Sigríður Guðmunda Einarsdóttir fæddist á Ytri-Sólheimum í Mýrdal 2. desember 1933. Hún lést á dvalarheimilinu Lundi á Hellu 6. febrúar 2022.

Foreldrar Sigríðar voru Einar Einarsson, f. 12. september 1889, d. 9. september 1955, og Ólöf Einarsdóttir, f. 8. janúar 1890, d. 22. ágúst 1976. Systkini Sigríðar: Kristjana Geirlaug Einarsdóttir, f. 29. júní 1919, d. 2. febrúar 2002, Maríus Guðni Einarsson, f. 15. mars 1923, d. 17. mars 1950, Þorbergur Einar Einarsson, f. 17. september 1925, d. 22. júní 2003, Þorsteinn Einarsson, f. 17. nóvember 1927, d. 24. nóvember 2011, Sigurjón Einar Einarsson, f. 20. október 1930.

Útför Sigríðar fer fram í Eyvindarhólakirkju í dag, 12. febrúar 2022, klukkan 14.

En komin eru leiðarlok

og lífsins kerti brunnið

og þín er liðin æviönn

á enda skeiðið runnið.

Í hugann kemur minning mörg,

og myndir horfinna daga,

frá liðnum stundum læðist fram

mörg ljúf og falleg saga.

(Höf. ók.)

Við andlát Sillu minnumst við hennar sem skemmtilegrar og litríkrar persónu. Hún var ein af fjölskyldunni, þar sem hún bjó í Efri-Holtum með Nonna frænda og kom þar fyrst sem ráðskona. Hún unni sveitinni sinni mjög, átti þar sitt heimili og leið þar vel.

Við minnumst sérstaklega árlegu jólaheimsóknanna á aðfangadag í Efri-Holt. Þegar ég var búinn að koma til þeirra með rauðvín og konfekt, þá voru jólin komin.

Hún hefur verið okkur samferða í áratugi og var okkur, dætrum okkar og þeirra fjölskyldum sem besta frænka.

Við sendum aðstandendum hennar innilegar samúðarkveðjur og blessum hennar minningu.

Bjarni og Rósa.

Silla frænka eins og við fjölskyldan kölluðum hana er látin. Bar nokkuð brátt að þó árin væru orðin allnokkur hjá henni. Hún var alltaf í miklu uppáhaldi og við reyndum að heimsækja hana og heyra í henni eins oft og hægt var. Fyrst var skroppið til hennar út að Efri-Holtum þar sem hún hélt heimili hjá honum Jóni. Margar minnisstæðar stundir þar sem spjallað var um heima og geima, drukkið kaffi og með því. Það var orðið að venju frá því að krakkarnir okkar voru lítil að koma alltaf til Sillu rétt fyrir jólin og skreyta fyrir hana og Jón jólatréð. Þessum sið héldum við þar til Jón lést og Silla flutti á Hellu og Silla var farin að hringja einhverjum dögum fyrir jól til að kanna hvort ekki stæði til að koma í jólaferðina. Alltaf fórum við og stundum var veðrið ekki gott og stundum mátti engu muna að við yrðum veðurteppt hjá Sillu. Eftir að Silla fluttist á Lund á Hellu notuðum við öll tækifæri sem við höfðum til að heilsa upp á hana þó það væri bara í gegnum gluggann hennar og var hún alltaf glöð að sjá okkur. Krakkarnir okkar hugsa með miklum hlýhug til hennar Sillu frænku og þeim fannst alltaf jafn gaman að opna jólagjafirnar frá henni því það voru alltaf margar gjafir í hverjum pakka. Hún þurfti alltaf að fá fréttir af krökkunum þegar við hittum hana eða heyrðum í henni og alltaf var hún jafn ánægð með þau öllsömul. Silla mundi alltaf eftir afmælisdögum krakkanna og stundum kom hún en oftast hringdi hún. Eitt skipti kom hún á afmælisdegi Kristínar okkar og þá voru systurnar einar heima en þær drifu í að hella upp á kaffi og baka pönnukökur handa gestunum. Þetta fannst henni Sillu alveg frábært og talaði um þetta í mörg ár á eftir. Silla var hreinskilin kona og maður vissi alltaf hvar maður hafði hana. Hún lá ekkert á skoðunum sínum og lét alveg vita ef henni mislíkaði. Silla átti engin börn sjálf en systkinabörn hennar voru henni sem hennar börn. Það var mikill kærleikur milli hennar og Einars enda bjó Silla á heimilinu á tímabili meðan hann var barn. Þegar miðjudóttir okkar fæddist fannst Einari nauðsynlegt að Silla fengi nöfnu og okkur er það svo minnisstætt þegar stúlkan var skírð, þá var Silla auðvitað í messunni og bjóst greinilega ekki við neinu því þegar nafnið hennar var nefnt þá varð Sillu svo mikið um að hún settist bara niður. En auðvitað þurfti að yngja Sigríði Einarsdóttur upp, annað var bara ekki hægt.

Við munum sakna hennar Sillu mikið og hugsa til hennar með miklum hlýhug. Við sendum öðrum aðstandendum samúðarkveðjur. Hvíldu í friði, kæra frænka.

Einar Guðni, Petra

Þorsteinn Björn, Ólöf Sigurlína, Sigríður Ingibjörg og Kristín Gyða.