Bragi Guðmundsson
Bragi Guðmundsson
Eftir Braga Guðmundsson: "Hættum að tala um ellilífeyri, ellilífeyrisþega, bótaþega, vistmenn, fráflæðisvanda."

„Hvernig viltu fá „ellibæturnar“ borgaðar?“ spurði bankastarfsmaðurinn þegar ég vildi byrja að taka út af séreignarlífeyrissparnaðinum mínum.

Vafðist aðeins tunga um tönn. Fór svo í framhaldinu að velta þessu aðeins fyrir mér.

Við erum öll alls konar, höfum á starfsævinni haft margvísleg starfsheiti, hvort sem það var kúasmali, kokkur, kennari, kaupmaður, kolamokari eða eitthvað annað. Allt góð og gild starfsheiti, hluti af sjálfsmyndinni á einhverjum tíma æviskeiðsins.

Svo líða árin og allt í einu ertu fyrrverandi þetta eða hitt og í framhaldinu „eftirlaunamaður“, eða hvað? Kennitalan rekur flesta úr vinnunni. Takk fyrir, búið, bless. En það er frítt í sund og kaffi á eftir.

Fólk heldur nú sem betur fer áfram að fá útborgað. En nú standa á launaseðlinum alls konar skrítin heiti. Séreignarsparnaðinn kallaði bankastarfsmaðurinn „ellibætur“. Lífeyrissjóðurinn sem flestir hafa samviskusamlega greitt í áratugum saman fer að borga „ellilífeyri“ og í desember bætti hann um betur og greiddi út sérstaka „ellilífeyrisuppbót“. Er þá eftirlaunamaðurinn orðinn ellilífeyrisbótaþegi? Sama tungutakið er hjá Tryggingastofnun ríkisins. Hvað varð um allt eftirlaunafólkið? Það er samt hreint ekki að þiggja neitt fríkeypis, heldur eingöngu að fá greidd þau áunnu og samningsbundnu lífeyrisréttindi sem lögð voru til hliðar af launum og söfnuðust upp á langri starfsævi. Þetta á að kalla sínu rétta nafni: eftirlaun.

Þeim sem eru svo lánsamir að komast á eftirlaunaaldur er að auki lýst sem ýmist minnkandi eða vaxandi „kerfisvanda“. Þar er væntanlega átt við skattkerfið. En eftirlaunamenn leggja margfalt meira til samfélagsins í formi skatta og vinnuframlags en þeir taka út. Eru að auki að borga áfram í ríkiskassann eftir að þeir eru dauðir. Erfðafjárskatturinn, útvarpsgjaldið og Tryggingastofnun sjá m.a um að passa upp á það. Svo kostar dálítið að hola fólki í gröfina, af þeim peningum eru greiddir skattar svo um munar. Guð hjálpi svo þeim alveg sérstaklega sem fengu eitthvað einhvers staðar fyrirframgreitt eða deyja fyrir miðjan mánuð á elliheimilinu.

Aldraðir og sjúkir, fastir inni á spítölum, bera stofnanaheitið „fráflæðisvandi“. Íbúar á dvalar- og hjúkrunarheimilum eru þar „vistmenn“ en ekki íbúar þótt þeir eigi þar lögheimili, greiði fyrir búsetu sína með eigum sínum og fái síðan skammtaða vasapeninga. Þeir sem fá einhverja þjónustu hjá hinu opinbera eru kallaðir „þjónustuþegar“! já og ekki má gleyma öllum „skjólstæðingunum“, þeir virðast vera úti um allt. Hvert fóru viðskiptavinirnir? Eftirlaunafólkinu, sem eitt sinn kannski tilheyrði '68-kynslóðinni, þykir orðræðan um eftirlaunafólk oftar en ekki dálítið einhæf og niðurlægjandi: biðlistar, harmónikumúsík, hægðatregða, göngugrindur, hjólastólar, hjúkrunarheimili, maukfæði og harðlífi, o.s.frv. Eftirlaunafólk greiðir nefnilega fulla skatta og gott betur af öllum sínum tekjum. Lifir lífinu í frelsi eftir starfslokin og nýtur þess besta sem það hefur að gefa. Ríkiskassinn telur sig samt sem áður vera í fullum rétti til að taka endalausa snúninga á þeim sem hafa verið svo forsjálir að hafa sýnt ráðdeild og eru á eftirlaunaaldri. Þá eru þeir orðnir „gjaldstofn“, en það er önnur saga.

Okkur tókst að laga orðræðuna um fatlaða. Skólar er nú án aðgreiningar, vonandi er þá ekkert barn lengur í tossabekk. Það er því kominn tími til að breyta þessari orðræðu um eftirlaunafólk! Hætta að nota orð sem eru gildishlaðin neikvæðum viðhorfum. Hætta tala um ellilífeyri, ellilífeyrisþega, bótaþega, vistmenn, fráflæðisvanda o.s.frv. Sýnum virðingu.

Höfundur er eftirlaunamaður. gr8@simnet.is