Ólafur Grétar Egilsson fæddist í Reykjavík 11. október 1950. Hann lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 6. janúar 2022.

Foreldrar hans voru Steinunn Hilma Ólafsdóttir, f. 1923, d. 2019, og Egill Jónsson, f. 1922, d. 1975. Stjúpfaðir Þorvaldur Kristinn Þorvaldsson, f. 1916, d. 1993. Systkini Ólafs eru Erna Sigrún, f. 1945, Svanhvít Eydís, f. 1948, Sigríður Rósa, f. 1953, d. 2000, og sammæðra Margrét Ragnheiður, f. 1960.

Hinn 17. nóvember 1973 kvæntist Ólafur Sigrúnu Hannibalsdóttur, f. 21.4. 1950. Foreldrar hennar voru Hannibal Jóhannes Guðmundsson, f. 1907, d. 1984, og Þorsteina Kristjana Jónsdóttir, f. 1914, d. 2004.

Börn Ólafs og Sigrúnar eru: 1) Hannibal Þorsteinn, f. 1.9. 1971, kvæntur Susanne Freuler. Barn þeirra er Símon Breki, f. 23.6. 2009. Barn af fyrra sambandi er Sigrún, f. 16.7. 1995, barn hennar er Emilía Ósk, f. 23.1. 2015. 2) Steinunn Hilma, f. 28.9. 1974, gift Stefáni Sigurðssyni. Börn þeirra eru Marta Kristjana, f. 8.10. 1996, Sindri, f. 19.11. 2002, og Ólöf Gréta, f. 21.2. 2008. 3) Ólafur Egill, f. 8.2. 1985.

Ólafur gekk í Miðbæjarskólann og síðar í Austurbæjarskólann. Hann útskrifaðist úr bændaskólanum á Hólum árið 1968. Eftir það vann hann ýmis störf, meðal annars á Álafossi, þar sem hann kynntist verðandi eiginkonu sinni. Þau fluttu til Bolungarvíkur 1973 og þar gegndi Ólafur sjómennsku, húsasmíðum og vélavinnu. Þau fluttu til Reykjavíkur 1986 og bjuggu síðast á Kópavogsbraut 45. Árið 1989 tók Ólafur við Skiltagerðinni Ás af foreldrum sínum og starfaði við skiltagerð út starfsævina.

Útför hans hefur farið fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Það kom ekki alveg á óvart þegar ég heyrði að Ólafur væri látinn, samt stakk það mig í hjartastað. Hann er ekki hér lengur, hugsaði ég, ekki lengur þessi rólega og afslappaða nærvera hans til að njóta!

Við höfum deilt honum með nánustu fjölskyldu hans, börnum og barnabörnum, ég í nánast 40 ár og systir hans eldri, sambýliskona mín, auðvitað frá hans fyrstu skrefum.

Ég kynntist honum fyrst stuttlega fyrir vestan í upphafi níunda áratugarins, svo enduðum við öll í Reykjavík nokkrum árum seinna.

Hér voru samskiptin nánari og ég leitaði oft hjálpar í bílaviðgerðum og öðrum tæknilegum málum hjá Óla, sem tók mér alltaf opnum örmum og aðstoðaði og útskýrði vandamálin svo ég gæti lært alltaf eitthvað af honum. Mér þótti vænt um þessi örnámskeið hjá sérfræðingi.

Lítið gat ég boðið á móti en samskiptin gengu vel og ég skynjaði mig aldrei komna í skuld.

Þannig gekk lífið sinn vanagang hjá öllum þangað til fyrir u.þ.b. 20 árum þegar VSF eða vöðvaslensfár gerði vart við sig. Veikindin höfðu mikil áhrif á lífsgæðin hjá Óla og þar sem engin lækning var við því ástandi hans versnaði það smám saman, mismikið þó. Slenið fór sérstaklega í augun hjá honum sem hafði áhrif á ánægju af bíltúrum sem Óli naut að öllu jöfnu.

Við svona ástand neyddist hann til að búa árum saman ásamt ýmsum heilsukvillum öðrum.

Ekki er það uppbyggilegt ástand að vakna ekki hress á morgnana og geta ekki gripið í ýmis verkfæri og leyst af hendi verkefnin sem maður naut þess að vinna áður en þessi glíma varð Óla daglegt brauð. Hann þoldi bölið með mismikilli þolinmæði sem skiljanlegt var. En heilsan versnaði enn og kraftana þraut uns við heyrðum að það var krabbameinið sem greindist hjá honum.

Þetta tók á okkur en maður hélt í vonina þangað til ljóst var orðið að ekki var hægt að hjálpa Ólafi lengur. Síðustu dagarnir voru erfiðastir þótt okkur auðnaðist að sjá hann á fótum undir það síðasta, þ.e. viku fyrir andlát. Þessa mynd af honum og margar aðrar miklu léttari og glaðlegri frá árum áður mun ég geyma í hugarfylgsnum mínum að eilífu.

Þótt við séum ekki blóðskyld kveð ég hér með söknuði minn ljúfa bróður.

Katrín Kinga „systir“.

„Litli bróðir minn“ er farinn í óvissuferðina sem við eigum öll eftir að fara í, eins og Steinar sonur minn benti mér á þegar hann var að reyna að hugga mig. Ég var ekki nema tveggja ára þegar mamma vaknaði við að ég var komin upp í rúmið til Óla bróður. Henni varð hverft við og spurði mig hvað ég væri að gera og svarið var „ég er að skipta á litla bróður“. Frá þeim tíma fannst mér ég bera ábyrgð á litla bróður mínum og fylgdi honum eins og skugginn í mörg ár til að passa að ekkert kæmi fyrir hann. Við vorum fimm og sjö ára þegar ég sótti bróður minn á Drafnarborg. Ég hafði keypti fransbrauð fyrir mömmu á leiðinni. Við löbbuðum svo saman niður Vesturgötuna. Við brutum endann á brauðinu og fengum okkur bita og töluðum um það alla leiðina heim hvað það væri skrítið að tunglið væri alltaf fyrir framan okkur sama hvað við löbbuðum langt. Æskuheimili okkar var á Nýlendugötu 7 og sjórinn og bryggjurnar rétt hjá. Við eyddum mörgum stundum í að fylgjast með lífinu þar.

Við horfðum þegar landað var úr bátunum og þegar stóru skipin komu með varning. Það var eins gott að passa guttann, að hann dytti ekki í sjóinn eða gerði eitthvað af sér þar sem fróðleiksfýsnina vantaði ekki. Það var okkur lengi í minni þegar það var búið að landa mörgum traktorum á Ægisgarð og Óli settist upp í einn traktorinn til að kanna stýrið og takkana. Þá kom maður á vörubíl að okkur og byrjaði að skamma Óla, hann taldi að Óli væri að eyðileggja traktorinn, það átti svo að taka í strákinn en við tókum til fótanna og hlupum eins og fætur toguðu heim með vörubílinn á eftir okkur sem á endanum ók upp Norðurstíginn, sem var ólöglegt, en þar missti æstur bílstjórinn af okkur. Það koma ótal minningar upp, allar góðar. Óli að skrúfa allt í sundur eins og bílana sem hann fékk í jólagjöf til að kanna hvernig þeir væru að innan og að hjálpa mér við að slíta dúkkuna mína í sundur af sömu ástæðu. Við uxum svo úr grasi, Óli hélt áfram að kanna hvað væri inni í hinum og þessum hlutum og kom þeim alltaf saman aftur á réttan hátt en ég lét nægja að sjá inn í dúkkuna mína.

Mamma fór með hann til rakara á vorin og lét krúnuraka hann áður en hann fór vestur á Patró til heiðurshjónanna Huldu og Kidda sem voru barnlaus og nutu þess að fá að hafa hann hjá sér. Þegar hann stálpaðist var hann sendur í sveit eins og tíðkaðist í þá daga. Óli datt í lukkupottinn þegar hann kynntist eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigrúnu Hannibalsdóttur frá Bolungarvík. Alltaf tóku þau á móti manni með rausnarskap. Ógleymanlegar eru skötuveislurnar hjá þeim á Þorláksmessu.

Minningarnar eru ótalmargar og of langt að rekja þær allar hér. Síðasta minning mín með bróður mínum var á gamlársdag þegar ég heimsótti hann, þá mikið veikan. Brosið sem ég fékk þegar ég rifjaði upp minningar okkar frá barnæsku mun alltaf fylgja mér.

Það er trú mín að við eigum eftir að hittast aftur í Sumarlandinu.

Elsku Sigrún, Hannibal, Steinunn Hilma, Óli Egill og fjölskyldur, guð gefi ykkur styrk til að takast á við sorgina.

Ég kveð þig kæri bróðir þar til við hittumst á ný.

Þín systir,

Eydís.