlanda, sem leiddi af sér sterk tengsl sem hafa aldrei rofnað.

Síðastliðið ár dvaldi mamma á heilbrigðisstofnunum og hafði loksins komist á hjúkrunarheimili þar sem hún hafði dvalið í rúma sjö mánuði er hún lést. Það var ekki vökull hundur eins og Kátur á Brekku forðum daga sem kom henni til bjargar, er hún veiktist snögglega að kvöldi 25. desember, jóladags 2021. Hún átti ekki afturkvæmt úr bólinu sínu og kvaddi aðfaranótt 27. janúar sl. eftir rúmar fjórar erfiðar vikur. Megi góður Guð geyma elsku mömmu. Ég kveð hana með versinu sem hún kenndi mér þegar ég var barn:

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesús mæti.

(Höf. ók.)

Sigrún.

Elsku besta fallega amma mín. Það er svo sárt að þurfa að kveðja þig. Þú sem kenndir mér svo ótrúlega margt. Allt spjallið okkar um allt og ekkert, tedrykkjan og spilastundirnar eru eitthvað sem ég mun sakna svo ógurlega mikið.

Mér er svo minnisstætt þegar ég var krakki og hápunktur vikunnar var að hlaupa heim til þín og afa, eftir ballettæfingu, til þess að horfa á Leiðarljós með þér. Svo var gott að fá sér eins og eina brauðsneið með rabarbarasultu og te að drekka.

Ég er svo þakklát fyrir allan tímann okkar saman. Þið afi voruð mitt annað heimili og ekkert var notalegra en að gista hjá ykkur. Ég er einnig þakklát fyrir tímann sem þið Fanney Ída, kornið þitt, fenguð saman en syrgi það þó að hann hafi ekki verið lengri.

Takk fyrir allar minningarnar sem munu fylgja mér alla ævi. Takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér. Takk fyrir að vera alltaf til staðar og takk fyrir að vera besta amma mín.

Þú varst ein mikilvægasta manneskjan í lífi mínu, allt mitt líf, og ég mun sakna þín svo mikið.

Hvíldu í friði elsku besta fallega amma mín.

Þín

Dana Margrét.

Elsku amma. Áður en við komum inn til ykkar afa þá sá ég höndina þína draga frá gardínurnar í eldhúsinu til að kíkja á okkur.

Sömu höndum fylgdist ég með að fullkomna kremið á brúntertunni þinni, sem ég var svo spennt fyrir. Þegar við systkinin og frændsystkinin vorum búin að háma í okkur allt góðgætið byrjaðir þú að bursta mylsnuna af borðinu með höndunum þínum. Sömu hendur og settu veisluna á borðið. Eftir kaffitímann tókstu pönnukökupönnuna út til að láta hana kólna, því pannan þín var úr gömlu pottjárni. Ég hugsaði alltaf hvað mér fannst þú sterk að geta haldið á henni.

Handbrögðin þín voru alltaf svo vönduð, mjúk og sterk á sama tíma, alveg eins og þú sjálf. Hvort sem þú varst að strjúka á mér kinnina þegar ég lagði mig í sófanum hjá þér, eða þegar við tókumst í hendur við matarborðið til að eiga smá nánd, bara við tvær.

Það varð erfiðara með tímanum að sleppa hendinni þinni, því ég var ekki viss hvenær síðasta skiptið yrði.

Þótt ég sleppti hendinni þinni í síðasta skiptið í kringum jólin, þá held ég ennþá fast í allar minningarnar okkar og ástina sem þú gafst mér, elsku Ásta amma, ekki síst nafnið þitt sem mér þykir svo vænt um.

Þín

Gréta.

Í dag kveð ég hana Ástu mína. Ég hitti hana fyrst árið 1970, þegar Margrét dóttir hennar bauð mér heim, en við Margrét höfðum kynnst á Akureyri þar sem ég bjó, en hún var gestkomandi. Við urðum pennavinkonur eins og algengt var á þeim tíma.

Ásta tók vel á móti mér, brosið var fallegt og blik í auga. Boðið var upp á kaffi og pönnukökur. Þarna hitti ég fjölskylduna fyrsta sinni og grunnur var lagður að vináttu sem lifir enn og hefur ávallt verið mér svo kær.

Þegar ég, sem ung kona, átti erindi í borgina fékk ég gjarnan gistingu hjá Ástu og Jóni. Kærleikur, hlýja og örlæti var ómælt hjá þeim heiðurshjónum.

Þegar ég eignaðist börn kynntust þau Ástu, sem sýndi þeim sama kærleik og ég fékk notið, enda með eindæmum kærleiksrík, hlý og yndisleg kona.

Í hjarta mínu ylja ég mér við minningar um samverustundir, þar sem við drukkum saman kaffi og spjölluðum saman. Ásta var góður hlustandi og átti gjarnan góð ráð, sér í lagi þegar ég var ung að fóta mig í lífinu.

Fjölskyldan var Ástu mikilvæg og samgangur og samheldni hefur alltaf verið mikill. Það birtist svo skýrt þegar Ásta var komin á dvalarheimili því þar fékk hún heimsóknir frá sínum nánustu alla daga.

Síðasta árið var Ásta veik og dró af henni nokkuð hratt, en hvíldin er komin og hún er farin yfir móðuna miklu.

Hvíl í friði elsku Ásta.

Innilegar samúðarkveðjur til eiginmanns, barna, tengdabarna, barnabarna og langömmubarna.

Hver minning er dýrmæt perla.

Sigurbjörg Karlsdóttir (Sibba) og fjölskylda.