Höfðatorg Turninn í Bríetartúni 9 er á bak við framhúsið á myndinni.
Höfðatorg Turninn í Bríetartúni 9 er á bak við framhúsið á myndinni. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Skömmu fyrir síðustu jól var þinglýst kaupsamningi einnar stærstu þakíbúðar sem komið hefur í sölu í miðborg Reykjavíkur. Um var að ræða 482 fermetra íbúð á 12. hæð í Bríetartúni 9 en hún er öll hæðin.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Skömmu fyrir síðustu jól var þinglýst kaupsamningi einnar stærstu þakíbúðar sem komið hefur í sölu í miðborg Reykjavíkur.

Um var að ræða 482 fermetra íbúð á 12. hæð í Bríetartúni 9 en hún er öll hæðin. Með fylgir 102 fermetra bílskúr í bílakjallara.

Kaupverð var 247 milljónir, eða um 423 þúsund á fermetra, og afhentist íbúðin fokheld.

Kaupandi var Pétur Guðmundsson, stjórnarformaður Eyktar, en hann er eigandi félagsins Höfðaíbúða sem seldi íbúðina.

Hundahald er heimilt í íbúðinni en þegar lyftan er kölluð í íbúðina skilar hún af sér fólki og fer svo niður í kjallara án þess að stoppa.

Nánast allar seldar

Það gæti haft áhrif á verðþróunina að dregið hefur úr framboði nýrra íbúða í miðborginni.

Samkvæmt talningu blaðsins sem birtist 24. mars í fyrra voru þá 52 íbúðir óseldar af 621 í fjórtán fjölbýlishúsum/reitum. Þar af voru 12 óseldar í Stuðlaborg og Sólborg á Kirkjusandi en þær eru nú seldar sem og tvær íbúðir á Höfðatorgi.

Þá voru 28 íbúðir óseldar á Hafnartorgi en samkvæmt söluvef eru nú þrjár óseldar. Þá voru fimm íbúðir óseldar á Brynjureit, ein á Klapparstíg 28, tvær á Tryggvagötu 13 og ein á Hverfisgötu 85-93 en þær eru nú allar seldar.

Loks var óseld 201m 2 þakíbúð í Borgartúni 28a, en ásett verð var 155 milljónir þegar Morgunblaðið fjallaði um fasteignamarkaðinn í mars í fyrra. Samkvæmt kaupsamningi sem undirritaður var 29. desember síðastliðinn seldist íbúðin á 135 milljónir tilbúin til innréttingar.

Feðgin keyptu íbúðina en fasteignamat var 99,1 milljón króna.

Á þessum fjórtán reitum eru því óseldar þrjár íbúðir af 621.