40 ára Eva fæddist í Espoo í Finnlandi og ólst þar upp. Hún stundaði tónlistarnám við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki og hreppti fyrstu verðlaun í Panula-keppninni fyrir unga hljómsveitarstjóra árið 2003.
40 ára Eva fæddist í Espoo í Finnlandi og ólst þar upp. Hún stundaði tónlistarnám við Sibeliusar-akademíuna í Helsinki og hreppti fyrstu verðlaun í Panula-keppninni fyrir unga hljómsveitarstjóra árið 2003. Hún kom fyrst til Íslands 2007 og stjórnaði nokkrum áskriftartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói á árunum 2007-2010. Hún stjórnaði í fyrsta sinn í Hörpu í febrúar 2019 og skömmu síðar tók hún boði hljómsveitarinnar um að gerast aðalstjórnandi hennar.

„Mér hefur alltaf fundist vera góður og sérstakur andi í sinfóníuhljómsveitinni hérna. Hún er skipuð frábæru tónlistarfólki sem nálgast tónlistina líka á svo mannlegan hátt, ekki bara tæknilegan.“

Eva hefur stjórnað fjölda virtra hljómsveita, meðal annars Útvarpshljómsveitunum í Finnlandi og Svíþjóð, Fílharmóníusveitinni í Stokkhólmi og Sinfóníuhljómsveitinni í Vínarborg. Þá hefur hún stjórnað óperusýningum við Dönsku þjóðaróperuna og Semperoper í Dresden. Haustið 2020 tók hún svo við stöðu aðalstjórnanda og listræns stjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

„Þetta hafa verið sérstakir tímar síðan ég tók við og ég veit ekki hversu oft við höfum þurft að breyta okkar dagskrá og áætlunum. Við héldum ókeypis tónleika í hádeginu á fimmtudaginn og það var frábært að sjá hversu margir komu á tónleikana og finna stemninguna í salnum. Við tónlistarfólkið höldum alltaf áfram að æfa okkur þrátt fyrir covid, en það er tómlegt að vera tónlistarmaður án áhorfenda. Mér finnst það vera frábær afmælisgjöf að geta farið að halda tónleika á ný.“ Næstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands verða haldnir á fimmtudaginn þar sem leikin verða verk eftir Dmítríj Shostakovitsj og Samuel Barber.

Fjölskylda Eiginmaður Evu er Henrik Skotte, f. 1976, óbóleikari í Sinfóníuhljómsveitinni í Óðinsvéum þar sem þau eru búsett. Börn þeirra eru Philip, f. 2013, og f. Nina, 2015. Fjölskyldan er núna stödd á Íslandi í tilefni af afmælinu.