Þrátt fyrir góða stöðu þjóðarbúsins anda þó ekki allir léttar. Þvert á móti telja ýmsir þingmenn sem kjörnir voru á þing 25. september 2021 að sagan hafi hafist með þeim.

Þótt fréttir berist nú um fleiri smit sem rekja má til COVID-19-faraldursins en nokkru sinni fyrr á árunum tveimur síðan hann setti fyrst svip á þjóðlífið ber hitt hátt að við séum að losna úr sóttvarnaviðjunum. Bólusetningar minnka líkur á alvarlegum veikindum. Heilbrigðiskerfið er sagt þola álagið án þess að brotna. Skorti læknisfræðileg og lögfræðileg rök fyrir frekari boðum og bönnum í nafni sóttvarna skal staðar numið.

Hér hefur áður verið hvatt til að gerð verði úttekt og skrifuð skýrsla um gang mála frá 27. janúar 2020 þegar óvissustig almannavarna vegna faraldursins kom til sögunnar. Án úttektar verður ekki dreginn nauðsynlegur lærdómur af sóttvarnaviðbrögðunum.

Unnið er að viðamiklum framkvæmdum við Landspítalann sem færa aðstöðu þar á nýtt stig. Leiðir til að bæta úr manneklu innan heilbrigðiskerfisins eru vafalaust fleiri en ein. Skortur á legurými er vandi sem hefur sett svip á umræður um heilbrigðismál árum saman. Allt þetta verður að greina í leit að haldgóðum lausnum.

Hjá þeim sem líta á rekstur Landspítalans utan frá vaknar spurning um hvort hann sé ekki allt of stór eining fyrir íslenskt umhverfi sitt og þar með samfélagið. Hefur ríkið færst of mikið í fang með svo umfangsmiklum rekstri? Þarf spítalinn ekki öflugt stoðkerfi einkaaðila eða minni ríkisfélaga til að valda forystuhlutverki sínu? Hefur spítalinn einfaldlega sligast undan eigin þunga? Sé sjúklingurinn settur í fyrirrúm í stað kerfisins til hvers leiðir það?

Í vikunni ræddu þingmenn horfur í efnahagsmálum með tilliti til stöðu COVID-19. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði í munnlegri skýrslu sinni sérstakt að á sama tíma og seðlabankinn hækkaði vexti gegn þenslu í hagkerfinu hefði ekki enn verið skipt um gír hjá ríkisstjórn og alþingi sem reyndu enn að örva hagkerfið. Ljóst væri að 530 milljarða króna halli á ríkissjóði sýndi að ríkisfjármálunum hefði verið beitt af mjög miklum krafti í faraldrinum. Á árinu 2021 hefðu orðið til 20.000 störf. Ráðstöfunartekjur fólks hefðu aukist, kaupmáttur vaxið. Hann hefði aldrei verið meiri. Gjaldþrot fyrirtækja hefðu ekki orðið fleiri en í venjulegu árferði. Faraldurinn hefði ekki leitt til aukins tekjuójafnaðar þótt íslenska hagkerfið hefði áður tryggt einn mesta tekjujöfnuð í heimi.

Þingumræðurnar voru málefnalegar og svaraði ráðherrann öllum ræðumönnum og skiptist á skoðunum við þá. Bjarni minnti meðal annars á „algera byltingu“ í fjárframlögum til svonefndra samkeppnissjóða, Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknasjóðs. Þar hefði á fáum árum orðið breyting „sem menn létu sig varla dreyma um“ að gæti orðið. Hann minnti einnig á að endurgreiðslur vegna rannsóknar- og þróunarstarfs hér á landi á vegum íslenskra fyrirtækja, stórra og smárra, hlypu nú á milljörðum á hverju ári. Fyrir utan þetta væru síðan aðgerðir ríkissjóðs til að efla kvikmyndagerð, tónlist og annað.

Með þetta allt í huga og þá staðreynd að í heild var verðmæti vöruútflutnings 62% meira á föstu gengi í janúar 2022 en í janúar 2021 er ekki með nokkrum sanni unnt að segja að íslenska þjóðarbúið sé á vonarvöl þegar faraldurinn tekur á sig mildari svip.

Þrátt fyrir þessar staðreyndir anda þó ekki allir léttar. Þvert á móti telja ýmsir þingmenn sem kjörnir voru á þing 25. september 2021 að sagan hafi hafist með þeim. Má þar til dæmis nefna Kristrúnu Frostadóttur, þingmann Samfylkingarinnar, sem sagði í upphafi ræðu sinnar um skýrslu Bjarna Benediktssonar að hún ætlaði „að fá að hafa hér uppi aðeins aðra söguskýringu“ en kom fram í máli ráðherrans.

Boðskapur Kristrúnar er ekki „söguskýring“ heldur umritun sögunnar í þeim tilgangi að koma höggi á pólitíska andstæðinga og seðlabankann. Kristrún ætti að rifja upp að strax 12. mars 2020 hófst samráð ríkisstjórnarinnar við stjórnarandstöðuflokkana um ráðstafanir í efnahags- og atvinnumálum vegna faraldursins og fagnaði flokksformaður hennar, Logi Einarsson, því í þingræðu.

Að nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar stígur nú fram og sakar seðlabankann um mistök með vaxtalækkun vegna faraldursins varð til þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði orð í þessa veru bera keim af minnisleysi. Þveröfugt við gagnrýnina hefðu aðgerðir seðlabankans skilað góðum árangri; tekist hefði að verja kaupmátt og atvinnusköpun.

Bjarni Benediktsson svaraði gagnrýni Kristrúnar á þann veg að á efnahagshliðinni hefðu aðgerðir tekist álíka vel og í heilbrigðismálunum þar sem staðinn hefði verið vörður um líf og heilsu fólks. Tekist hefði að „ná helstu markmiðum um að fleyta okkur í gegnum eina mestu efnahagslægð sem við höfum upplifað án þess að hér yrðu mikil áföll umfram tilefni“.

„Söguskýring“ Kristrúnar Frostadóttur minnir enn á nauðsyn þess að tekin sé saman skýrsla um allar opinberar aðgerðir vegna faraldursins. Sé það ekki gert skapast tómarúm sem alls kyns kenningasmiðir reyna að fylla með eigin „skýringum“. Staðreyndir verður að virða hvað sem skýringum líður.

Eftir að Kristrún Frostadóttir flutti boðskap sinn í Kastljósi sjónvarpsins 8. febrúar spurði Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar 2000-2005: „Hvað ætlar Samfylkingin að bíða lengi með að gera hana að formanni?“ Spurningin er réttmæt, málflutningur nýja þingmannsins snýr ekki síður að formanni flokks hennar en öðrum.

Björn Bjarnason bjorn@bjorn.is