Viðbúnir Úkraínskir hermenn með alvæpni við bæinn Chuguev í gær.
Viðbúnir Úkraínskir hermenn með alvæpni við bæinn Chuguev í gær. — AFP
Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti í gær bandaríska ríkisborgara til að yfirgefa Úkraínu tafarlaust því allt gæti farið þar í bál og brand á hverri stundu. Benti forsetinn á gríðarlegan liðsafnað rússneska hersins við landamærin máli sínu til stuðnings.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hvatti í gær bandaríska ríkisborgara til að yfirgefa Úkraínu tafarlaust því allt gæti farið þar í bál og brand á hverri stundu. Benti forsetinn á gríðarlegan liðsafnað rússneska hersins við landamærin máli sínu til stuðnings. Almennt hefur verið talið að Rússar muni ekki láta til skarar skríða í Úkraínu á meðan Vetrarólympíuleikarnir í Peking standa yfir, en Kínverjar eru bandamenn Rússa og myndu verða mjög ósáttir við að leikarnir féllu í skugga innrásar. Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kvaðst þó í gær ekki sannfærður um þetta. Hann teldi að Rússar myndu ekki láta leikana stöðva sig.

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, var í Moskvu í gær til viðræðna við rússneskan starfsbróður sinn. Litlar vonir eru bundnar við þær viðræður. Á fimmtudaginn hittust utanríkisráðherrar landanna og sagði Sergei Lavrov eftir þær að viðræðurnar við breska ráðherrann, Liz Truss, hefðu líkst því að tala við heyrnarlausan mann.

Stjórnvöld í Úkraínu hafa harðlega mótmælt heræfingum sem Rússar eru nú að hefja í Svartahafi og segja að þær trufli eðlilegar skipaferðir þar. Einnig eru í gangi sameiginlegar heræfingar Rússa og Hvítrússa við landamæri Úkraínu.

Viðræðum á milli Rússa og Úkraínumanna í Berlín með þátttöku Frakka og Þjóðverja er lokið án árangurs. Markmiðið var að binda enda á innanlandsátökin sem staðið hafa átta ár á milli úkraínskra aðskilnaðarsinna á bandi Rússa og hersveita Úkraínustjórnar. Rússar segja að ólíkur skilningur þjóðanna á samkomulagi kennt við Minsk frá 2015 hafi valdið því að upp úr slitnaði.

Hernaðarsérfræðingar segja að um 135 þúsund rússneskir hermenn séu við landamæri Úkraínu; eru þeir bæði í Rússlandi og Hvítarússlandi. Margir þeirra telja að Rússar séu nú tilbúnir til að ráðast inn í Úkraínu, hernema landið og steypa stjórninni þar.

Joe Biden ítrekaði í gær að ekki stæði til að bandarískir hermenn kæmu Úkraínu til varnar ef til innrásar kæmi. Herlið yrði heldur ekki sent þangað til að bjarga bandarískum ríkisborgurum. Þeir yrðu að koma sér úr landi meðan það væri enn hægt. Hins vegar hafa hann og aðrir ráðamenn vestrænna ríkja hótað Rússum hörðustu refsiaðgerðum fyrr og síðar láti þeir verða af árás á Úkraínu.