Eftir fimmtugt hefur leikurinn ójafnast til muna. Maður þarf bókstaflega að taka á öllu sem maður á til að steinsofna ekki. Þetta er ógurleg og hatrömm rimma.

Æskuvinur minn og jafnaldri náði þeim merka áfanga í vikunni að verða 51 árs. Ég bjallaði að sjálfsögðu í kappann til að óska honum til hamingju og hann bar sig bara merkilega vel – enda týpan sem lætur ofboðslega fátt koma sér úr jafnvægi. Fjölskyldan var nýbúin að hrista Kóvið frænda af sér án teljandi vandræða og gamla góða rútínan tekin við á ný. „Maður mætir í vinnuna, kemur heim, sinnir börnunum og eldar matinn og sofnar svo fyrir framan sjónvarpið.“

Djöfull sem ég tengdi við þetta. Ég hef að vísu ekki mætt í vinnuna í tvö ár og börnin eru löngu flogin úr hreiðrinu en sjónvarpið maður, þvílíkum svæfingarmætti sem það býr yfir. Ég byrjaði að finna aðeins fyrir þessu upp úr fertugu, eitt og eitt dott yfir fréttunum, en eftir fimmtugt hefur leikurinn ójafnast til muna. Maður þarf bókstaflega að taka á öllu sem maður á til að steinsofna ekki. Þetta er ógurleg og hatrömm rimma.

Hvað er þetta annars eiginlega? Er það aldurinn eða bara sú staðreynd að alltaf er verið að segja manni sömu fréttina, uppfærða ferðasöguna af Kóviði frænda? Hvað stakk hann við stafni hjá mörgum í dag og þar fram eftir götunum. Svo kemur einhver vinnulúinn læknir á skjáinn, andvarpar og minnir okkur á að þetta maraþonhlaup sé alls ekki búið. Fer þessi montypythonski brandari að færa markið ekki að verða dálítið þreyttur?

Eða er þetta kannski bara röddin í Boga? Það er alveg ofboðslega gott að gleyma sér undir lestrinum hans – svo jaðrar við alsælu. Þó ekki sé nema í fimm eða sjö mínútur. Kannist þið ekki við þetta? Og maður er glænýr maður á eftir. Þá sjaldan ég lendi í basli með að sofna fyrir nóttina þá hugsa ég alltaf til Boga að segja mér frá hrífugerðarmanni í Hrísey eða pöndulingum að leika sér í snjónum – og draumalandið tekur mér opnum örmum.

Zzzzzz ... Ha? Hvað? Fyrirgefið, mér seig aðeins í brjóst.

Hafi þessi sjónvarpshöfgi ekki dugað til að minna mig á aldurinn og um leið hverfulleika lífsins þá var ég þennan sama dag og vinur minn átti afmæli settur í lið „framsettra“ í bumbuboltanum. Og þarf talsvert til, við erum jú að tala um bumbubolta. Þetta var að vonum skellur enda þótt mér hafi tekist að bera mig betur en liðsfélagi minn og kær vinur sem tók til við að endurinnrétta salinn. Linnti ekki látum fyrr en búið var að flytja hann yfir í lið kviðsléttra. Lék hann þá á als oddi. Og heiðursskipti loks sjálfum sér af velli.

Engum sögum fer af því hvort hann sofnaði yfir sjónvarpinu um kvöldið.