Í grafíksal Þóra Sigurðardóttir opnar sýningu í dag í Hafnarhúsi.
Í grafíksal Þóra Sigurðardóttir opnar sýningu í dag í Hafnarhúsi. — Morgunblaðið/Styrmir Kári
Myndlistarkonan Þóra Sigurðardóttir opnar í dag kl. 14 til 17 sýningu í sal félagsins Íslensk grafík í Hafnarhúsinu, hafnarmegin, og stendur sýningin til 6. mars.

Myndlistarkonan Þóra Sigurðardóttir opnar í dag kl. 14 til 17 sýningu í sal félagsins Íslensk grafík í Hafnarhúsinu, hafnarmegin, og stendur sýningin til 6. mars.

Á sýningunni má sjá ætingar, prentaðar af málmplötum á bómullarpappír og teikningar sem Þóra vann á hörstriga.

Þóra hefur sýnt verk sín reglulega, bæði á sam- og einkasýningum. Hún hefur auk þess starfað við myndlistarkennslu og sýningastjórn og var skólastjóri Myndlistaskólans í Reykjavík til margra ára. Nú rekur hún sýningarýmið á Nýp á Skarðsströnd með Sumarliða Ísleifssyni.

Í tilkynningu segir að Þóra hafi byrjað að kenna við Myndlistaskólann í Reykjavík árið 1985 og haldið utan tveimur árum síðar í framhaldsnám í skúlptúr og rými í Danmörku. Eftir námið kenndi hún grunnatriði teikningar og rýnis í listaskólum og vann einnig með efni, rými og teikningu í eigin verkum, eins og því er lýst. Sá grunnur er viðfangsefni í þeim verkum sem Þóra sýnir nú, segir einnig í tilkynningunni, þ.e. teikningar gerðar með grafíti, bleki, kolum og eggtemperu á hörstriga ásamt teikningum sem útfærðar eru með ætingu í málm, handprentaðar á 270 gramma bómullarpappír. Prentverkin vann hún í vinnustofudvöl í Feneyjum og á grafíkverkstæðinu í Hafnarhúsi.

Í tilkynningu segir að ef til vill mætti ssegja að verkin séu að nokkru leyti með eiginleika skúlptúrs þar sem lag sé lagt ofan á lag af efni og hlaðið upp a láréttu plani pappírs eða striga.

Sýningarsalurinn er opinn miðvikudaga, fimmtudaga, föstudaga og laugardaga frá kl. 14 til 17 og er aðgangur ókeypis.