Inger Oddfríður Traustadóttir fæddist í Reykjavík 13. janúar 1951. Hún lést á bráðamóttöku Landspítala – Háskólasjúkrahúss 18. nóvember 2022.

Foreldrar hennar voru Steinunn Gróa Bjarnadóttir, f. 9. september 1924, d. 7. ágúst 1987, og Þorvarður Trausti Eyjólfsson, f. 5. september 1921, d. 15. október 1971. Eftirlifandi bróðir hennar er Bjarni Hákonar Traustason, f. 25. mars 1953.

Árið 1970 giftist Inger Magnúsi Magnússyni, f. 13. nóvember 1944, og bjuggu þau sín hjúskaparár á Hamraendum í Borgarfirði. Þau skildu. Inger og Magnús eignuðust fimm börn, þau eru: 1) Steinunn Ingibjörg, f. 1970, gift Páli Vigni Þorbergssyni, f. 1969. Börn þeirra eru: Sesselja Gróa, f. 1992, sambýlismaður hennar Ásmundur Þrastarson. Dætur þeirra Agla Marín og Hrafntinna Embla. Andrea Kristín, f. 1996, unnusti hennar Pétur Kári Kjartansson. Vignir Steinn, f. 2001, unnusta hans Helena Anna Hafþórsdóttir. 2) Þorvarður Trausti, f. 1972, sambýliskona hans Sigurlaug Kjartansdóttir, f. 1986. Börn þeirra eru: Hrafnhildur Kristín, f. 2015, Lína Ósk, f. 2017, og Vésteinn Heiðar, f. 2021. 3) Eyjólfur, f. 1973, giftur Auði Margréti Ármannsdóttur, f. 1972. Börn þeirra eru: Ármann Bjarni, f. 2003, Trausti Leifur, f. 2004, og Inger Elísabet, f. 2005. 4) Andrea, f. 1978, gift Stefáni Teitssyni, f. 1972. Börn þeirra eru: Jóhannes Freyr, f. 1999, unnusta hans Ingibjörg Lilja Einarsdóttir. Baldur Páll, f. 2004, unnusta hans Emilía Steinunn Sigurðardóttir. Anna Björk, f. 2011. 5) Magnús Kristján, f. 1985, hann lést af slysförum 2015.

Eftirlifandi sambýlismaður Inger er Magnús Þór Þórisson, f. 16. mars 1950.

Inger ólst upp í Hlíðunum í Reykjavík. Ung að aldri tengdist hún Borgarfirðinum sem átti stóran stað í hjarta hennar alla tíð síðan. Inger var framan af starfsævi búkona og sinnti ráðskonustörfum. Um tíma vann hún við ræstingar en lengsta starfsævi sína vann hún á leikskóla. Hún hafði mikla sköpunargleði, var næm á umhverfi sitt, mikil félagsvera og tók þátt í ýmsu félagsstarfi. Síðustu árin lagði hún heilshugar rækt við félagsstörf í Birgittustúkunni Eyrarrós. Inger var jarðsungin frá Reykholtskirkju 4. desember 2021.

Kveðja frá Birgittustúkunni Eyrarrós.

Af atorku og gleði,

af geislandi lífi,

af dug og hressleika,

gekkst þú götur lífsins.

Sterk nærvera þín,

snart og yljaði.

Blessun fylgi þér

á veginum eilífa.

(Ægir Fr. Sigurgeirsson)

Ljóðið hér að ofan lýsir Inger vel. Hún var ákaflega glaðvær og hæfileikarík og tókst á við áskoranir lífsins á dugandi og kraftmikinn hátt. Allt sem hún tók að sér í stúkunni okkar rækti hún af sérstakri alúð og umhyggju. Hún hafði einstakt lag á að töfra fram eitthvað gott bæði fyrir líkama og sál. Minnisstæð er sagan sem hún samdi um okkur og skemmti okkur með þegar við fórum í helgarferð að Hreðavatni.

Við fráfall hennar myndast stórt skarð í okkar systrahóp. Við kveðjum Inger með virðingu og þökk fyrir allt sem hún var fyrir Birgittustúkuna Eyrarrós og fyrir hverja og eina okkar.

Magnúsi manni hennar og fjölskyldunni allri vottum við innilega samúð. Megi minningin um mæta konu lifa í hjörtum ykkar um ókomin ár.

Blessuð sé minning vinkonu okkar Ingerar Traustadóttur.

Bergdís Ósk Sigmarsdóttir.