— Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Því er haldið fram, að helstu snillingsmenni á leikvelli diplómatíunnar, geti sagt viðmælanda sínum, í löngu máli, að fara til andskotans, með þeim árangri að þeim sama vöknar um augu af þakklæti og hann hlakkar til fararinnar.

Því er haldið fram, að helstu snillingsmenni á leikvelli diplómatíunnar, geti sagt viðmælanda sínum, í löngu máli, að fara til andskotans, með þeim árangri að þeim sama vöknar um augu af þakklæti og hann hlakkar til fararinnar.

Fær ráð en er ekki herra

Fulltrúum á dekki utanríkisráðuneyta er ætlað að tileinka sér greinina til fulls, en ráðherrar, sem koma þangað og fara, hafa aukið svigrúm til hreinskilni, þótt atvinnumenn, sem lengst eru komnir og lengst hafa starfað, jesúsi sig, svo lítið ber á, stynja svo nokkrir saman, er þeir klingja kristalsglösum í sínum hópi og ræða um klaufaspörk „húsbóndans“.

Iðulega er þó elskulegur tónn, svipaður þeim þegar rætt er góðlátlega um óvitana í eigin fjölskyldu. Það er óhætt að gera í þeirri vissu að þroski og leiðbeining muni að lokum koma þeim áleiðis á rétta braut.

En um „húsbóndann“ er allt óvissara og raunar ólíklegt að slíkur taki nokkru sinni merkjanlegum framförum. Afsökunin er auðvitað sú að þeir stoppa ekki lengi við. Kjósendur eða „félagarnir í flokknum“, eða samstarfsflokki eða -flokkum munu tryggja það. En það sem er þó meginregla og viðvarandi fagnaðarefni er að nýr ráðherra er oftast léttur í taumi og fer vel í hendi. Hann kemur einn eða fámennur, iðulega með hálfgerðan ungling eða vinkonu sér til trausts og þykir elskulegt og notalegt að heyra oft og reglulega mat þeirra sem fyrir eru, um að fáir eða nokkrir skammtímamenn hafi haft jafn víðtækan skilning á göldrum utanríkismála og einmitt hann. Þessi álitlega einkunnargjöf virðist eiga það með slíkum úr æfingabúðum leyniþjónustu, að þetta hrós berst aldrei út.

Öðruvísi þeim áður brá

Forðum tíð gerðist það í fjarlægum löndum að utanríkisráðherrar eða ígildi þeirra entust vel og reyndar betur en beitarhúsamenn sjálfir. Þá var leikreglunum snúið við og hefðbundið mikillæti, sem farið var með af leikni, hvarf nú fyrir auðmýkt í þeim mæli að jafnvel húsbóndanum varð nóg um. Metternich kemur í huga, en merkastur manna í þeim flokki var Talleyrand sem þjónaði mörgum frægum Frökkum og stundum ólíkindatólum, sem iðulega voru andstæðingar og hættulegir óvinir, en Talleyrand flaut ofan á, undir eða fram hjá öllum þeim óþægindum, sem voru mörg hver lífshættuleg í orðsins fyllstu merkingu. Þegar breskum forsætisráðherra barst sú frétt yfir sundið að Talleyrand væri fallinn frá, hálfníræður, settist hann hugsandi í hægindastól sinn og sagði upphátt við sjálfan sig: „Hvern þremilinn er Talleyrand nú að bralla með þessu óvænta útspili?“

En þótt reglan sé nú orðið sú, að utanríkisráðherrar sitji miklu mun skemur en háttsettustu undirsátar þeirra í áhrifahlutverki, þá eru dæmin um hitt enn til.

Mætt til Moskvu

Breski utanríkisráðherrann, Elísabet Truss, sótti Moskvu heim „vegna Úkraínumálsins“ eins og svo margir starfsbræður hennar aðrir eru sólgnir í að gera. Breskir fjölmiðlar, a.m.k. þeir sem er hlýtt til hins nýja ráðherra, taka upp þykkjuna fyrir hann og telja að gestgjafinn, rússneski utanríkisráðherrann Sergei Lavrov, hafi tekið hryssingslega á móti henni („sem sé kona“). Það er auðvitað þekkt sem yfirskrift á fundum utanríkisráðherra landa, þegar stórmál eru ekki uppi, og ferðir á milli landa eru því til kynningar þeim sem nýlega eru komnir í embætti, að upplýst er að „ráðherrarnir hafi rætt tvíhliða samskipti landanna“...og svo er einhverju gjarnan skotið með til fyllingar.

Óvæntir hittast

Lavrov utanríkisráðherra sagði eftir viðræðurnar að fundur ráðherranna hefði helst minnt á „fund þegjandi mans með heyrnarlausum“. Ráðherrann bætti því við, að hann sæi ekkert gagn í að eiga fund með Truss utanríkisráðherra til að ræða „stöðu tvíhliða samskipta ríkjanna“ á lægsta punkti slíkra, því að breski ráðherrann vildi „ræða um stöðuna í Úkraínu, sameiginlegar æfingar rússneskra og hvítrússneskra herja, endurupptöku samninga við Íran um kjarnorkuvopn, og um samvinnu Rússlands og Kína“! Lavrov sagðist hafa upplýst Truss ráðherra um hægagang við að fullnusta Minsk-samkomulagið um að útkljá deilur um Úkraínu og um ramma sameiginlegra heræfinga Rússlands og Hvíta-Rússlands, og um jafnvægið í samskiptum Rússlands og Kína, sem byggðist á gagnkvæmri virðingu ríkjanna. Augljóst mátti vera að rússneska utanríkisráðheranum þótti sérkennilegt að breski ráðherrann léti senda sig til Moskvu til þess eins að fara með tossalista utanríkisráðuneytisins um þætti sem allir lægju fyrir, og það á fundi sem óskað var eftir vegna þess, að mál væru komin út á ystu brún að mati fundarbeiðanda sjálfs.

Ítrekað og undirstrikað

Og hann undirstrikaði þetta: „Ég verð að að vera algjörlega hreinskilinn og segja það sem mér býr í brjósti. Með þessari aðferð hefur verið stofnað til samræðna á milli þess sem þegir og þess sem er heyrnarlaus. Það er augljóst, að þær útskýringar sem við gáfum niður í smæstu atriði, féllu flatar í jarðveg sem var algjörlega undirbúningslaus.“

Það er lítill vafi á því, og í góðu samræmi við langa sögu, að þegar mjög þröngur hópur innvígðra hefur hist í breska utanríkisráðuneytinu þá hafa þeir brosað út í annað og skálað í viðeigandi veigum yfir því að nýi ráðherralærlingurinn þeirra hafi ekki svikist um að tryggja þeim þessa notalegu samverustund. Og nokkrum sinnum þessa kvöldstund minntu þeir hver annan á að elskulegi nýi ráðherrann þeirra hefði, áður en hún varð utanríkisráðherra, verið ráðherra kvennamála og jafnréttis. „Aldrei náði Churchill að sinna slíkum verkefnum þrátt fyrir mikinn metnað,“ sögðu þeir og skáluðu fyrir báðum, mikilmenninu með vindilinn og þeirra eigin núverandi ráðherra, sem miðaði svona líka vel.

Hittust bolti og reynslubolti?

Lavrov hefur verið utanríkisráðherra í ein 18 ár og þar á undan nærri 10 ár innsti koppur Rússa hjá Sameinuðu þjóðunum. Og sjálfsagt hefur einhver á klíkufundinum í leðursettinu í breska utanríkisráðuneytinu átt bágt með að rifja ekki upp að foreldrar íhaldsráðherrans, faðirinn prófessor við virðulegan háskóla, hefðu löngum verið mjög langt til vinstri við breska Verkamannaflokkinn. Móðirin hefði lengi verið forsprakki mótmælenda gegn kjarnorkusprengjum og kjarnorkuverum. Truss sjálf hefði á háskólaárum sínum verið foringi hjá ungum í Frjálslynda flokknum og seinna, sem ráðherra í ríkisstjórnum þeirra Camerons og May, algjörlega andvíg útgöngu Breta úr ESB, en snerist til fylgis við útgönguna eftir að hún var samþykkt! Ekki er útilokað að hinir fínu menn hafi náð að skála þrívegis fyrir þessu öllu.

Blaðamannafundur ráðherranna var, hvað sem þessu líður, upplýsandi um margt. Má hafa ríkulegt gagn af því að fara í gegnum frásagnir um hann frá orði til orðs, þótt ekki væri til annars en að dást að góðum íþróttamönnum í pólitískum skylmingum. En þótt margt það sem þar kom fram hafi verið óvenjulegt og tæpitungulaust væri of mikið sagt að út úr því mætti lesa hvernig eða hvenær þessum erfiðu og skrítnu deilum lýkur, og hvort vel eða illa muni rætast úr. Lavrov benti t.d. á, að meginefni allra sendiboða Natóríkja, sem óska eftir að fá að koma á fundi í Moskvu, gengur út á síendurtekna kröfu um að Rússland færi herlið sitt til á eigin landi! En á sama tíma séu sendir hermenn frá ýmsum löndum um langan veg til annarra ríkja sem eiga landamæri að Úkraínu og eftir atvikum að Rússlandi sjálfu! Og þannig mætti áfram rekja.

Eins og fyrr sagði þá brugðust sum bresk blöð hart við snöfurmannlegri framgöngu Sergei Lavrov gagnvart hinum óreynda utanríkisráðherra Breta. Þeir sem lengst gengu uppnefndu Lavrov sem handlangara Pútíns og jafnvel „böðul“ hans.

Það fer auðvitað ekki á milli mála að forseti Rússlands ber gott trausts til utanríkisráðherra síns. Og allir vita að Pútín er kröfuharður og það er enginn aukvisi sem fer með svo erfitt embætti á viðkvæmum stað svo lengi, og eins vel og raun ber vitni um Lavrov. Enginn vafi er á að hann nýtur virðingar á Vesturlöndum og þeir, sem svo margir hafa átt skipti við hann úr sambærilegum embættum, þar sem hann hefur setið manna lengst, segja að ekki fari á milli mála að þar sé verðugur andstæðingur á ferð.

Eftirminnilegt atvik

Bréfritari var á sínu eina ári sem utanríkisráðherra um svipað leyti og Sergei Lavrov var að byrja sína löngu tíð í slíku embætti. Í Morgunblaðinu segir svo: „Ráðherrafundur aðildarríkja Norðurskautsráðsins verður haldinn í dag. Davíð Oddsson utanríkisráðherra stýrir fundinum, en Ísland hefur farið með formennsku í ráðinu sl. tvö ár. Á fundinum verður m.a. fjallað um nýútkomna skýrslu ráðsins um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Lagt verður fram sérstakt stefnumótandi skjal um viðbrögð aðildarríkjanna við skýrslunni. Meðal þeirra sem koma til með að sitja fundinn er Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands.“

Senn eru liðnir tveir áratugir frá þessum fundi og væri þeim, sem þar voru, upp á lagt að rifja upp einstök atriði þaðan, má vera að margt stæði í flestum. Fundirnir eru ótal margir, og ráðstefnurnar hverjar öðrum líkar. Hádegisverðir og kvöldverðarboð með frægu fólki nálgast að vera óteljandi. En þó er það svo, að það eru einstök atriði, kannski smáatriði, sem sitja lengst eftir í minninu.

Óvænt og ófyrirsjáanlegt

Bréfritari hélt Sergei Lavrov fámennan málsverð og minnir að þar hafi verið fjölbreyttir síldarréttir á borði og annað íslenskt. Kannski hefur það orðið til þess óvenjulega samtals sem síðar skal greina að nokkru. Fyrst verður að segja að Lavrov kom prýðlega fyrir sjónir og bar af sér góðan þokka og var þægilegur þótt hann væri ekki að gera neitt sérstakt í því. Það eru jú tæp 20 ár frá okkar fundi. Og kannski varð veislukosturinn til þess að samtalið þróaðist eins og það gerði. Allt var pent og notalegt og skálað var í drykkjum frá báðum löndum, sem fóru vel með fyrrnefndum kosti. Eftir eina slíka skál snýr Lavrov sér að gestgjafanum og segir á sinni afbragðsensku: „Segðu mér, utanríkisráðherra, hvernig hefur Þórhallur Ásgeirsson það?“ Nafnið bar hann furðu vel fram. Bréfritara dauðlangaði að spyrja hvers vegna í ósköpunum hann nefndi þetta, en ákvað að bregðast við eins og spurningin væri sjálfsögð. Hann upplýsti að Þórhallur Ásgeirsson væri nú harðfullorðinn maður (hann lést árið eftir) og nokkuð farinn að heilsu, en hefði auðvitað lengi verið lykilmaður í íslenskri stjórnsýslu. Lavrov sagðist hafa gert sér grein fyrir því og eins því að Þórhallur hafi verið sonur forseta Íslands. Bréfritari hafði á tilfinningunni að Lavrov áttaði sig á að gestgjafinn rembdist við að stilla sig um að óska skýringar á spurningunni. Þá varð það sem við kölluðum „kúnstpásu“ hér áður fyrr. En Lavrov tók þá að spyrja um menn sem bréfritari ýmist þekkti til eða þekkti persónulega. Þar voru bæði menn úr stjórnsýslunni og forystumenn fyrirtækja sem átt höfðu veruleg samskipti við Sovétríkin og síðan Rússland. Kunni rússneski utanríkisráðherrann öll þessi nöfn utan bókar og bréfritari skaut inn upplýsingum um persónulega hagi þeirra eftir því sem hann vissi best. Eftir að hafa lokið þessum þætti sagði Lavrov eitthvað á þessa leið: Ég sé að þú stilltir þig um að ganga á mig vegna þessarar þekkingar minnar. Við það var kannast. Og svo kom lausn gátunnar: Móðir mín var embættismaður í utanríkisviðskiptaráðuneyti Sovétríkjanna. Allir þessir menn áttu erindi við það ráðuneyti. Móðir mín varð ritari í viðskiptanefnd fyrir Ísland. Þessir menn voru elskulegir heiðursmenn. Kynni við þá stóðu mjög lengi og þeir komu iðulega heim til móður minnar þegar ég var drengur. Þeir voru notalegir og þáðu iðulega kvöldverð hjá okkur. Þeir komu gjarnan með gjafir sem tengdust þeirra fyrirtækjum eða því sem íslenskt er, en allt þó í senn myndarlegt og hófsamlegt og innan allra eðlilegra marka. Mér þótti tilhlökkunarefni að hitta þá. Og þessi litla og notalega síldarveisla sem þú, ágæti starfsbróðir, bauðst mér til, kveikti á þessum þekkilegu minningum úr æsku minnar tíð. (Þessi endursögn er eftir minni. En bréfritara þótti til um þetta atvik, svo að hann hefur vafalítið munað það bærilega vel). Það var ekki hægt annað en að falla prýðilega vel við Lavrov.

Þeir leynast víða Íslandsvinirnir, var það fyrsta sem sagt var við konuna þegar heim var komið.