Julia Garner í hlutverki sínu í Inventing Anna.
Julia Garner í hlutverki sínu í Inventing Anna. — Netflix
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hin blásnauða Anna Sorokin villti á sér heimildir og hafði ríka og fræga fólkið í New York að háði og spotti. Launin voru fangavist og útskúfun. Netflix kafar ofan í málið í flunkunýjum þáttum. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Ég gæti verið með frétt. Hún heitir Anna Delvey eða Anna Sorokin. Enginn veit það fyrir víst. Hún er annaðhvort af ríku þýsku aðalsfólki eða staurblönk. Það sem henni er gefið að sök er gjörsamlega galið.“

Þannig kemst blaðamaðurinn Vivian að orði í stiklunni fyrir leiknu þættina Inventing Anna sem komu inn á Netflix fyrir helgina.

Sjálf lýsir efnisveitan þáttunum með þessum hætti: „Í Inventing Anna rannsakar blaðamaður sem þarf heldur betur að sanna sig mál Önnu Delvey, Instagram-goðsagnarinnar og þýsku erfðamærinnar sem stal hjörtum þotuliðsins í New York – og peningum þess um leið. En er Anna stærsti svindlarinn í New York eða bara ný birtingarmynd ameríska draumsins? Anna og blaðamaðurinn stofna til drungalegs en um leið kómísks ástar-haturssambands meðan Anna bíður eftir réttarhaldi sínu og blaðamaðurinn rembist eins og rjúpan við staurinn við að svara spurningunni sem er á allra vörum í New York: Hver er Anna Delvey?“

Dugi þessi lýsing ekki til að kveikja í ykkur þá má vel henda þeirri staðreynd hér í púkkið að þættirnir byggjast á sannri sögu. Anna Delvey er í raun og sann til. Eða er það Anna Sorokin? Hún hafði fé af fjölda fólks í New York á síðasta áratug og hlaut fjögurra til 12 ára óskilorðsbundinn dóm fyrir svik, þjófnað og sitthvað fleira árið 2019 en þá hafði hún setið í varðhaldi frá því hún var tekin höndum síðla árs 2017. Þá var henni gert að greiða svimháar upphæðir í bætur vegna gjörða sinna. Sorokin var leyst úr haldi í fyrra en handtekin jafnharðan aftur, þar sem landvistarleyfi hennar var útrunnið. Hún bíður þess nú að vera vísað úr landi.

Í reynd af alþýðufólki

Anna Sorokin fæddist árið 1991 í bænum Domodedovo, í útjaðri Moskvu. Hún er víðsfjarri því að vera af þýskum aðalsættum en faðir hennar ók vörubíl og móðirin rak litla kjörbúð. Þegar Sorokin var 16 ára flutti fjölskyldan til Þýskalands, þar sem stúlkan virðist ekki hafa skotið rótum. Átti til að mynda í basli með tungumálið sem vekur athygli í ljósi þess sem síðar varð. En kannski eru menn upp til hópa ekki sleipir í þýskunni í Stóra eplinu.

Eftir skamma dvöl í Lundúnum gerðist Sorokin lærlingur hjá franska tískutímaritinu Purple í París. Hún fór á þess vegum til New York sumarið 2013 til að fylgjast með og fjalla um tískuvikuna. Fann sig vel þar um slóðir og fékk sig flutta yfir á New York-skrifstofu Purple, áður en hún sagði skilið við tímaritið. Þá fyrst byrjaði ballið.

Sorokin setti að nafninu til á laggirnar Anna Delvey-sjóðinn, þar sem vitaskuld var ekki að finna krónu með gati, og falsaði í framhaldinu gögn sem sýndu fram á að hún ætti 60 milljónir bandaríkjadala í banka í Sviss. Eftir það vildu bankar allt fyrir hana gera og fé tók að streyma inn í sjóðinn.

Það er óþarfi að lýsa gjörðum Sorokin í ítarlegu máli, þið sjáið þetta bara allt saman í þáttunum, en öllum veislum lýkur um síðir.

„Í hverju ertu eiginlega? Þú virkar fátæk,“ er það fyrsta sem hún segir við Vivian blaðamann, og sjá má í téðri stiklu. Og fyrirlitningin leynir sér ekki. „Mér skilst að ég sé orðin fræg,“ heldur hún áfram. „Og að ég sé glæpamaður. Það er ekki mín saga.“

„Hver er þá þín saga?“ spyr Vivian forvitin á móti.

Það er nú það. „Anna Delvey er meistaraverk, tíkurnar ykkar,“ sést aðalsöguhetjan skyrpa út úr sér í stiklunni.

Menn gera miklu verri hluti

Og lítið fer fyrir iðrun. „Menn gera miklu verri hluti á hverjum einasta degi en það sem ég á að hafa gert,“ segir karakterinn í þáttunum en í stiklunni kemur fram að allt sé sannleikanum samkvæmt nema það sem spunnið sé upp frá rótum. Einmitt.

Þar er mögulega vísað í þá staðreynd að blaðamaðurinn sem skrifaði greinina sem afhjúpaði málið og þættirnir byggjast á, How Anna Delvey tricked New York's party people, heitir alls ekki Vivian, heldur Jessica Pressler.

Sjálf er Anna Sorokin sultuslök í fangaklefa sínum yfir öllu moldviðrinu og hefur engin áform um að horfa á þættina. „Það lítur ekki út fyrir að ég muni horfa á Inventing Anna,“ sagði hún í opnu bréfi í Insider, „jafnvel þótt mér tækist að toga í einhverja strengi og koma því í kring. Það er nefnilega mjög ógeðfelld tilhugsun að horfa á skáldaða útgáfu af sjálfri mér á þessu geðveikrahæli sem ég er föst á.“

Hún viðurkennir þó að hún sé forvitin að vita hvernig farið verði með heimildir eftir alla þá rannsóknarvinnu sem liggur að baki blaðaskrifunum og þáttunum.

„Ég vil bara ekki vera föst með þessu fólki sem er að draga nafn mitt í svaðið. Ég sit bara hér inni vegna þess að útlendingastofnun ákvað að réttmæt lausn mín úr fangelsi skipti hana ekki minnsta máli.“

Netflix lagði inn á aðra

Mögulega ætti Sorokin að vera aðeins þakklátari, en fram hefur komið að féð sem hún fékk frá Netflix, 320 þúsund bandaríkjadalir, hafi dugað til að gera upp við fórnarlömb hennar. Það var þó ekki gert af fúsum og frjálsum vilja en lögmenn stigu inn í atburðarásina í skjóli hinna frægu Son of Sam-laga, sem koma í veg fyrir að dæmdir glæpamenn hagnist á opinberri umfjöllun um sig. Netflix lagði því ekki beint inn á Sorokin. Sem henni þótti miður.

Úr smiðju Shondu Rhimes

Höfundur Inventing Anna er Shonda Rhimes, konan á bak við þætti á borð við Grey's Anatomy, Private Practice og Scandal. Hún var á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamestu einstaklinga í heimi á nýliðnu ári.

Það er bandaríska leikkonan Julia Garner sem fer með hlutverk Önnu Sorokin/Delvey í Inventing Anna og hefur frammistöðu hennar verið beðið með nokkurri eftirvæntingu enda þykir hlutverkið hafa burði til að vera bitastætt. Til þessa er Garner líklega þekktust fyrir leik sinn í annarri Netflix-seríu, Ozark, þar sem hún fer með hlutverk Ruth Langmore, en hún var einnig í stóru hlutverki í Dirty John á Bravo.

Bandaríska leikkonan Anna Clumsky leikur Vivian blaðamann en hún er án efa kunnust fyrir að túlka Amy Brookheimer í HBO-þáttunum Veep. Af öðrum leikendum má nefna Katie Lowes og Laverne Cox.