Nathan náði þessari mynd af norðurljósunum í ferð sinni til Íslands, en til þess notaði hann sérstaka tækni og fjórar myndavélar sem taka myndir á sama tíma.
Nathan náði þessari mynd af norðurljósunum í ferð sinni til Íslands, en til þess notaði hann sérstaka tækni og fjórar myndavélar sem taka myndir á sama tíma.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bandaríski vísindamaðurinn og ljósmyndarinn Nathan Myhrvold er staddur hérlendis að mynda. Hann hefur komið víða við í lífinu en ástríðan snýst um mat, gerð bóka og ljósmyndun. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Nathan Myhrvold er veðurtepptur í fannferginu á Mývatni þegar blaðamaður nær tali af honum. Þessi frumkvöðull, vísindamaður, uppfinningamaður, rithöfundur, matreiðslumeistari og ljósmyndari kom til Íslands til að keyra hringinn í vetrarveðri til að mynda bæði landslag og norðurljós. Nathan vann lengi hjá Microsoft og einnig með Stephen Hawking, en hann fór fjórtán ára gamall í háskóla og er með gráður í stærðfræði, eðlisfræði og geimeðlisfræði og hagfræði og loks doktorspróf í eðlisfræði. Síðar fór hann til Frakklands í matreiðsluskóla, en ljósmyndun hafði hann kennt sér frá unga aldri. Hann rekur nú fyrirtækið Modernist Cuisine sem sérhæfir sig í gerð kokkabóka og matarljósmynda.

Alltaf haft ástríðu fyrir mat

Hvað ertu að gera á Mývatni?

„Í augnablikinu erum við að fela okkur fyrir óveðrinu eins og allir aðrir. Það blæs ansi hressilega hér,“ segir hann og hlær.

„En ferðin hefur verið frábær hingað til,“ segir Nathan.

Þegar búið var að ræða veðrið að hætti Íslendinga hellir blaðamaður sér út í að forvitnast um líf þessa fjölhæfa manns sem virðist vera með puttana í ýmsu.

Nú hefur þú unnið mikið í tölvu- og hugbúnaðarheiminum. Var það ást þín á mat og ljósmyndun sem varð til þess að þú tókst aðra stefnu í lífinu?

„Vandamál mitt er að ég hef alltaf haft áhuga á fjölmörgu en í heiminum í dag snýst allt um sérhæfingu. Fólk verður fært á einhverju einu sviði og það er það sem skilgreinir það. Mér fannst erfitt að halda mig við bara eitthvað eitt. Ég hef alltaf haft ástríðu fyrir mat, oftast sem neytandi en síðar lærði ég að elda og frekar nýlega gerðist ég höfundur kokkabóka. Í mínum huga er það eðlileg þróun. Það er mikilvægt að skilja vísindin á bak við matreiðsluna, að minnsta kosti eins og ég lít á það. Ég hef haft brennandi áhuga á ljósmyndun frá barnæsku. Í kokkabókunum mínum var auðvelt að koma hugmyndum okkar til skila með því að sýna þær á ljósmyndum til að sýna fólki hvað væri í gangi frekar en að segja því það,“ segir Nathan og segist með þessari vinnu ná að sameina mörg áhugamál.

„Ef ég hefði bara haldið mig við eitt efni hefði kannski eitthvað orðið úr mér!“ segir hann og hlær.

Kokkabók í sex bindum

Nathan stofnaði fyrirtækið Modernist Cuisine árið 2011 og hefur síðan gefið út margar kokkabækur og það enga smá doðranta!

„Ég skrifaði kokkabækur sem eiginlega fylgdu alls engum reglum venjulegra kokkabóka. Þegar ég skrifaði mína fyrstu kokkabók var ekki til ein einasta slík í Bandaríkjunum sem kostaði meira en 50 dollara. Mín kostaði 625 dollara,“ segir hann og segist aldrei hafa viljað fara venjulegu leiðina.

„Ég vildi að bókin hefði mikið og greinargott innihald en um leið að hún yrði falleg. Ég vissi ekki hvað margir myndu kaupa hana og hélt í byrjun að það yrðu bara nokkur hundruð manns. En nú er margbúið að endurprenta hana og þýða á mörg tungumál. Ég hef selt 250 þúsund eintök, sem er nokkuð gott fyrir bók sem kostar svona mikið!“ segir Nathan en þess má geta að bókin er 2.438 blaðsíður í sex bindum.

„Það hafa margir áhuga á þessum bókum en eru ekki endilega að elda, en bókin er samt ekki bara fyrir sérhæfða kokka heldur einnig fyrir amatöra. Þetta konsept virkaði og ég verð því að halda áfram að gefa út bækur! Ég gerði líka bók um brauð, í sex bindum. Í fyrra gaf ég svo út pítsubók en næsta bók er um sætabrauð,“ segir hann en hann vinnur ásamt samstarfsfólki sínu í stórri tilraunastofu þar sem er eldað, bakað, myndað og oft eru ný tæki og tól fundin upp til að hjálpa til við myndatökurnar, sem eru oft æði nákvæmar.

Matreiðsla ofan í kjölinn

„Í gegnum tíðina hafa matreiðslumenn fundið upp nýjar aðferðir við matargerð. Á Íslandi fundu menn til að mynda upp á því að kæsa hákarl. Það hefur verið mjög hugrakkur og örvæntingarfullur maður!“ segir hann og hlær.

„Þrátt fyrir allar þessar nýju aðferðir hefur lítið verið um vísindalegar rannsóknir. Það er í raun alveg stórmerkilegt hvað fólk fann upp á mörgum aðferðum án þess að hafa neina vísindalega vitneskju. Ef við tökum til að mynda brauð, vín eða ost þá býr þar að baki mjög flókið ferli, bæði líffræðilegt og efnafræðilegt. En fólk uppgötvaði samt þessar aðferðir löngu áður en farið var að skoða vísindin að baki. Vandamálið við að þekkja ekki vísindin að baki flókinni matargerð er það að þótt það sé vel heppnað er erfitt að búa til eitthvað alveg nýtt. Ef þú hefur aðeins áhuga á að herma eftir uppskrift þarftu ekkert að skilja vísindin en færð oft góða útkomu. En ef þú vilt skapa eitthvað alveg nýtt hjálpar það að skilja vísindin,“ segir Nathan.

„Í eldhúsinu okkar viljum við segja sögu. Ef maður skilur matargerð í grunninn fær maður betri afurð. Það er það sem Modernist Cuisine snýst um; að finna upp nýjar aðferðir og skilja hvernig þær virka,“ segir Nathan og segir að vissulega hafi kokkar víða um heim verið að gera tilraunir áður en hann gaf út sína fyrstu bók.

„Þetta fólk hafði fundið upp alls kyns nýjar aðferðir og tækni við matargerð, en það var mjög erfitt að nálgast nokkuð um það í bókum. Og ef það var gert var það ekki nógu vel útskýrt, en við viljum útskýra það fyrir fólki. Við einblíndum á nýjar aðferðir allt frá níunda áratugnum til dagsins í dag, og í raun vildum við bara útskýra matreiðslu alveg niður í kjölinn. Það er mjög margt sem hefur gleymst eða fólk kann ekki lengur.

Rómverjar og hvítlaukur

Aðalsöluafurð okkar hjá Modernist Cuisine eru bækur og ljósmyndir,“ segir Nathan og útskýrir að hann sé með þrjú gallerí þar sem hann selur verk sín, í Seattle, La Jolla í Kaliforníu og New Orleans.

„Upphaflega seldum við aðallega matarmyndir en nú sel ég líka landslagsmyndir, myndir af stjörnum og snjókornum. Við reynum að sjálfsögðu líka að þróa nýjar uppskriftir. Við veljum einhverja eina sérstaka tegund af mat og brjótum hana til mergjar. Við skoðum söguna og tæknina,“ segir Nathan og segir marga halda að matargerð hafi alltaf verið eins í gegnum tíðina, en svo sé alls ekki.

„Ef við tökum ítalska matargerð fyrir, þá er hún þekkt fyrir að leita í fortíðina og vera svolítið sveitaleg í tækni sinni. En það er nánast algjört kjaftæði. Ítölsk matargerð hefur breyst stórkostlega í gegnum tíðina, aðallega vegna þess hve skapandi Ítalir hafa verið. Sem dæmi var matargerð í Rómaveldi til forna ekkert lík matargerð sem ríkir á Ítalíu í dag. Hún líktist miklu frekar taílenskri matargerð. Það hljómar alveg galið, ekki satt? En eitt aðalkryddið sem þeir notuðu til forna var eins konar fiskisósa. Svo notuðu Rómverjar ekki hvítlauk og ekki basil. Þeim fannst það ógeðslegt. Annað: pasta kom ekki til Ítalíu fyrr en löngu seinna og sama má segja um tómata,“ segir Nathan og segir að fólk hafi lengi vel haft „fordóma“ fyrir tómötum og jafnvel talið að þeir væru eitraðir.

„Síðasti staður í Evrópu til að nota tómata í mat var Toskana! Það er klikkað!“ segir hann og bætir við: „En síðan þá hafa þeir náð góðum tökum á að nota tómata í mat.“

Beðið eftir að maður æli

Nathan hefur áður komið til Íslands og að sjálfsögðu smakkað hér þjóðlegan mat.

„Ég hef borðað reykt lambakjöt og man að ég spurði eitt sinn hvað væri notað til að reykja kjötið. Kindaskítur auðvitað, var svarið, sem var góð hugmynd, og auk þess verður geymluþolið mikið,“ segir Nathan og segir að matargerð fyrri alda hafi miðast við að geta geymt matinn sem lengst.

„Eins með mjólk, hún skemmist fljótt og því var búinn til ostur. Lútfiskurinn í Noregi er annað dæmi. Fólk fann upp á þessu af nauðsyn en fannst svo maturinn bara nokkuð góður,“ segir hann og segir að sér finnist hákarl góður.

„Ég segi ekki að ég myndi vilja borða hann sí og æ, en mér fannst hann góður. Ég fór á stað þar sem þeir þurrka hann. Það var mikil lífsreynsla! Lyktin var eins og blanda af verstu fiskilykt með verstu þvaglykt sem hugsast getur. En ef maður kemst yfir ammóníaklyktina er bragðið ekki svo slæmt. Það er nú þannig að ef einhver segir við mann að eitthvað sé lostæti er það það yfirleitt ekki. Það þarf ekki að segja það til dæmis um ís, það myndi enginn bjóða þér ís og reyna að sannfæra þig um að hann væri lostæti,“ segir hann og hlær.

„Ég prófaði líka hrútspunga og svið. Ég hef smakkað skrítinn og ógeðslegan mat víða. Í Sardiníu er borinn fram ostur með lirfum. Þeir búa til ferskan ost eins og ricotta og skilja hann svo eftir utandyra þar til flugur verpa í hann eggjum og lirfur klekjast út. Þá er osturinn tekinn og settur í kindamaga, það saumað saman og látið gerjast í sex mánuði. Einhvern tímann í ferlinu bæta þeir alveg fáránlega miklu magni af salti saman við. Þetta er svolítið eins og með hákarlinn á Íslandi; þetta er svona innvígslumatur. Maður stendur þarna, aumingja útlendingurinn, með hóp af innfæddum í kringum sig sem bíða eftir að maður æli,“ segir hann og skellihlær.

Vann með Hawking

Við vendum kvæði okkar í kross og hættum að tala um mat, góðan eða slæman, og snúum okkur að ljósmyndun landslags og náttúru.

„Ég fékk mína fyrstu myndavél þegar ég var níu ára og þá kviknaði ljósmyndaáhuginn. Á sama aldri uppgötvaði ég kokkabækur og var farinn að elda þakkargjörðarmáltíð fyrir fjölskylduna. Í gaggó var ég mikið að mynda, en ég var líka mjög góður nemandi. Ég byrjaði í háskóla fjórtán ára gamall og tók þar margar gráður, í stærðfræði, eðlisfræði og fleiru. Það tók sinn tíma! Ég var enn aðeins að mynda samt. Sem eðlisfræðingur vann ég svo með Stephen Hawking,“ segir hann og segir hann hafa verið frábæran mentor sem hann hafi verið heppinn að fá að vinna með. Nathan segist hafa sótt um vinnu víða en þegar hann fékk símtal frá Bretlandi frá Stephen, sem var að bjóða honum vinnu, hélt hann fyrst að þetta væri brandari. En að sjálfsögðu tók hann tilboðinu.

„Ég elskaði að vinna með Stephen. Hann var snillingur sem sinnti sínum nemendum vel,“ segir Nathan sem stofnaði síðar fyrirtæki sem hann seldi Microsoft.

„Ég gerðist þá yfirmaður tæknimála hjá Microsoft. Þegar ég vann þar fékk ég nógu góð laun til að kaupa mér betri myndavélagræjur og fór þá að mynda meira náttúru og landslag. Þetta hefur verið um 1990 og ég tók allt á filmu en síðar varð allt stafrænt. Ég fór að mynda af meiri alvöru. Í dag mynda ég oft með mjög flókinni tækni og með mjög sérhæfðum myndavélum. Ég er með stórt myndver þar sem ég tek myndir í bækur mínar og margar af vélunum sem ég nota hef ég smíðað sjálfur því þær eru ekki til. Við erum með margar tölvufjarstýrðar myndavélar,“ segir hann og segist einmitt hafa hannað sérstaka míkrómyndavél til þess að mynda snjókorn.

„Það tók eitt og hálft ár að þróa og hanna og er þessi míkrólinsa sú háþróaðasta í heiminum og myndirnar eru í hæstu mögulegri upplausn. Ég fór líka að mynda geiminn. Ég er ekki með allan minn búnað hér á Íslandi en ansi mikið,“ segir hann og hlær.

Norðurljósin heilla

Nathan segist gjarnan taka panóramamyndir og notar til þess flókinn tölvubúnað þar sem margar vélar taka hundruð mynda sem er svo skeytt saman í eina.

„Mig langaði að nota þessa tækni til að taka myndir af norðurljósunum en vandamálið er að norðurljósin hreyfast of hratt. Sama með hvirfilvind. Þannig að ég hannaði sérstakt kerfi véla fyrir svona myndatökur. Ég stilli þá upp fjórum myndavélum mjög nákvæmlega á mismunandi stöðum og tek mynd á þeim öllum á sama augnablikinu. Þannig næ ég flottri mynd af norðurljósum,“ segir Nathan.

„Það eru tvær hliðar á ljósmyndun, líkt og matreiðslu. Tæknin er önnur hliðin. Augljóslega þarf maður linsu og aðra tækni til að taka mynd. Hin hliðin er auðvitað hin listræna. Ég hef náð góðum tökum á tæknilegu hliðinni og vona að ég sé ágætur í listrænu hliðinni,“ segir hann og hlær.

„En báðar hliðar spila saman. Það er hægt að taka tæknilega fullkomnar myndir sem eru ekkert spennandi. Ég vil það ekki; þetta snýst ekki eingöngu um tæknina en hún hjálpar okkur mikið,“ segir Nathan og segist hafa ferðast um allan heim til að ljósmynda.

„Ég hef ferðast mjög mikið í Bandaríkjunum, sérstaklega núna í Covid þegar ekki var hægt að ferðast mikið erlendis. En nú er ég farinn að fara til útlanda. Mig hefur lengi langað að mynda norðurljós,“ segir Nathan og hefur hann reiknað nákvæmlega út hvað marga daga á ári, hvar og hvenær, hægt er að sjá norðurljósin. Enda stærðfræðingur með meiru.

„Samkvæmt mínum útreikningum eru hér líkur á að sjá norðurljós sjötta hvert vetrarkvöld. Og þá verður maður að hafa eitthvað annað að gera þess á milli! Það góða við Ísland er að hér er nóg að mynda,“ segir hann og bætir við að hann hafi komið hingað áður að sumri til.

„Það má segja að ég hafi komið til að mynda vetrarlandslag en í leiðinni vonast eftir að mynda norðurljós.“

Sést vel frá geimnum

Ertu að keyra hringinn?

„Já. Reyndar eru flestir vegir núna lokaðir,“ segir hann og skellihlær.

„Við erum eiginlega veðurtepptir á Mývatni en íslensku aðstoðarmennirnir mínir eru óhræddir og við munum halda áfram í austurátt,“ segir Nathan og segir að hápunktur ferðarinnar hafi verið að sjá norðurljósin og ná af þeim myndum.

„Það hefur verið mjög gaman í ferðinni. Það er ekki það að veðrið hafi beint verið vont, heldur frekar að það breytist á tíu mínútna fresti. Ég hef rekist á alveg fáránlega fallega birtu. En þá þarf maður að stökkva til því hún hverfur á augabragði,“ segir Nathan.

„Ég er uppalinn í Los Angeles þannig að snjór hefur alltaf verið mér framandi. Hér leggst ég gjarnan í snjóinn til að mynda snjókristalla og þá hlaupa leiðsögumennirnir mínir til mín og hrópa: „Er allt í lagi með þig? Dastu?“ Þeir eru svo vanir að sjá snjó að þeim finnst þetta ekkert sérstakt. Fyrir mér er þetta mjög kúl,“ segir hann.

„Ég var einmitt búinn að kaupa mér nýja skærappelsínugula úlpu fyrir ferðina, þannig að ef ég týnist í snjónum geta þeir komið auga á mig auðveldlega. Ég er eins og stór tómatur í snjónum. Ég mun sjást frá geimnum,“ segir hann og hlær.

Hvað hyggstu gera með þessar Íslandsmyndir þínar?

„Ef þær koma vel út mun ég setja þær í galleríin mín, selja þær á vefnum mínum og birta þær í bókum. Hér blæs snjórinn oft í svo skemmtilega skafla og mynstrið í snjónum er svo áhugavert. Ég sé fyrir mér að ég gæti notað það sem innblástur í bókina mína um sætabrauð. Eins með hraunið. Ég hef oft séð hraun áður en aldrei hraun þakið snjó. Það er mjög skrítið að sjá!“ segir hann og segist einnig spenntur fyrir íshellunum hér.

„Ég er líka með augun opin fyrir villtum refum hér,“ segir hann en Nathan vinnur nú að því verkefni að mynda alla villta hunda og ketti heimsins.

Það er ljóst að þú ert með mörg járn í eldinum!

„Svo sannarlega. Enn og aftur; ef ég myndi nú bara einbeita mér að einhverju einu!“