Ari Arthursson fæddist 12. mars 1948. Hann lést 28. janúar 2022.

Útför Ara fór fram 7. febrúar 2022.

Ari Arthurs var mikill vinur okkar og það er sárt að þurfa að kveðja hann svo fljótt. Hugur okkar er hjá Guðrúnu Birnu, sem missir sinn lífsförunaut, og hjá dætrunum Vigdísi Klöru og Halldóru Æsu, eiginmönnum þeirra og börnum, sem nú syrgja og sakna samvistanna við umhyggjusaman eiginmann, föður, tengdaföður og afa.

Kynni okkar ná langt aftur á síðustu öld. Hermann og Ari voru skólabræður í barnaskóla, lögðu báðir stund á flugnám og útskrifuðust að lokum sem tæknifræðingar frá Tækniskóla Íslands 1977/78. Þeir tilheyrðu samhentum hópi og á fimm ára námstíma kynntust allir vel, nemar og makar. Þessi hópur hefur hist á fimm ára fresti til að fagna útskriftarafmælum og í sumar er ætlunin að fara saman í ferðalag vestur á firði. Þar verður Ara sárt saknað og við munum halda þétt utan um Guðrúnu Birnu.

Árið 1978 hófst nokkur hópur ungs fólks handa við að reisa sér hús á svo kölluðum Tilraunareit 1 í Seljahverfi, sem Guðrún heitin Jónsdóttir arkitekt var skipulaghöfundur að. Stóri draumurinn var að geta einnig komið upp sameiginlegu barnaheimili, því að á þeim tíma áttu börn fólks í sambúð einungis rétt á hálfs dags plássi á leikskóla. Húsin potuðust upp á nokkrum árum, með mikilli vinnu eigenda eins og þá var alsiða og svo var flutt inn í hálfköruð hús, sem stóðu umhverfis sameiginlega lóð. Draumurinn um barnaheimili rættist að vísu ekki, en þetta skipulag stuðlaði að mjög góðum kynnum fullorðinna jafnt sem barna. Hermann og Ari, nýútskrifaðir tæknifræðingar og reynsluboltar í verklegum framkvæmdum, gerðu verkfræðiteikningar fyrir húsin, sem voru timburhús teiknuð af Magnúsi Skúlasyni og Sigurði Harðarsyni. Húsin voru í hópi fyrstu tvílyftu timburhúsanna, sem leyft var að byggja samkvæmt nýrri reglugerð, og reyndust afar vel. Ari er sá fyrsti úr upphaflega hópnum sem kveður þennan heim og hans verður sárt saknað.

Við hjónin áttum ótal góðar stundir með Ara og Guðrúnu Birnu í áranna rás, þá síðustu núna rétt fyrir jólin, þegar við fórum á jólatónleika og borðuðum saman á eftir, samkvæmt margra ára venju. Nú þarf Guðrún Birna að aðlagast lífinu án Ara, ásamt fjölskyldunni allri, og þau munu veita hvert öðru styrk og skjól. Vonandi berum við gæfu til að leggja einhver lóð á vogarskálarnar. Minningin um góðan dreng mun lifa.

Sigríður Guðmundsdóttir

og Hermann Hermannsson.

Kæri vinur. Það voru forréttindi okkar að fá að kynnast þér og eiga þig sem vin. Samvistir okkar spönnuðu marga áratugi. Nú ertu fallinn frá og við hörmum það mjög.

Það voru eiginkonurnar sem komu okkur körlunum saman. Þær þekktust frá Fóstruskólanum og höfðu alltaf haldið vinskap. Svo kom að því að þær höfðu frumkvæði að ýmiss konar samverustundum okkar vinanna. Óteljandi ferðalög, sumarbústaðaferðir og annað skemmtilegt. Börnin okkar tóku líka þátt í flestum þeirra.

Öll framkoma þín einkenndist af jafnaðargeði, rólyndi og hógværð en um leið festu. Og trygglyndi, heilindum og heiðarleika áttirðu nóg af. Þú gafst aldrei upp, sem sýndi sig vel í veikindum þínum.

Genginn er góður drengur. Blessuð sé minning hans.

Elsku Guðrún Birna, dætur, tengdasynir og barnabörn, við hugsum til ykkar allra.

Anna og Páll,

Edda og Bárður,

Magnea og Bjarni.