[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Þór Jónsson fæddist 12. febrúar 1947 á Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og ólst þar upp til átta ára aldurs, fluttist þá á Akranes og bjó þar til 1967. Hann flutti í Búrfell í Gnúpverjahreppi 1967 og síðan að Stóra-Núpi 1969.

Gunnar Þór Jónsson fæddist 12. febrúar 1947 á Skeiðsfossvirkjun í Fljótum og ólst þar upp til átta ára aldurs, fluttist þá á Akranes og bjó þar til 1967. Hann flutti í Búrfell í Gnúpverjahreppi 1967 og síðan að Stóra-Núpi 1969. „Ég hef sagt að ég hafi eiginlega orðið eftir í Gnúpverjahreppnum, ég fór upphaflega til að vinna við virkjunarframkvæmdir í Búrfellsvirkjun en svo kynntist ég konunni minni þar og við höfum núna búið saman á Stóra-Núpi í 52 ár.“

Gunnar Þór var í sveit á Reykjarhóli í Fljótum sumrin 1956 og 1957, Arnarholti í Stafholtstungum 1958 og á Eyri í Svínadal 1959.

Hann gekk í Barnaskóla og Gagnfræðaskóla Akraness. Hann lauk sveinsprófi í vélvirkjun 1969 og hlaut meistararéttindi 1975 frá Iðnskólanum á Akranesi, sveinspróf í bifvélavirkjun 1981 og meistararéttindi 1986 frá Iðnskólanum á Selfossi. Hann lauk 8. stigs prófi í söng frá Tónlistarskóla Árnesinga árið 2000.

Gunnar Þór vann í vélsmiðju Þorgeirs & Ellerts á Akranesi og Vélsmiðjunni hf. á Akranesi 1962-1967, sem nemi í vélvirkjun. Hann vann hjá Landsvirkjun 1967-1981 og 1989-1999, sem vélvirki, bifvélavirki og tækjastjóri við virkjanaframkvæmdir við Búrfell, Vatnsfell, Þórisós, Sigöldu, Hrauneyjafoss og Sogsvirkjanir. Hann vann hjá Stálafli svf. og á vélaverkstæðinu Stöng í Árnesi í Gnúpverjahreppi 1982-1989, og stjórnaði rekstri vélaverkstæðis. Hann vann síðan á verkfræði- og framkvæmdasviði Landsvirkjunar 1996-2001, sem verkstjóri og eftirlitsmaður við aflaukningu Búrfellsvirkjunar og við endurnýjun vélar nr. 3 við Írafossvirkjun. Hann vann hjá Stólpa ehf., 2002-2003, sem verkstjóri í vélsmiðju, hjá Ræsi hf., 2003-2008, Icelandic Hydrogen ehf. 2008-2010 og hjá Vetnisrafbílum ehf, 2010-2011, sem þjónustustjóri vetnisbíla. Hann stofnaði eigið fyrirtæki, Núpstækni ehf., 2011-2019.

„Það var til þess að geta orðið verktaki hjá Marel. Ég var í samsetningum á vélbúnaði hjá þeim. Sveinn sonur minn og kona hans eiga það fyrirtæki í dag.“ Helsti starfsvettvangur Gunnars Þórs var við virkjanir og sjálfur fæddist hann og ólst upp í virkjun og kynntist konunni sinni í annarri virkjun. „Ætli þetta hafi ekki verið skrifað í sandinn, það sem kallað hefur verið örlög.“

Gunnar Þór hefur verið öflugur í félagsmálum. Hann var formaður og ritari Ungmennafélags Gnúpverja um tíma og tók jafnframt þátt í leiklistarstarfi félagsins. Hann var varaformaður stjórnar HSK 1996-2000 og hefur verið í Slysavarnafélagi Gnúpverja frá 1990. Hvað ritstörf varðar þá hefur hann séð um hönnun og haft umsjón með ýmsum heimasíðum. Gunnar Þór var í Lúðrasveit Akraness 1962-1967 og einn af stofnendum sveitarinnar. Hann hefur verið í sönghópnum Perluvinum frá 1995, en sönghópurinn gaf út geisladisk árið 2000. Hann er núna í kórnum Tvennir tímar en hefur áður verið í Árneskórnum, þar sem hann var formaður um tíma, Samkór Selfoss, Skálholtskórnum, Kór Stóra-Núpskirkju, Óperukórnum og Kór Óperusmiðjunnar.

„Ég lagði um tíma stund á golf og hef stundað bogfimi frá árinu 2012.“ Hann hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar á þeim vettvangi. „Ég kom upp löggiltum bogfimikeppnisvelli heima á Stóra-Núpi og hef haldið þar ýmis mót. Auk bogfiminnar eru helstu áhugamál tónlist, gönguferðir og ýmiss konar handverk.“

Fjölskylda

Eiginkona Gunnars er Ingunn Sveinsdóttir, f. 21.6. 1949, matráður í Eiríksbúð við Búrfellsvirkjun. Foreldrar Ingunnar voru Sigríður Finnbogadóttir, f. 11.8. 1916 , d. 10.2. 1981, ljósmóðir og húsfreyja á Stóra-Núpi, og Sveinn Ágústsson, f. 10.10. 1923, d. 2.2. 1991, kennari og bóndi á Móum í Gnúpverjahreppi. Stjúpfaðir Ingunnar var Jóhann K. Sigurðsson, f. 19.10. 1904, d. 29.3. 1997, bóndi á Stóra-Núpi.

Sonur Gunnars og Guðlaugar Sigrúnar Sigurjónsdóttur, f. 9.2. 1951, er 1) Rúnar Þór, f. 14.2. 1968, stýrimaður, búsettur á Akranesi. Maki: Eva Rós Sveinsdóttir, starfsmaður félagsþjónustu Akraness. Börn Rúnars Þórs eru Fjalar Þór, f. 1991, Ína Sigrún, f. 1993, Ísold, f. 1997, Júlíus Þór, f. 2006, Nína Guðlaug, f. 2006, og Gabríel Einar, f. 2009. Barnabörn Rúnars Þórs eru tvö. Börn Gunnars og Ingunnar eru 2) Sigríður, f. 23.11. 1969, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum, búsett í Reykjavík, maki: Haraldur Magnús Haraldsson geðlæknir. Börn þeirra eru Valdís Inga, f. 2004, og Tómas Yngvi, f. 2007, 3) Hildur Gróa, f. 20.7. 1972, íslenskukennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, búsett í Kópavogi, maki: Skarphéðinn Pétursson hrl. Börn þeirra eru Auður, f. 2000, Vigdís, f. 2001, og Pétur, f. 2009; 4) Sveinn Þór, f. 2.3. 1977, maki: Elwira Kacprzycka, ferðaþjónustubændur í Gnúpverjahreppi. Sonur þeirra er Henrý Þór, f. 2018.

Systkini Gunnars: Svana Jónsdóttir, f. 18.8. 1939, d. 17.10. 2020, bankaritari og húsmóðir á Akranesi; Halldór Friðgeir Jónsson, f. 29.6. 1941, vélvirki á Akranesi; Margrét Jónsdóttir, f. 21.5. 1944, kennari á Akranesi; Þórelfur Jónsdóttir, f. 4.6. 1945, d. 16.9. 2015, leikskólakennari í Hafnarfirði; Lovísa Jónsdóttir, f. 4.1. 1949, skrifstofumaður í Reykjavík; Ólöf Jónsdóttir, f. 9.4. 1950, hótelstarfsmaður í Reykjavík; Einar Jónsson, f. 7.8. 1951, fjármálastjóri á Akranesi; Svanborg Rannveig Jónsdóttir, f. 7.2. 1954, prófessor við HÍ, búsett á Stóra-Núpi, Svanfríður Jónsdóttir, f. 28.5. 1955, hótelstjóri Center Hotels í Reykjavík.

Foreldrar Gunnars voru hjónin Anna Halldórsdóttir frá Ísafirði, f. 18.8. 1913, d. 24.11. 1978, húsfreyja, og Jón Einarsson frá Siglufirði, f. 6.1. 1917, d. 6.8. 2010, vélstjóri.